ExtravaganzaÉg veit ekki hvað forsvarsmenn stjórnarflokkanna segðu ef þeir hefðu séð leiksýninguna sem frumsýnd var kvöldið fyrir kjördag. Extravaganza eftir Sölku Guðmundsdóttur, sem Soðið svið og Borgarleikhúsið frumsýndu í gær á Nýja sviði, er kolsvartur söng- og gamanleikur sem segir eins skýrt og verða má að hér á landi á (eins og skáldið sagði) sé ástandið vægast sagt ömurlegt og ekki bati í nánd.

Eiginlega eru efnistökin falleg, jafnvel göfug, því Salka gerir þá manneskju að aðalpersónu sinni sem fyrirlitnust er af öllum í samfélagi okkar: Konuna sem vinnur launalítið (hér launalaust en gegn „húsnæði“) allan sólarhringinn við að sinna túristum í stórri hótelblokk eða Rbnb blokk. Eins og ekki mun óalgengt með slíkar konur er Lýdía (María Heba Þorkelsdóttir) geðprýðin og skapgæðin holdgerð, alltaf með bros á vör og telur ekki eftir sér að sinna gestum sínum, líka þegar þeir eru með niðurgang, og reyna að pranga út lífsstílsvörunum sem vinkona hennar (Aðalbjörg Árnadóttir) otar að henni. Stundum frekjast fulltrúi rekstrarfélagsins Porcellus (Hannes Óli Ágústsson) í henni með yfirgangi sem hún umber með brosmildri þolinmæði. En þegar hann er rekinn frá Porcellus er hann fljótur að leita í skjól Lýdíu og leynivinar hennar Guðbrands Núma (Sveinn Ólafur Gunnarsson) sem býr í kjallaranum í óleyfi Porcellus. Félagarnir fjórir láta ekki á sig fá þótt blokkin hristist hvað eftir annað á grunninum en undirbúa af kappi revíuna Extravaganza sem þau ætla að sýna til að fjármagna ferð Lýdíu með frægum og umtöluðum „gyðjum“ til Düsseldorf.

Hér er sem sagt umfjöllunarefnið stjórnlítil græðgi, mannfyrirlitning sem henni fylgir og yfirvofandi hrun en vonin liggur í ástúð og sköpunarkrafti þeirra sem minnst mega sín. Samtölin eru vel skrifuð og söngtextarnir skemmtilegir hjá Sölku. Best tekst henni til með Lýdíu, hún verður heildstæð persóna með eigið málfar og stíl. Til dæmis er gert góðlátlegt grín að kunnáttuleysi hennar í erlendum tungumálum, skammstöfunina etc í nafni hótelsins ber hún staðföst fram „etketera“. En þarna er allt sem sýnist og verkið varð svolítið einfalt þegar á leið, eins og vantaði aðra vídd inn í það.

Leikurinn var fínn undir stjórn Ragnheiðar Skúladóttur, einkum var María Heba sannfærandi, lifandi, hlý og fyndin í hlutverki Lýdíu. Hún slapp líka alveg við óvissuna sem stundum var um það hvaða leikstíll hefði verið valinn. Búningar Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur voru skínandi góðir og hæfðu persónum vel. Leikmynd Brynju Björnsdóttur nýtti sér breidd Nýja sviðsins enda sýndi hún gang í blokk. Brynju tókst að koma fyrir furðumörgum dyrum á herbergjum en lundabúðin varð helst til fátækleg. Tónlist Ólafs Björns Ólafssonar hljómaði ágætlega og gat vel verið eftir þau Lýdíu og Guðbrand Núma. Við þurfum kannski að búa okkur undir að fara að dæmi þeirra, dansa og syngja á rústum íslensks samfélags. Ætli svarið við því verði talið upp úr kjörkössunum í nótt?

Silja Aðalsteinsdóttir