Þú ert hér://Rannsókn á kúgun

Rannsókn á kúgun

LúkasDuttlungar lífsins hafa skikkað svo til að ég hafði aldrei séð Lúkas eftir Guðmund Steinsson fyrr en í gærkvöldi. Þá var það frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu á vegum leikhópsins Aldrei óstelandi og undir stjórn Mörtu Nordal. Verkið kom mér mjög þægilega á óvart, það er fantavel skrifað og uppsetningin er hugkvæm, markviss og mögnuð.

Lúkas var fyrst sýndur árið 1975 og kom því á undan leikritunum sem gerðu Guðmund þjóðþekkt og geysivinsælt leikskáld, Sólarferð (1976) og Stundarfriði (1978). Seinni verkin tvö voru viðamikil og með mörgum persónum, Lúkas hnitast um þrjár persónur og gerist í lítilli íbúð sem hér var sett inn í lokaðan kassa á sviðinu. Þar búa hjónin Sólveig (Edda Björg Eyjólfsdóttir) og Ágúst (Friðrik Friðriksson) sem hafa að því er virðist þann eina starfa að gefa gestinum Lúkasi (Stefán Hallur Stefánsson) að borða. Hann kemur reglulega í mat til þeirra og þau leggja sig fram um að hafa sem besta máltíð til reiðu handa honum þegar hann kemur. Ekki borða þau með honum en vaka yfir öllum hans þörfum meðan hann matast og uppfylla þær um leið.

Lúkas er vissulega aufúsugestur. Veigu og Gústa finnst hann merkilegur maður og líf þeirra snýst algerlega um þessar heimsóknir og það sem þau bjóða honum upp á hverju sinni. Í huga áhorfenda hljóta fljótlega að vakna spurningar um það hvernig stendur á þessum heimsóknum, og um tíma verða þær svo ágengar að maður verður pirraður að fá engin svör. En svo rennur upp fyrir manni að málið snýst ekki um það sem er fyrir utan það sem við heyrum og sjáum á sviðinu heldur nákvæmlega það sem gerist fyrir augunum á okkur: samskipti hjónanna og Lúkasar.

Því Lúkas er ekki allur þar sem hann er séður. Hvaða tangarhald hann hefur á hjónunum er kannski ekki ljóst en hvernig það virkar verður óþægilega ljóst þegar verkinu vindur fram. Það verður smám saman vönduð og nákvæm rannsókn á kúgun, margslungnu eðli hennar og áhrifum hennar á manneskjuna. Ekki er eytt orði á það hvernig kúgunin hafi hafist eða af hverju hún stafi, og hér eru engir lyklar að túlkun. Þetta er hrein rannsókn á fyrirbærinu kúgun; það er sérkenni og megingildi verksins.

Lúkas

Friðrik Friðriksson, Stefán Hallur Stefánsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir. Mynd: Aldrei óstelandi

Það er vandlega valið í hlutverkin eins og sést um leið og Stefán Hallur kemur inn í örsmáa stofu hjónanna. Þó að Edda Björg og Friðrik séu fullkomlega eðlilegt fólk á vöxt voru þau eins og börn frammi fyrir gestinum sem varð einkennilega ofvaxinn í þessu litla rými. Stefán Hallur var mergjaður Lúkas og mætti hafa mörg orð um allar þær birtingarmyndir kúgunar sem hann sýndi í gærkvöldi: mátt, veiklyndi, hlýju, tillitsleysi, kulda, hörku, sjarma, andstyggð, ófyrirsjáanlegar refsingar … Og aldrei hef ég séð etið og jafnvel étið á eins margvíslegan hátt og á þessari sýningu. Viðbrögð Eddu Bjargar og Friðriks voru jafnfjölbreytt – eins og góðir hljóðfæraleikarar létu þau undan ólíkum bendingum hljómsveitarstjórans. Eitt áhrifamesta atriðið er þegar hjónin halda að Lúkas komi ekki og freistast til að byrja á matnum hans. Þá rifja þau líka upp þegar þau hittust fyrst, frjálsar og óháðar manneskjur. Sú saga rann manni til rifja í ljósi þess hver og hvernig þau eru orðin.

Á upplýsingablaði með sýningunni er ekki getið höfundar leikmyndar (ekki heldur búninga, ljóss eða annars sviðsbúnaðar) en hún er gerð af mikilli kúnst. Kassinn sem leikið er í er úr timbri og gegnsæju, þykku plasti og alveg lokaður þannig að leikararnir tala til okkar í hljóðnema. Þetta sýnir vitaskuld innilokun hjónanna í sínum litla heimi en gefur Mörtu líka færi á að kippa áheyrendum úr sambandi við hann – sem hún gerði með eftirtektarverðum árangri. Einn af áhrifavöldum Guðmundar Steinssonar var Bertold Brecht. Ég hugsa að honum hefði þótt varið í þessa uppsetningu.

Lúkas er hörkuspennandi leikhúsreynsla sem ekki á að missa af.

PS Leikmyndin er eftir Stíg Steinþórsson. Það var stikla með boðsbréfinu frá leikhópnum sem ég hafði ekki opnað en þar kemur þetta fram. Til hamingju, Stígur, þetta er andskoti fín leikmynd!

Silja Aðalsteinsdóttir

2019-06-12T11:57:03+00:0029. desember 2013|