Gerpla Halldórs Laxness, saga fóstbræðranna Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðs Bessasonar Kolbrúnarskálds, er glæsilegt verk sem hefur margt til að laða að sér breiðan hóp lesenda: mikla atburðarás og lifandi lýsingar á stórum og smáum viðburðum, spennu og ofbeldi, óleyfileg erótísk sambönd, einlæga vináttu og heitar ástir. Hún hefur fornlegan stíl, er fyndin og hefur djúpan og brýnan boðskap. Og hún hefur – síðast en ekki síst – þá dásamlegu blöndu af einlægum tilfinningum og háði sem einkennir bestu bækur Halldórs. Enda gerði ég hvort tveggja að hlæja og gráta í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi þegar Baltasar Kormákur frumsýndi leikgerð sína og Ólafs Egils Egilssonar á sögunni.

GerplaGerpla er löng og mikil saga sem fer víða: um Vestfirði, Grænland, Noreg, Danmörku, Frakkland og jafnvel víðar um Evrópu, því annar fóstbræðranna, Þorgeir (Jóhannes Haukur Jóhannesson), er í her Ólafs digra Noregskonungs og stríðir með honum um allar jarðir. Höfundar leikgerðarinnar taka þá skynsamlegu ákvörðun að gera hinn fóstbróðurinn, Þormóð (Björn Thors), að meginpersónu sinni og fylgja honum, fyrst á þvælingi með Þorgeiri innanlands, síðan inn í sæluríkið í Ögri í sambúð þeirra Þórdísar Kötludóttur (Ilmur Kristjánsdóttir) sem varir uns Þormóði er fært höfuð Þorgeirs og hann hlýtur að yfirgefa konu, börn og bú til að hefna fóstbróður síns.

Hópurinn fer óvenjulega leið að verkinu – alltént kom hún mér á óvart. Þeir halda stíl sögunnar á samtölum og frásögn sögumanns en brjóta hátíðleika orðfærisins stöðugt upp með hugmyndaríkum brögðum, einstaklega hugkvæmum sviðsbúnaði Gretars Reynissonar og stílfærðum leik. Þarna á milli myndaðist skemmtileg tvíræðni sem er alveg í samræmi við stílfærslu Halldórs sjálfs í sögunni. Aðferðin eins og hún blasir við á sviðinu er eins og að leikhópur – kannski í skóla eða félagsheimili á landsbyggðinni – ákvæði að segja þessa sögu og leikgera hluta hennar um leið. Allir eru eins klæddir í þrönga svarta samfellu og svartar sokkabuxur og minnti hópurinn mest á glímumenn. Búningurinn, snilldarlausn Helgu I. Stefánsdóttur, tekur vel við viðbótum af ýmsu tagi, sjölum, skikkjum eða svuntum, sem er hentugt af því að fólk er alltaf að skipta um hlutverk, þau eru geysilega mörg og aðeins ellefu manns í leikarahópnum. Alltaf er (nægilega) skýrt hver er hvað og hvað er að gerast. Hópurinn leggur áherslu á fyndni frásagnarinnar og atburðanna, og vegna þess hvað maður hlær innilega hittir harmurinn ennþá sárar í lokin.

Mikið hefur löngum verið gert úr því að Gerpla sé uppgjör Halldórs við kommúnismann og Ólafur digri kóngur sé táknmynd Stalíns. Áreiðanlega er talsvert til í því, en Gerpla er á mörgum plönum og sum þeirra ná mun betur til okkar hér og nú, ekki síst ungra áhorfenda sem ég vona að flykkist í leikhúsið. Á grunnplaninu er Gerpla um tvo stráka sem bindast vináttuböndum þótt ólíkir séu – og geta líklega flestir fundið hliðstæðu í lífi sínu við það. Þormóður er tilfinninganæmur, skáldmæltur, kvensamur – enda kvennagull – og eins og oftar kemur fyrir í bókum Halldórs er hann skemmdur af konu sem tekur hann upp í til sín of ungan. Þorgeir er fauti og hefur síst áhuga á kvenfólki. Sagan klifar á því að hann sé heimskur, en það er ekki versti galli hans. Hann er lítill kall, ekki verður þeirrar ástar sem Þormóður leggur við hann. En ekkert sem Þormóður gerir er hálft, og hann tekur mun nær sér fóstbræðralagið sem þeir gengu í ungir. Þess vegna fórnar hann hamingju sinni, lífi og limum fyrir hefndina og þann kóng sem Þorgeir hefur sagt honum að tigna og er ekki þess verður – fremur en Þorgeir – eins og Þormóður kemst að í lokin.

Í sýningunni skín skærast stjarna Björns Thors sem vinnur Þormóð ef innileika, sannfæringu og miklum líkamlegum þrótti og fimi. Hann ræður líka afar vel við málsnið Halldórs, setningarnar hans heyrðust vel og urðu furðu munntamar – miðað við að svona talar enginn maður og hefur aldrei gert! Þetta sama átti við þær sem léku konurnar í lífi hans, Ilmi Kristjánsdóttur og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur sem lék Kolbrúnu þá sem Þormóður var kenndur við af því að hann orti til hennar kvæði tólf eða fjórtán ára. Þær Ilmur og Ólafía Hrönn voru frábærar í öllum sínum hlutverkum og það var Brynhildur Guðjónsdóttir líka í ýmsum smáhlutverkum, jafnvel þegar hún lék af list sláturfé sem hangir á slá og blóðið lagar úr. Glæsilegir í orði og verki voru líka Ólafur Darri Ólafsson í hlutverkum Vermundar goða og Ólafs digra, Atli Rafn Sigurðarson sem Sigvatur apvetningur, Ólafur Egill í hlutverki Jörundar klerks og Stefán Hallur Stefánsson í ýmsum hlutverkum, mestmegnis misindismanna.

Aðrir leikarar áttu erfiðara með að láta í sér heyra og taka almennilega utan um sínar erfiðu setningar. Þá hluti þarf að vinna áfram. Lilja Nótt Þórarinsdóttir átti bágt í fyrstu sem Katla húsfreyja en óx með hverju hlutverki og var fínn norskur kotbóndi þegar Þormóður kemur til Noregs. Jóhannes Haukur verður að taka sig á til að hann skiljist betur og Sindri Birgisson var óþarflega máttlaus í mikilvægu hlutverki Kolbaks þræls, þess sem hjálpar Þórdísi í Ögri að leysa vistarbönd Þormóðs bónda hennar.

Það var gaman að vera í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Allir voru svo glaðir í hléinu og margur vangi tárvotur af innlifun þegar sýningu lauk. Þetta er vel heppnuð tilraun til að sviðsetja stóra skáldsögu sem segir okkur að trúa ekki á neitt í blindni og hafa forgangsröðina heilbrigða. Margar myndir úr sýningunni munu lifa í huganum og verða viðmið á komandi árum. Ég nefni bara bardagasenu í “slow motion”! Og þó að það hljóti að hafa verið freistandi að tengja efni Gerplu við “ástandið”og útrásarvíkingana var leikhúsgestum að mestu látið það eftir sjálfum. Það var fallega gert.

Silja Aðalsteinsdóttir