Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Villueyjar

Björt, 2019

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2020

 

Villueyjar

Villueyjar eftir Ragnhildi Hómgeirsdóttur.

Bókin Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur fjallar um stúlkuna Arildu sem er í heimavistarskóla í Útsölum, eyju fjarri heimili sínu, og raunar fjarri öðrum eyjum Eylandanna. Arilda er 14 ára og ólst upp með afa sínum og bróður en hluti frásagnarinnar hverfist um rannsókn hennar á örlögum foreldra sinna. Þegar hún fer í víðavangshlaup á vegum skólans lendir hún í háska og fer eftir það sömuleiðis að rannsaka uppruna skólans. Það dregur heldur betur dilk á eftir sér og Arilda þvælist vítt og breitt um Eylöndin í leit að eigin uppruna, svörum um afdrif foreldra sinna og að lokum leið til að afstýra dauða Maurice, bróður síns og mögulegum heimsendi.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir hefur áður skrifað Koparborgina (2015) sem hlaut tilnefningu til Barna- og ungmennabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Sú bók gerist í miðaldaheimi í landi sem líkist Ítalíu Endurreisnartímabilsins. Villueyjar gerast í sama heimi en sögutíminn virðist örlítið nær nútímanum, eða hugsanlega einhvers staðar í kring um aldamótin 1800. Sögusvið Villueyja eru Eylöndin, sem gætu talist eins konar dreifðari útgáfa af Bretlandseyjum en í sögunni er sagt frá frumbyggjum eyjanna, Drúídum, sem gefa enn frekar tóninn í þá átt. Titill bókarinnar vísar í þjóðsögu, sem raunar er staðfest í atburðarásinni, en í henni er talað um að landslag eyjanna geti breyst fyrirvaralaust og sé duttlungum háð. Því er auðvelt að rata í villu þegar ferðast er um Eylöndin.

Heimurinn sem Ragnhildur skapar er sannfærandi og líkir að mörgu leyti eftir okkar heimi. Þannig eru stjórnendur Eylandanna nýlenduherrar sem ráku í burt frumbyggjana, Drúídana, fyrir löngu síðan og þar er hart deilt á nýlendustefnu Evrópuþjóða. Arilda ferðast um tíma með farandsöngvurum, sem flakka um eyjarnar og minna talsvert á Rómafólk okkar heims og kemst að lokum að því að faðir hennar muni hafa tilheyrt þeim þjóðflokki.

Bækur Ragnhildar eru gjarnar flokkaðar umhugsunarlaust með fantasíum og ég varð því þó nokkuð hugsi þegar við vorum saman í pallborði síðastliðið haust og hún sagðist sjálf ekki skilgreina verk sín sem fantasíur. Á yfirborðinu virðast bækurnar falla vel að þeirri skilgreiningu. Þær gerast í heimi sem er ekki til og í þeim gerast yfirnáttúrulegir atburðir. Hvað mælir þá gegn því að þær flokkist sem fantasíur?

Skilgreiningar á fantasíum eru nánast jafnmargar og lesendur þeirra. Í einni góðri alfræðiorðabók sem fjallar eingöngu um fantasíur eru meira en 200 skilgreiningar á hugtakinu. Skilgreiningarnar fara frá því að vera mjög þröngar, eins og skilgreining Tolkiens, sem tiltekur margs konar skilyrði og telur jafnvel að frestun vantrúarinnar (e. suspension of disbelief) nægi alls ekki, því ef lesandinn sé farinn að slá vantrúnni á frest sé hann orðinn vantrúaður og þar með sé fantasían fallin, yfir í þá mjög svo víðu skilgreiningu að allur texti sem innihaldi tilbúning höfundar sé í einhverjum skilningi fantasía. Flest fræðifólk fellur einhvers staðar á milli þessara tveggja öfga.

Bækur Ragnhildar gerast í heimi sem samsvarar ekki hinum raunverulega heimi en byggist þó á honum að einhverju leyti og vísar með beinum hætti til hans, t.d. með fyrrnefndri umfjöllun um Drúída, vísunum í Rómafólk, nýlendustefnu og svo mætti lengi telja. Því er ekki um að ræða heim eins og í fantasíum Tolkiens sem er (eða á að vera) alveg ótengdur okkar heimi og vísa ekki í hann á nokkurn hátt. Hér skal árétta að það er skoðun Tolkiens að sögur hans vísi ekki í raunveruleikann á nokkurn hátt, lesandinn þarf ekki annað en að sjá Bilbó reykja pípu í vestisjakkafötum með vasaúr eftir morgunmat til þess að átta sig á því að hann hafði ef til vill aðeins aðrar viðmiðanir þar en við hin. Hið sama á þó við um ýmsar fantasíur sem fela greinilega í sér samtímaádeilu, eins og Discworld-bókaflokkur Terry Pratchetts.

Það er vísað í yfirnáttúrulega viðburði í Villueyjum og bókin hefur yfir sér dularfullan blæ, en frásögnin hverfist ekki um yfirnáttúru. Arilda, bróðir hennar og vinir eru að reyna að leysa alls konar dularfull mál og þó að þau reynist á endanum vera yfirnáttúrulegs eðlis er yfirnáttúra ekki ríkjandi þáttur í frásögninni.

Bygging hefðbundinna fantasía er hringlaga, eins og lýst er í einsögu (e. monomyth) Josephs Campbells, þar sem hetja leggur af stað í ævintýraför, mætir mótstöðu, berst við óþekkt öfl og hefur að lokum sigur, í mjög einfaldaðri mynd. Villueyjar fylgja fantasíubyggingunni framan af, en hetjan sigrast ekki á óþekktu öflunum í lokin og í rauninni er svolítið óljóst hvernig frásögnin endar. Bygging Villueyja finnst mér vera veiki punktur bókarinnar, hún er þétt framan af og í henni eru alls kyns vísanir sem lesandi á von á að verði að hluta fléttunnar síðar í sögunni, en það verður aftur og aftur ekkert úr þeim. Sem dæmi um þetta má nefna sjálfan titilinn, sem vísar í að landslag eyjanna breytist og auðvelt sé að villast á þeim. Það er ekki unnið að ráði með þennan punkt eftir upphafsatriði bókarinnar og hann er í rauninni alls ekkert aðalatriði í framvindu frásagnarinnar, eins og lesanda er þó gefið tilefni til að halda með vísunum í þetta atriði framan af.

Upphaf sögunnar festir áhuga lesanda kirfilega á örlögum Arildu og fjölskyldu hennar. Í upphafsatriðum frásagnarinnar sýnir höfundur hvers hún er megnug og þetta er ein sterkasta byrjun á unglingabók sem ég hef lesið árum saman. En í lokin er allur vindur úr fléttunni og frásögnin eins og rennur út í sandinn í nokkurs konar máttleysi, með því að Arilda heldur af stað til þess að berjast við öfl sem hvorki hún né lesandinn kann almennileg skil á og þótt það sé á vissan hátt eftirlíking af raunveruleikanum að skilja örlög sögupersónu eftir í lausu lofti virkar það svolítið skrítið þegar tekið er tillit til þess hve örugglega frásögnin er byggð framan af. Þegar ég lauk við lestur bókarinnar var ég sannfærð um að það hlyti að koma framhald af sögunni, vegna þess hve ómarkviss byggingin er án þess, en eftir að hafa lesið viðtöl við höfund hef ég komist að raun um að ekkert slíkt er áætlað. Það verður því að dæma bókina sem sjálfstæða einingu og sem slík finnst mér byggingin hennar veikasta hlið.

Sterkar hliðar bókarinnar eru margar og ber þar hæst persónusköpunina og hið sannfærandi samfélag söguheimsins. Lesandinn kynnist ýmsum þjóðfélagshópum og fær meira að segja að sjá söfn og hluta af skjalavörslu Eylandanna. Hinar þéttu vísanir í mannkynssögu okkar heims hafa áður verið nefndar og bera gríðarmikilli sagnfræðiþekkingu höfundar fagurt vitni. Það er hæfileikaríkur höfundur sem getur flutt lesanda sinn af þvílíkum krafti inn í heima fortíðarinnar og frætt unga lesendur um lífið í öðruvísi samfélögum.

Arilda, aðalpersóna sögunnar, er unglingur, 14 ára gömul. Í byrjun sögunnar er hún feimin og óframfærin og sagan hverfist um hana og hennar persónulegu sögu og mætti því jafnvel frekar telja frásögnina þroskasögu en nokkuð annað. Arilda virðist nokkuð dæmigerð aðalpersóna í heimavistarskólabók í fyrsta kafla, fátækur nemandi sem kemur í skólann eftir sumarfrí. Henni er bersýnilega ekki sinnt heima hjá sér á sumrin og finnst gott að koma aftur í skólann. Lýsingarnar á kennslustundunum eru svo lifandi að lesandann dauðlangar til þess að eiga kost á því að sækja tíma í víðavangshlaupi og kortagerð. Þegar líður á söguna fer persónuleiki Arildu að taka á sig skýrari mynd og undir lokin er hún hætt að upplifa sig sem þolanda atburðarásar sem hún ræður ekki við og tekur völdin í sínar hendur, sem raunar hefur þær afleiðingar að hún ferst í bókarlok, þó að sögulok séu reyndar ekki ótvíræð.

Ungmennabækur eru þeirri náttúru gæddar að fjalla jafnan um ungmenni. Algengt er að höfundar hefji aðalpersónu sína upp til skýjanna og gleymi því að hún er ung manneskja sem glímir við alls kyns áskoranir sem lúta að því að vera unglingur, skapsveiflur, dramatík og svo framvegis. Arilda er sannarlega heilsteyptur unglingur, það er að segja, hún ber það með sér að vera alvöru unglingur, með öllu sem því fylgir. Hún verður ringluð, fýld, skilur ekki tilfinningar sínar til fulls, og tekur út talsverðan þroska í sinni hetjuför. Þannig þarf hún bæði að leita uppruna síns og standa í því að vera í vondu skapi og taka ákvarðanir þar sem hvatvísi ræður för.

Þegar sögunni lýkur er Arilda í baráttu sem er bæði vonlaus og knúin áfram af örvæntingu og þörf fyrir að bæta fyrir eigin mistök. Hún hefur uppgötvað ýmislegt um uppruna sinn og foreldra og ekki líkað alls kostar við það allt, en það er mikið skref í þroska unglings að átta sig á að foreldrar eru mannlegir eins og annað fólk og að stundum sitja börn uppi með mistök foreldra sinna.

Tónninn í bók Ragnhildar er glaðlegur, dulúðlegur og drungalegur í senn. Það ríkir líf og fjör meðal fólksins, dulúð yfir drúídarannsókninni sem hún fær í arf frá foreldrum sínum, og sorg og drungi yfir örlögum hennar og bræðra hennar. Samfélagið í sögunni er afskaplega vel undirbyggt og flott, og persónusköpun að sama skapi faglega unnin. Lesandinn lifir sig inn í bæði sögusvið og sögutíma, ekki síst vegna þess hversu lipur textinn er og hversu auðugur sögulegur bakgrunnur frásagnarinnar virðist.

Ágætis skilgreining á fantasíu er: skáldverk þar sem fantasískir þættir eru miðlægir eða ríkjandi. Flestar nútímabókmenntir geta fallið í fleiri en einn bókmenntaflokk. Þessari bók er hægt að skipa í flokk fagurbókmennta, fantasía, þroskasagna, jafnvel sögulegra skáldsagna – því þætti sögulegra skáldsagna er að finna í stöðugum vísunum í sögu okkar raunverulega heims. Þess vegna er ekki endilega gott að finna henni einn ákveðinn stað, og það er ekki einu sinni endilega gott að segja hvort einhver einn flokkur sé ríkjandi umfram hina. Lesandinn verður að gera upp við sig hvar hann vill staðsetja þessa sögu.

Önnur bók Ragnhildar Hólmgeirsdóttur festir hana í sessi sem góðan og spennandi rithöfund sem hefur margt fram að færa við lesendur, unga sem aldna. Hún hefur góð tök á stíl og persónusköpun og þó að byggingin sé ekki alveg að mínu skapi í Villueyjum er bókin samt sem áður að öllu öðru leyti afar vönduð og vel þess virði að lesa. Ég spái því að hún verði ein af þeim bókum sem lesendur snúa aftur og aftur til, líkt og fyrirrennarinn, Koparborgin.

Hildur Ýr Ísberg