Dystópíur eru í tísku um þessar mundir – skáldverk þar sem lýst er illum heimi og engin eða lítil von framundan. Nægir að minna á Hungurleikana vinsælu og benda á að nokkrar bækur koma út á íslensku nú í haust, bæði innlendar og þýddar, sem gerast í slíkum vondum heimi. Kannski stafar þetta af umræðum um yfirvofandi afleiðingar loftslagsbreytinga og því að innst inni vantreysti vesturlandabúar lýðræðinu, óttist að það sé aðeins þunn skurn og ef hún brotni muni alræðið taka við. Vissulega eru alræðisríki ekki fjarri okkur, hvorki í tíma né rúmi, og kannski eðlilegt núna, þegar tæknin gerir valdsmönnum auðvelt að fylgjast með öllu lífi íbúanna, að fólk óttist að breytinga sé von í okkar góða heimi.

RefurinnÞví eru þessi ræðuhöld sett á að í gærkvöldi var frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins nýtt breskt leikrit eftir Dawn King, Refurinn, sem gerist í eftirlitsþjóðfélagi þar sem íbúarnir eru algerlega undir hæl stjórnvalda. Persónulegur réttur er hunsaður; ef maður fer ekki eftir reglunum og uppfyllir öll skilyrði þá er manni skákað miskunnarlaust til og frá. Þetta er svo vont samfélag að þar endist verkamaður í verksmiðju til dæmis ekki nema í þrjú ár, þá er hann orðinn óvinnufær (eða dauður?). Ógnin sem steðjar að þessu samfélagi er refaplága og um landið fara eftirlitsmenn, svokallaðir refabendar, sem leita uppi sýkt býli og gera sínar ráðstafanir þegar þeir finna eitt slíkt. Í langan tíma hefur þó enginn séð ref í landinu og til eru þeir uppreisnarmenn sem halda því fram að þetta sé gerviógn, sköpuð af stjórnvöldum til að geta ráðskast með íbúana í friði.

Sagan gerist á tveim býlum í afskekktri sveit þar sem hefur verið svo með endemum votviðrasamt að akra og tún hefur flætt og stefnir í afar lélega uppskeru þannig að íbúarnir geti ekki uppfyllt kvóta sinn. Til hjónanna Júlíu (Nanna Kristín Magnúsdóttir) og Samuels (Hallgrímur Ólafsson) kemur refabendir frá hinu opinbera, nítján ára piltur sem heitir Vilhelm (Arnar Dan Kristjánsson), vegna þess að grunur leikur á refasýkingu á landareigninni. Hann sest upp hjá hjónunum og svo fer að honum dvelst óvenju lengi. Samuel finnst illa ganga hjá honum að rannsaka landið, vill drífa þetta af, en Vilhelm hefur sinn háttinn á sem á yfirborðinu er skipulegur en ekki að sama skapi árangursríkur. Á næsta bæ býr Sara (Tinna Lind Gunnarsdóttir) sem ekki er eins þolinmóð og undirgefin og Júlía enda kemur fljótlega í ljós að hún trúir ekki á refinn og þaðan af síður á sýkingu af hans völdum.

Þegar ég hef nú skrifað upp þessi nöfn – biblíunöfnin Samuel og Sara og svo Vilhelm, sem gæti verið þýskt – leitar hugurinn til Þýskalands þriðja ríkisins og gyðingaofsókna. Verið getur að Dawn King sé einkum að minna okkur á að það sé ekki langt síðan skipuleg útrýming fólks var stunduð í einu helsta menningarríki álfunnar. Mun erfiðara er að heimfæra verkið upp á okkar veruleika hér á landi, til dæmis, þó að reynt sé vissulega að halda okkur í ótta við atvinnuleysi og hungursneyð ef við samþykkjum ekki að virkja hvern læk á landinu og vinna ál úr orkunni.

En þó að erfitt væri að láta verkið koma sér við beinlínis fannst mér allir leikararnir vinna af einlægni og natni. Það var gaman að fylgjast með Júlíu þar sem hún er milli tveggja elda, veit ekki hvort hún á að fylgja manni sínum í meðvirkni hans eða vinkonunni Söru í uppreisninni. Nanna Kristín bjó til djúpa og sannfærandi manneskju á sviðinu. Hallgrímur var ekta rustalegur smábóndi og Sara lifandi von um að í manneskjunni leynist ennþá uppreisnarandi. Arnar Dan var vel valinn í hlutverk Vilhelms, afar hávaxinn og ógnvekjandi í sínum dökka einkennisbúningi og háu leðurstígvélum – svo merkilega ólíkum gúmmístígvélum bændafólksins. Mér fannst hann líka ná vel yfirborðsmynd hins vel agaða embættismanns en sýna um leið að þetta er bara unglingur að leika hlutverk sem hann á ekki að vera settur í.

Sviðsmynd og búningar Systu Björnsdóttur gerðu sitt til að auka á raunsæi verksins og studdu afar vel við það og leikarana, hrörlegir innanstokksmunir, ómálaðir veggir – var notaður rekaviður í brúna yfir salinn? Þetta var djöfulli flott í hráslagaleik sínum. Sama er að segja um lýsinguna sem skapaði verulegan óhugnað út af fyrir sig; hún var í höndum Garðars Borgþórssonar og Björns Bergsteins Guðmundssonar. Hljóðmynd Baldvins Þórs Magnússonar og tónlist Franks Hall gerðu líka sitt. Mér finnst Vignir Rafn Valþórsson mega verulega vel við una þetta fyrsta verkefni sitt í stofnanaleikhúsi. Refurinn hafði ekki eins sterk áhrif á mig og Munaðarlaus sem hann setti upp í Norræna húsinu fyrir fáeinum árum en þar hygg ég að verkinu sé um að kenna en ekki aðstandendum.

Silja Aðalsteinsdóttir