Mestu skrautsýningar leikhúsanna í heiminum eru iðulega söngleikir. Í þá er mikið lagt – í leikmyndir, ljós, fjölda leikara og söngvara, að ekki sé talað um búninga, og mætti nefna allnokkra bara í okkar húsum á undanförnum árum og áratugum þessu til staðfestingar. Flestir hafa þessir söngleikir líka verið margprófaðir á sviðum erlendis áður en þeir rata hingað. En í gærkvöldi var frumsýndur í Tjarnarbíó nýr íslenskur söngleikur, Hark eftir Þór Breiðfjörð – „gamanrokksöngleikur“ eins og segir í kynningu – þar sem glimmer og glys var víðs fjarri. Ef hirt er um nákvæmar skilgreiningar myndi verkið kannski fremur flokkast undir leikrit með söngvum en beinlínis söngleik; sagan kemur að mestu fram í samtölum en persónur túlka vissulega hugsanir sínar og tilfinningar í söng.

Í Harki eru leikararnir bara þrír, leikmyndin er einföld og hversdagsleg og lítið lagt upp úr búningum. En það sem mestu máli skiptir er þó á sínum stað. Í hálfhring bak við sviðið eru fjórir hljóðfæraleikarar sem spila skemmtilegu lögin hans Þórs Breiðfjörð af list undir styrkri stjórn Davíðs Sigurgeirssonar sem líka útsetti lögin. Gallinn var bara sá að hljóðheimurinn var heldur stór fyrir húsið, uppsetningin hefði þurft talsvert stærra hús (eða lækka í græjunum).

Sagan er kunnugleg. Poppstjarnan Jóhann Víkingur – Joe the Viking eða bara Víkingurinn (Þór Breiðfjörð) á glæsta fortíð í bransanum en er nú á fallanda fæti, einmana miðaldra maður sem heldur dauðahaldi í fortíðina. Rótarinn Doddi (Hannes Óli Ágústsson) á orðið í erfiðleikum með að fá almennileg gigg fyrir kappann og þó að það séu gigg er ekki garanterað að þeir fái greitt fyrir þau. Brellurnar sem einu sinni voru svo snjallar og trylltu lýðinn misheppnast nú orðið á hinn klaufalegasta hátt og það gleður ekki gömlu stjörnuna. Skapi sínu skeytir Víkingurinn á rótaranum, pínir hann og hrekkir á ýmsa lund en er auðvitað háður honum með alla skapaða hluti og elskar hann innst inni. Ekki laust við að manni verði hugsað til Billy Mack og Jóa hans í Love Actually. Kvennamálin hafa löngum verið í rusli hjá stjörnunni og ekki skánar það með aldrinum. Dóttur sína og dótturdóttur sér hann aldrei og skyndikynnin ganga ekkert lengur. Verður hann ekki að fara að hugsa sinn gang? Hvörf verða þegar þeir félagar hitta unga og fallega nýstirnið  Fjólu Svif (Þórdís Björk Þorfinnsdóttir) og báðir ímynda sér að þeir eigi séns í hana en hún hefur bara áhuga á að tala um músík.

Þau syngja öll skínandi vel. Þór er auðvitað margreyndur í frægum söngleikjum hér heima og víðar um heiminn og skemmtilegt að hann skuli nota reynslu sína til að búa til sinn eigin söngleik. En hann er dramatískur leikari og söngvari og dramað í Harki fór honum mun betur en gamanið – enda var gervið á honum ekki til að bæta málin. Hárkollan var ekki einu sinn fyndin! Hannesi Óla leið betur í sínu hlutverki og vann það af smekkvísi , persónan varð sannfærandi, hlý og einlæg. Þórdís Björk bregður sér í ýmis hlutverk – eiginkonu, dóttur, söngkonu – og fórst það allt vel úr hendi. Orri Huginn Ágústsson leikstýrir sýningunni en ekki er þess getið í kynningarefni hverjir sjá um svið, búninga og ljós.

Ef við værum í Ameríku væri þetta fyrsta prufukeyrsla á nýju verki sem síðan færi í frekari þróun á handriti og tónlist, færi síðan á stærra svið og loks á heimssviðið ef vel tækist til og viðbrögð áhorfenda byðu upp á það. Þó að ekki sé það siður hér á landi enda varla aðstæður til óska ég Harki alls góðs.

Silja Aðalsteinsdóttir

Eftir að umsögnin hafði verið sett á netið bárust frekari upplýsingar um aðstandendur:

Leikmyndahönnun/ljósahönnun: Friðþjófur Þorsteinsson
Danshöfundur: Auður Bergdís ÁstudóttirBúningahönnuður: Ingibjörg Jara SigurðardóttirHljóðhönnun: Kristín WaageHljómsveit: Davíð Sigurgeirsson, Ásmundur Jóhannsson, Daði Birgisson, Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir