Dans- og textaverkið Til hamingju með að vera mannleg sem var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi er unnið upp úr samnefndri glænýrri ljóðabók Sigríðar Soffíu Níelsdóttur dansara og myndlistarmanns (og ljóðskálds) sem hún orti þegar hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð. Hún tekur sjálf þátt í sýningunni sem höfundur, leikstjóri, dansari og leikari en Stefán Hallur Stefánsson aðstoðar við leikstjórn. Brynja Björnsdóttir sér um leikmynd og afar fjölbreytta búninga, en undurfallegu ljóslistaverkin eru eftir Þórunni Maggý Kristjánsdóttur. Þau gátu jafnvel stolið athyglinni frá glæsilegu dönsurunum á sviðinu. Jónas Sen píanóleikari og tónskáld er fyrir framan sviðið og flytur bæði frumsamda tónlist og verk eftir aðra við ljóðin og dansana.

Með Sigríði Soffíu á sviðinu eru sex konur sem allar geta hvort sem er leikið eða dansað og voru hver annarri betri, Nína Dögg Filippusdóttir, Hallveig Kristín Eiríksdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Svandís Dóra Einarsdóttir, Ellen Margrét Bæhrenz og Díana Rut Kristinsdóttir. Saman fara þær gegnum alla ljóðabókina, flytja textann, leika hann, leika á hann og með hann. Ljóðabálkurinn er langur, rúmar hundrað síður, magnaður og oft verulega átakanlegur. Það kemur fram að Sigríður var með barn á brjósti þegar hún greindist með krabbamein en var skipað að hætta brjóstagjöf vegna þess að eitrið sem henni var gefið gat smitast út með svita og skaðað barnið. Hún tekur sér tíu daga með litla drengnum sínum – svo skrúfar hún fyrir tárin og mjólkina: „ég er eitraði hárkamburinn og rauða eplið / ég vildi að ég ætti glerkistu eins og Mjallhvít / til að vernda börnin mín / fyrir mér“ (28)

Ljóðin urðu auðvitað missterk í flutningnum en þau bestu nutu sín geysilega vel. Þar vil ég fyrst nefna „Óskarsverðlaunaræðu“ sem Nína Dögg flutti af listfengi. Þar þakkar skáldið öllum sem hafa sært hana, öskrað á hana, verið ósanngjarnir og valdið henni andvökunóttum (21):

takk fyrir þessa litlu viðráðanlegu skammta

af kvíða og vanlíðan

sem nýst hafa til að byggja upp þol

sem ég þarf á að halda núna

Afar hollur boðskapur. „Ljómi“ var líka frábært og skemmtilega notað. Atriðið þar sem Lovísa Ósk var þreytta móðirin og tvær aðrar léku ærslafull börn var bæði fyndið og sorglegt – og frábært að sjá hvað fullorðnar stúlkur gátu verið sannfærandi ofvirkir krakkagemlingar! Ennþá áhrifameira var „Undir“ þar sem klifun var notuð til að skila til okkar tilfinningu um endurteknar hrikalegar lyfjameðferðir.

Fyrsta danskaflann dönsuðu þær saman Sigríður Soffía og Díana Rut; hann var fullur af þjáningu og sorg og tók verulega á. Síðast fyrir hlé dansaði Sigríður ein við forkunnarfagurt verk Jónasar Sen á píanóið og var hvort tveggja algerlega heillandi. Og heilandi. Mörg fleiri atriði mætti telja upp, til dæmis sjúkrahússenuna þar sem allar konurnar kljást við sitt á kómískan hátt, bregða sér jafnvel upp á nornaprik eða hest. Loks nefni ég lokaatriðið sem alls ekki má lýsa því að sjón er sögu miklu ríkari, en verður gersamlega ógleymanlegt!

Silja Aðalsteinsdóttir