Landnámssetrið í Borgarnesi heldur upp á fimmtán ára afmæli og nýja opnun eftir langt „kóf“ með sögustund um óvenjulegt efni. Reynir Tómas Geirsson læknir stóð nýlega að útgáfu á bókinni Dvergurinn frá Normandí eftir Lars-Henrik Olsen sem kona hans, Steinunn Jóna Sveinsdóttir, þýddi og sem segir frá tilurð refilsins fræga sem saumaður var í Kent á Englandi fyrir tæpum 950 árum en hefur lengst af verið varðveittur í bænum Bayeux í Normandí. Reynir endursegir ekki efni bókarinnar heldur freistar hann þess að segja ítarlega frá því sem lesa má úr myndunum á reflinum og sýnir þær um leið stækkaðar á bíótjaldi. Að auki segir hann sögu refilsins sem er ekki síður í frásögur færandi en saga ýmissa okkar helstu handrita.

Á reflinum eru raktir í myndasögu með dálitlum texta þeir dramatísku atburðir sem leiddu til þess að Vilhjálmur bastarður, konungur yfir Normandí, réðst inn í England þar sem hann þóttist réttborinn til ríkis. Þar var fyrir á fleti Engilsaxinn Haraldur Guðinason, valinn af vitringum ríkisins eftir lát Játvarðs konungs, frænda Vilhjálms, og vildi ekki víkja. Svo ólánlega vildi til fyrir Harald, sumarið 1066, að að honum sóttu tveir herir, annar úr norðri undir forystu Haralds harðráða Noregskonungs og Tósta jarls Guðinasonar, hinn úr suðri undir forystu Vilhjálms. Norðmenn voru fyrr á ferðinni og þann her sigraði Englandskóngur á norðurlandi. Þá frétti hann af Vilhjálmi og herinn gekk hina löngu leið suður, var því orðinn ansi lúinn þegar hann mætti Normönnum í Hastings. Þar féll Haraldur Guðinason og Vilhjálmur hirti krúnu hans. Síðan hefur hann heitið Vilhjálmur sigurvegari.

Reynir Tómas er sögumaður af Guðs náð og gerði þessa löngu sögu með sínum mörgu persónum og flóknu fjölskyldutengslum skýra og afar skemmtilega. Ævintýralega gaman var að fá að stúdera myndirnar á reflinum með sínum ótalmörgu spennandi og jafnvel fyndnu smáatriðum sem Reynir útskýrði á sinn fjörlega hátt. Það var líka merkilegt að heyra hann lýsa tækninni við saumaskapinn, hinum einstaka og endingargóða refilsaumi sem varðveittist á Íslandi þótt hann týndist í öðrum Evrópulöndum. Sérkennilegt er líka að sjá hvað litirnir eru ennþá skærir og fallegir í þessu nærri þúsund ára gamla handverki. Þá var ekki síður fróðlegt að heyra Reyni lýsa ólíkri hertækni Engilsaxa og Normanna sem sjá má á reflinum og skipti sköpum í úrslitaorrustunni.

Reynir brúkar ekki marga leikmuni, einungis eina skikkju sem nýttist honum vel, rauða öðrum megin en brúnleita hinum megin. Hann fór sparlega með leikræn tilþrif, notaði þau fyrst og fremst í átökum einstaklinga, þá brá hann þeirri rauðu yfir sig þegar hann var Vilhjálmur en sneri henni við þegar Haraldur svaraði honum. Samtölin voru kumpánleg eins og milli kunningja á Íslandi í dag og vöktu hressandi hlátur – og raunar var maður síbrosandi allan tímann.

Sögustundin um Bayeux-refilinn er fyrir allt fróðleiksfúst fólk á hvaða aldri sem er, þó hygg ég að hún myndi skemmta söguþyrstum unglingum alveg sérstaklega vel.

Silja Aðalsteinsdóttir