Besti vinur minn sór þess snemma dýran eið að verða leiðinlegt og erfitt gamalmenni. Auðvitað hlógum við að honum en stundum tekst honum ætlunarverkið, það verð ég að viðurkenna, oftar samt ekki. Sæunn (Guðrún S. Gísladóttir) í nýju leikriti Matthíasar Tryggva Haraldssonar, sem frumsýnt var á Litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi, veit að það eru til kúl gamalmenni og það eru til lúðaleg gamalmenni. Hún vill vera kúl, það viljum við áreiðanlega flest, burtséð frá yfirlýsingum um annað, og stundum tekst henni að vera býsna kúl. En gagnvart svo mörgu er erfitt að vera kúl, einkum þó gagnvart börnunum. Sæunn elskar soninn Lárus af öllu sínu hjarta en hvort tveggja er að hann hefur sett foreldra sína á stofnun og svo hefur hann ekki gefið henni það sem hún þráði mest. Það var raunalegt að sjá hvað samtöl þeirra í símann voru endaslepp og andstyggileg en svo gat hún endalaust talað við hann inn á upptökutækið sitt.

Sæunn elskar líka manninn sinn hann Trausta (Jóhann Sigurðarson) og neitar að láta hann frá sér þó að hann sé mun verr farinn en hún til andlegrar heilsu. Hann er manneskja, segir hún, og hún er sjálf manneskja og þau hafa lafað saman í hálfa öld. Hví skyldi hún skilja við hann núna? Hann er að vísu orðinn ansi þreytandi – endurtekur setningar sí og æ, reynir að rifja upp minningar sem leysast upp í ekki neitt, dettur út af í sífellu, gerir í buxurnar, nennir ekki að klæða sig, tuldrar og muldrar – en inn á milli koma skærir skilningsglampar. Þetta kannast margir við og það var undur hvað risinn Jóhann Sigurðarson varð lítill og aumur í hlutverkinu en þó svo ógnarstór.

Sýningin á Síðustu dögum Sæunnar er fjörug og hressandi þrátt fyrir dapurlegt efni, og kemur þar margt til. Textinn er frjór, fyndinn og beinskeyttur, tekur vel á efninu sem er ellihrörnun og biðin eftir dauðanum. Einn gesta á frumsýningu hafði á orði að eiginlega sé það undur að svo ungur maður (ekki þrítugur) skuli geta samið svo þorskað verk og af svo góðri þekkingu. Sviðið hennar Elínar Hansdóttur virðist í fyrstu vera kalt og stofnanalegt en á til alls konar hlý tilbrigði í lýsingu Pálma Jónssonar. Tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar lét lítið á sér bera en var hárrétt. Og utan um allt heldur Una Þorleifsdóttir leikstjóri af styrk og smekkvísi.

Mest munaði þó um leik Guðrúnar sem ég fullyrði hér og nú að allir verði að sjá: Allir sem unna góðu leikhúsi og allir sem horfast í augu við Elli kerlingu sér til ama – eða ekki. Hún var hreinlega magnþrungin í túlkun sinni á konu sem er alls ekki viss um að hún hafi lifað góðu og hamingjusömu lífi, nú þegar því er að ljúka. Kvíði hennar, angist, gleðin þegar hún ímyndar sér að hún geti platað einhvern til að halda að hún sé önnum kafin og sátt, misbælda ergelsið þegar hún fær engin svör frá eiginmanninum nema bull, fljúgandi mælskan þegar hún komst í stuð, allt gekk þetta manni að hjartarótum um leið og það dillaði á sinn hátt.

Guðrún og Jóhann voru ekki alveg ein á sviðinu, Snorri Engilbertsson gægðist inn í hlutverki gæslumanna en fékk að njóta sín betur sem heldur galgopalegur sálfræðingur Sæunnar, einkum þegar hann krafðist þess að fá að leika sjálfan dauðann á móti henni. Við fáum ekki að hitta Lárus en á móti kemur að við höfum hitt hann áður, í verkinu Griðastað eftir Matthías Tryggva sem sýnt var í Tjarnarbíó fyrir fjórum árum!

Matthías Tryggvi sannar nú það sem maður var nokkuð viss um eftir Þvott, Griðastað og Stóra Björn og kakkalakkana að hann var kannski æðislegur Hatari en hann er ennþá betra leikskáld.

Silja Aðalsteinsóttir