Nýjasta afurð Umbúðalaust-raðarinnar á þriðju hæð Borgarleikhússins er einleikur Önnu Margrétar Ólafsdóttur gjörningalistakonu, Rómantík. Hún kemur áhorfendum á óvart strax með uppröðun í salnum; okkur er nefnilega gert að setjast við einmennings skólaborð eins og í venjulegri (gamaldags) skólastofu. Þaðan horfum við á listakonuna sjálfa úti á svölum að róla sér. Það er auðvitað rómantískt myndefni. Ég man eftir senum úr bíómyndum og auglýsingum þar sem fallegar stúlkur í óstjórnlega flottum kjólum láta glæsilega unga menn ýta sér hærra og hærra í rólum.

Þetta er langt atriði og við sátum kyrr og þögul eins og þæg skólabörn. Svo kom í ljós að Anna Margrét var einmitt að þjálfa okkur í þolinmæði. Fyrir henni er ró stór partur af rómantík – enda byrjar orðið á „ró“. Og hún hélt áfram að freista þess að koma okkur í rómantískt skap og stemningu – með bleikri lýsingu, söng, rólegu spjalli og loks með því að fá þennan ósamstæða hóp fólks sem ekki þekktist innbyrðis (nema þá af tilviljun) til að vinna saman og láta sér líða vel saman. Það kann að virðast lygilegt en þetta tókst furðu vel. Ef við hefðum fengið að vera áfram á staðnum hefðum við líklega öll orðið ævilangir vinir.

Rómantík er sem gjörningur fullkomin andstæða við uppstand. Anna Margrét er sjálf sallaróleg þegar hún gengur á milli borða, horfir í augu hvers áhorfanda fyrir sig, talar hægt og með hvíldum meðan hún stýrir ferðalagi okkar um salinn í sýningunni. Og við héldum áfram að vera kyrrlát og að mestu þögul – þangað til við fórum að slaka á og láta okkur líða virkilega vel í lokaatriðinu …

Silja Aðalsteinsdóttir