Leikritið Oleanna eftir David Mamet sem var frumsýnt í gærkvöldi á Nýja sviði Borgarleikhússins í þýðingu Kristínar Eiríksdóttur er ekki nýtt verk, það var frumsýnt í Bandaríkjunum árið 1992 og er því bráðum þrítugt. Þó að það beri aldurinn í vel af því að þetta er vel samið leikrit þá geri ég ráð fyrir að deilurnar um það hafi orðið heitari meðal leikhúsgesta þá en nú; það hafa eflaust mun fleiri „haldið með“ John prófessor (Hilmir Snær Guðnason) en Carol stúdent (Vala Kristín Eiríksdóttir) í þá daga, sagt sem svo að hann hafi nú bara verið að reyna að stappa stálinu í niðurbrotinn nemanda og ekki meint neitt illt með því. Hún hafi hins vegar verið frekja og meindýr sem bara vildi eyðileggja líf hans af tómri öfund – jafnvel veik á geði.

Núna, á tímum me-too, er okkur hins vegar (nærri því) öllum ljóst frá því fyrsta að prófessorinn er óviðeigandi, hann fer yfir mörk stúlkunnar á margan hátt þó að hann réttlæti það fyrir sjálfum sér með því að hann vilji vera persónulegur vegna þess að hann þekki vandamál hennar af eigin raun. Það er vitaskuld ímyndun hans eins og kemur glöggt í ljós þegar ólík staða þeirra frá upphafi teiknast upp í samtölum þeirra. Hann er yfirstéttarpiltur sem hefur alltaf verið ofan á þó að auðvitað hafi hann rekið sig á eitt og annað á lífsleiðinni eins og gengur; hún er lágstéttarstúlka sem er komin í langþráðan háskóla og þar með út fyrir þægindaramma sinn. Hún er „Rita gengur menntaveginn“ okkar tíma og þrátt fyrir breytta tíma er alls ekki víst að hún eigi neitt auðveldari baráttu fyrir höndum.

OleannaÉg hafði ekki lesið leikritið fyrir sýninguna í gærkvöldi, ekki sá ég heldur fyrri sýningu á því hér á landi eða bíómyndina sem gerð var eftir því þannig að ég var efninu nokkurn veginn ókunnug. Það fannst mér gott og þess vegna ætla ég heldur ekki að rekja það frekar hér. Hilmir Snær og Vala Kristín ganga hlutverkum sínum fullkomlega á hönd og á samleik þeirra var engin snurða, samskiptin sannfærandi klaufaleg, átökin nístandi. Hilmi Snæ er meiri vandi á höndum en forverum hans í hlutverkinu vegna þess að nú er erfiðara að skapa nauðsynlega samúð með persónunni, en þó að John gangi kannski ekki vel að sjarmera Carol á Hilmir í litlum vanda með að sjarmera salinn. Vala Kristín fær hér sitt stærsta hlutverk til þessa og sýndi hreint fáránlega margar og spennandi hliðar á persónu sinni. Raunar er Carol mun flóknari persóna en John og Vala Kristín fletti smám saman af henni hverju laginu af öðru á listilegan hátt. Gunnar Gunnsteinsson leikstýrir ásamt Hilmi Snæ og eiga þeir hrós skilið fyrir alúðina sem þeir hafa lagt í verkið.

Kristín Eiríksdóttir þýddi leikritið og ég öfunda hana ekki af því. Enskur texti af þessu tagi, þar sem málfar og orðanotkun endurspeglar stéttamun, er illþýðanlegur á íslensku svo vel fari. Enskumælandi menn geta leikið sér að andstæðum með því einu að nota ýmist orð af grískum og latneskum stofni eða germönskum; þá eru germönsku orðin alþýðleg en hin framandi fyrir fólk úr lágstéttarumhverfi. Okkar gagnsæja mál er svo til allt af sama stofni og erfitt að stilla upp svipuðum andstæðum. Stundum fannst mér eins og þýðandinn/leikhópurinn hefði bara átt að semja texta á íslensku í stað þess að þýða; þetta átti einkum við „sögurnar“ sem prófessorinn segir nemandanum og dæmin sem hann tekur.

Sean Mackaoui gerir leikmynd sem er í meira lagi táknræn þó að hún virðist í fyrsta þætti nokkuð dæmigerður og þó stílfærður bókaveggur með skrifborði og tveim stólum fyrir framan. Breytingarnar milli þátta voru sláandi en kannski varð leikmyndin dálítill (óþarfur) senuþjófur í lokaþættinum. Svo er spurning með símann. 1992 hefur þetta verið borðsími sem ekki var svo auðvelt að slökkva á. Nú er John með farsíma sem stöðugt truflar samtalið en væri hægt að slökkva á. En kannski sýnir það hina endanlegu fyrirlitningu að hann getur slökkt á símanum – en gerir það ekki. Lýsing Þórðar Orra Péturssonar var óáreitin en tónlist Garðars Borgþórssonar bjó okkur stundum vel undir dramatíkina framundan.

Það var dásamlegt að koma aftur í Borgarleikhúsið, gleðibros á hverri brá – stemningin var eiginlega áfeng! Og ekki var verra að sjá verk sem skiptir máli svona vel fram reitt.

Silja Aðalsteinsdóttir