Uppsetning Ágústu Skúladóttur á Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini í Íslensku óperunni er ljómandi vel heppnuð, bæði falleg og skemmtileg. Ágústa segir sjálf í leikskrá að hún líti á söguna sem ævintýri og í stíl við ævintýrið er sýningin stílhrein og tær. Ekkert fer á milli mála. Litirnir í leikmynd Steffens Aarfing eru heitir, litsterkir fletir í bláum og rauðum tónum, búningar Maríu Th. Ólafsdóttur fjölskrúðugir en alltaf í takt við efnið og sviðið. Með þessu lék lýsing Jóhanns Bjarna Pálmasonar og Guðmundur Óli Gunnarsson stýrði hljómsveitinni sem einnig lék hreint og tært.

Rakarinn frá SevillaÞetta er gamansamt ævintýri um lífsglaða elskendur sem þurfa að leika á gamlan skrögg sem líka vill giftast ungu stúlkunni. Hún á nefnilega peninga. Elskendurnir eru ekki nógu fundvísir á brellur í þeim blekkingaleik og þar kemur rakarinn í bænum til sögunnar. Hann á ráð undir hverju rifi enda alltaf verið að leita til hans og kalla á hann eins og hann syngur svo fjörlega um í einni þekktustu aríu óperunnar. Með hlutverk rakarans fer eitt nýjasta eftirlæti landans á óperusviðinu, barítónsöngvarinn Oddur Arnþór Jónsson, sem við minnumst með ánægju úr Don Carlo í fyrra. Hann er einstaklega myndarlegur karlmaður, tekur sviðið með gusti um leið og hann stígur inn og syngur eins og heill herflokkur, bara betur. Það var enginn vafi á því í gærkvöldi hver átti hug og hjörtu áhorfenda og átti það skilið.

Elskendurnir eignuðust líka sinn part í hjörtum okkar. Gissur Páll Gissurarson söng Almaviva greifa og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir Rosinu og voru yndisleg og hjartahrein þrátt fyrir laumuspilið. Þau eru bæði virkilega fínir gamanleikarar, hafa svipbrigði, hreyfingar og tímaskyn sem gerir sem mest úr fyndninni í verkinu og Guðrún Jóhanna bar feiknavel skartlega búningana sem María klæddi hana í. Bæði syngja þau líka undurvel en rödd Guðrúnar Jóhönnu barst ekki alveg nógu vel um stóra Eldborgarsalinn þegar hljómsveitin tók á eða í samsöngsaríum.

Gamla skrögginn, doktor Bartolo, söng Bjarni Thor Kristinsson. Sá frábæri söngvari fær helst að glíma við leiðindakaraktera sem er kannski miður en hann fer svo vel með þá að ekki er hægt annað en fyrirgefa það. Hann lék doktorinn af list og lyst, til dæmis verður minnisstætt atriðið þar sem hann býst til að henda Almaviva í dulargervi út úr húsi sínu og greifinn hleypur á harðakani í lausu lofti og kemst ekki spönn! Viðar Gunnarsson söng heimilisvininn don Basilio og tók glæsilega á aríunni óborganlegu um róginn. Fiorello þjón Almaviva söng Ágúst Ólafsson, Bertu ráðskonu doktorsins söng Valgerður Guðnadóttir og voru bæði til yndis og prýði. Það voru líka þjónustustúlkurnar Huld Óskarsdóttir og Sigurlaug Knudsen sem settu sterkan svip á sýninguna þótt ekki segðu þær orð (svo að ég heyrði). Í leik þeirra gekk Ágústa lengst í stílfærslunni og það tókst með miklum ágætum. Auk þess tók karlakór óperunnar virkan og svipmikinn þátt í sýningunni.

Óperan um rakarann frá Sevilla verður tvö hundruð ára á næsta ári. Eins og öll góð ævintýri er hún sígild og fjörug og smekkvís tónlist Rossinis mun áreiðanlega gleðja áheyrendur enn í tvö hundruð ár.

Silja Aðalsteinsdóttir