Jól á náttfötunumÞau voru að sprengja enn eina gleðisprengjuna í Gaflaraleikhúsinu, Jól á náttfötunum eftir Gunnar Helgason og Felix Bergsson sem þeir leika líka ásamt Karli Olgeirssyni píanóleikara. Lögin smellnu semja þeir Jón Ólafsson og Máni Svavarsson, ljósunum sem taka fullan þátt í sýningunni stýrir Freyr Vilhjálmsson og leikstjóri er að sjálfsögðu Björk Jakobsdóttir sem líka sér um jólalega leikmyndina. Það er að segja fyrir utan bíóið fyrir utan gluggann, það er á vegum Inga Bekk.

Klukkan er að verða fimm á aðfangadag. Við fylgjumst vandlega með hvað tímanum líður á stórri klukku framan á eldhúsbekknum sem Gunni stendur við og undirbýr komu vinar síns í jólamat. Hann bíður líka logandi spenntur eftir póstinum sem á að birtast með bestu jólagjöf allra tíma handa Felix áður en það verður heilagt. Hann er dauðhræddur um að missa af því þegar pósturinn bankar (hann ætlar bara að banka einu sinni!) og þjálfar salinn vel til að koma í veg fyrir það. Svo kemur Felix og svo kemur Kalli píanóleikari og svo kemur ljón … eða hvað? Alla vega ætlar pakkinn aldrei að koma og klukkan tifar, við sjáum það, maturinn er ekki tilbúinn, það er ekki lítill vandi að búa til hátíðamáltíð og kannski eðlilegt að hún fari öll í vaskinn. En hvaða máli skiptir það ef hinn sanni jólaandi ríkir á heimilinu?

Efnið er ekki ýkja viðamikið en þeim verður eins mikið úr því félögunum og verða má. Lögin eru eldfjörug og smita frá sér gleði og þeir syngja og dansa af einlægri kátínu sem er líka smitandi. Ég held að þetta sé einkar holl sýning fyrir börn á öllum aldri í aðdraganda jóla.

 

Silja Aðalsteinsdóttir