Hvað er á döfinni í dönsku bókmenntalífi?
eftir Snædísi Björnsdóttur
Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2024
Síðsumars á ári hverju streyma höfundar, útgefendur og lesendur að listasafninu Louisiana á Sjálandi þar sem fram fer fjögurra daga bókmenntahátíð.[1] Hátíðin er ágætis gluggi inn í danskt bókmenntalíf og sé skimað þar inn má sjá ýmsu forvitnilegu bregða fyrir: á síðustu hátíð las Asta Olivia Nordenhof upp úr erótískri hrollvekju sinni um ástina og kapítalismann, Nath Kraus fór með ljóð um svaðilför bandarísku YouTube-stjörnunnar Logan Paul í japanska skóginum Aokigahara og Malte Tellerup sagði frá skáldsögu sinni Spræng Fabrikken sem inniheldur leiðbeiningar um það hvernig sprengja megi verksmiðju í mótmælaskyni.[2] Í bakgarði listasafnsins var síðan kveikt bál og haldin nútímaleg galdrabrenna með upplestri og ýmiss konar gjörningum undir listrænni stjórn rithöfundarins Olgu Ravn. Garnspottar, bréfsnifsi og aðrir handahófskenndir hlutir voru látnir ganga á milli hátíðargesta, belgbaunum var dýft í hunang og að endingu var hverjum gesti fenginn nagli til að negla í grænt epli sem síðan var kastað út í tjörn. Meðan á þessu stóð voru lesin upp ljóð og sögur sem juku á töfrana og mettuðu andrúmsloftið af dulúð. Stjörnuskáldið Jonas Eika, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2019 fyrir smásagnasafn sitt Efter solen, las úr óútgefinni bók sinni um nornir og Olga Ravn sagði frá nýrri skáldsögu sinni Voksbarnet (2023) sem hverfist um lifandi vaxdúkku og galdrafár í Danmörku á sautjándu öld.[3]
Nornin er einmitt ein af þeim fígúrum sem endurtekið hefur skotið upp kollinum í dönskum bókmenntum á síðustu árum og má sennilega rekja þá tísku að miklu leyti til Olgu Ravn og „nornaskólans“ sem hún stofnaði ásamt sænska rithöfundinum Johanne Lykke Holm.[4] Í Voksbarnet dregur Ravn fram sögulegan veruleika sautjándu aldar, þegar nornabrennur tíðkuðust, og leggur um leið áherslu á flókin sambönd og vináttu milli kvenna. Bókin byggir á sannri sögu aðalskonunnar Christine Kruckow og á sér stað skömmu eftir aldamótin 1600 í kjölfar þess að Kristján fjórði Danakonungur gaf út tilskipun þar sem bæði hvítur og svartur galdur var gerður refsiverður með lögum.[5] Samkvæmt tilskipuninni var hvítur galdur refsiverður gegn hárri sekt eða útlegð en þeim kastað á bálið sem gerðust uppvísir að svörtum galdri, enda þótti hann til marks um bandalag við djöfulinn.[6] Eins og vel er kunnugt voru það aðallega konur sem máttu sitja undir ásökunum um fjölkynngi á þessum tíma í Danmörku og nornabrennur voru algengar.[7] Voksbarnet lýsir flótta Christine Kruckow undan slíkum ásökunum en frásögnin er sérkennileg að því leyti að hún er sögð frá sjónarhorni vaxdúkku, það er eins konar vúdú-dúkku sem Kruckow á að hafa haft í fórum sínum. Í frásögn Olgu Ravn verður Kruckow jafnframt hvorki að ævintýrahetju né baráttukonu, eins og á það til að fylgja nornarímyndinni, heldur er hún einfaldlega kona sem lenti á skjön við samfélagið. Sjálf hefur Ravn tekið fram í viðtölum að með skáldsögunni hafi hún viljað undirstrika að það voru ekki einungis róttækir uppreisnarseggir sem voru brenndir á báli fyrir galdrabrögð heldur líka „venjulegt fólk“.[8]
Saga nornarinnar er þannig ekki einungis efniviður í ótal ævintýri heldur einnig samofin sögu Evrópu og um leið nátengd aldalangri baráttu kvenna fyrir líkamlegu sjálfræði og frjósemisfrelsi (e. reproductive freedom).[9] Líkt og Johanne Lykke Holm hefur komist að orði: „Ekkert feðraveldi, engar nornir.“[10] Á þennan hátt talar söguleg furðusaga Ravn inn í samtímann en einnig má velta fyrir sér að hvaða leyti endurkoma nornarinnar í samtímabókmenntum helst í hendur við breyttar áherslur í náttúruskrifum og aukna meðvitund um hamfarahlýnun. Hér mætti einnig nefna tryllta samfélagssatíru rithöfundarins Maren Uthaug 11% (2022) sem á sér stað í fjarlægri framtíð í kjölfar loftslagskatastrófu og lýsir heimi þar sem konur og nornir hafa tekið völdin.[11] Karlmönnum hefur hins vegar verið komið fyrir í svokölluðum „ræktunarstöðvum“ þar sem þeir eru notaðir til æxlunar og kynlífs og hafa þannig glatað öllu líkamlegu sjálfræði, en að þessu leyti er skáldsagan einnig umsnúningur á þekktri vísindaskáldsögu rithöfundarins Margaret Atwood Saga þernunnar (The Handmaid‘s Tale, 1985). Í nýjum heimi hafa nornabrögð og ýmis náttúruspeki sömuleiðis komið í staðinn fyrir gamla siði og trúarbrögð verið endurskilgreind út frá kvenlægu og náttúrumiðuðu sjónarhorni. Að þessu leyti má lýsa bókinni sem femínískri vistskáldsögu (þó deila megi um það hvers kyns femínísmi það er sem birtist í verkinu) þar sem galdrabrögð og nornasiðir verða að táknrænni uppreisn gegn vestrænni samfélagsskipan og að sama skapi leið til að endurhugsa samband manns og náttúru.
Fleiri goðsagnakenndar verur dúkka upp þegar litið er yfir danskt bókmenntalandslag í dag og má þar nefna bæði djöfla og engla. Í nýrri ljóðabók ungskáldsins Sebasthian Nathan Engle (2024) svífur ljóðmælandi til að mynda um götur Kaupmannahafnar á hjóli á meðan englar vaka yfir honum, eða ásækja hann öllu heldur eins og vofur: „englene / siger man / ved ofte ikke / om de vandrer / blandt levende eller døde / hihi / siger de.“ [12] Í Djöflabók Asta Olivia Nordenhof hittir sögumaður hins vegar djöfulinn fyrir í rútu á leið til Jótlands og ákveður að elta hann til Lundúna (Djævlebogen, 2023). Skáldsagan er önnur bókin í bókaflokki Nordenhof um íkveikjuna á ferjunni Scandinavian Star og jafnframt metafrásögn eða sjálfsaga sem fjallar eins mikið um sjálfa sig og hún fjallar um nokkuð annað.[13] Íkveikjan á bíla- og farþegaferjunni Scandinavian Star, sem átti sér stað í apríl 1990, myndar ramma utan um verkið en hvernig hún nákvæmlega tengist söguþræðinum verður lesandinn sjálfur að finna út með því að lesa í vísbendingarnar í textanum. Sakamálið – sem kallað hefur verið „stærsta óupplýsta morðmálið í Skandinavíu á seinni tímum“ – er því ekki nema óbeint til rannsóknar í frásögninni.[14] Í stað þess er sjónum lesandans beint að samtímanum og rannsóknarspurningunni sem kynnt er til sögunnar í upphafi bókar, nefnilega hvort hægt sé að elska á tímum kapítalismans. Til að svara þeirri spurningu verður lesandinn að slást í för með djöflinum, sem reynist búa í háhýsi í Lundúnum, og elta hann á milli hótelherbergja, vændishúsa og „vitlausraspítala“ (d. galehus).
Skáldsagan skiptist í fjóra hluta og hefst á formála höfundar þar sem hún greinir frá því að hún verði því miður að valda lesendum fyrri skáldsögunnar í bókaflokknum, Penge på lommen (2020), vonbrigðum. Það hafi nefnilega reynst henni ómögulegt að skrifa bókina sem hún hafði lofað í lok Penge på lommen um viðskiptamanninn T og hlut hans í íkveikjunni: „jeg skrev tre versioner / af den bog / og hadede dem alle […] Hvad skulle jeg dog / inde / i den mands hoved / der var ingenting / at hente.“[15] Lesandinn er þannig dreginn inn í frásögnina og verður um leið óbeinn þátttakandi í sjálfu ritferlinu. Við tekur síðan seiðandi og furðuleg frásögn sem víxlar á milli ljóða og prósa og vekur hroll í brjósti lesandans með ískyggilegum lýsingum. Eins og áður hefur komið fram er Djöflabókin önnur bókin í framhaldsseríu Nordenhof sem mun að sögn höfundar innihalda sjö bindi.[16] Það verður því forvitnilegt að sjá hvert Nordenhof fer með okkur í næstu bók, hvort við höldum áfram beina leið niður í undirheima eða snúum okkur mögulega eitthvert allt annað.
Bókmenntir á krísutímum
„Það þykir ekki lengur kúl að vera með höfuðið uppi í skýjunum,“ er svarið sem ég fæ þegar ég spyr bóksala í bókabúð á Norðurbrú í Kaupmannahöfn hvað einkenni danska bókmenntasenu um þessar mundir. Hann talar um jarðtengingu og bendir á að rithöfundar beini linsu sinni í auknum mæli að samfélaginu, hinu veraldlega og hinu pólitíska. Þetta kemur vel heim og saman við þá tilhneigingu í dönskum samtímabókmenntum sem Tue Andersen Nexø hefur bent á og nefnt samfélagslegan viðsnúning (d. social vending) í bók sinni Vidnesbyrd fra Velfærdsstaten (2016).[17] Þar heldur hann því einnig fram að hin upphafna mynd af skandinavísku velferðarkerfi, sem lengi var ríkjandi í dönskum bókmenntum, hafi vikið fyrir mun svartsýnni og gagnrýnni mynd.[18] Vendingin helst í hendur við aukna samfélagslega tortryggni og vantraust í garð velferðarkerfisins og hana má jafnframt skilja sem viðbragð við þeim krísutímum sem við stöndum nú frammi fyrir, ekki síst vegna hamfarahlýnunar.[19] Þá hafa skáld á borð við Olgu Ravn, Asta Olivia Nordenhof og Theis Ørntoft verið kölluð fulltrúar hinnar „siðferðilegu kynslóðar“ rithöfunda, eða á dönsku „generation etik“, sökum þess að í verkum sínum splæsa þau óhrædd saman pólitík og list, sem lengi þótti vandmeðfarið eða jafnvel óviðeigandi.[20] Verk þeirra einkennast jafnframt af sterkri siðferðiskennd og pólitískri meðvitund gagnvart hlutverki listarinnar á okkar tímum.[21]
Af öðrum straumum og stefnum sem borið hefur á í dönskum samtímabókmenntum má nefna nýja líkamleikann (d. den nye kropslighed), sem skáld á borð við Olgu Ravn, Asta Olivia Nordenhof og Amalie Smith hafa verið kenndar við og þar sem hinn gróteski, áþreifanlegi og jafnan ófagri líkami er í fyrirrúmi.[22] Að auki hefur verið rætt um brotthvarf kaldhæðninnar í skáldskap og endurkomu einlægninnar, fóbíu gagnvart fullorðinsleika (d. voksenfobi) og listrænan viðkvæmnisaktívisma (d. ømhedsakvitisme).[23] Rithöfundarnir Anna Riedel og Sidsel Ana Welden Gajardo eru sérstaklega kenndar við hið síðastnefnda en þær hafa í verkum sínum fjallað um nýjar leiðir til þess að tala um geðræn veikindi.[24] Ømhed, sem á íslensku mætti mögulega þýða sem ástúðlega hlýju, verður þannig aðferð til að veita viðnám og um leið til að rannsaka hvernig listir og bókmenntir geta nýst innan heilbrigðisgeirans.[25] Þá hafa ýmsir danskir rithöfundar fjallað í verkum sínum um umhverfisvernd og dýravelferð, svo sem Mathilde Walter Clark sem fjallar í margverðlaunaðri skáldsögu sinni Det blinde øje (2023) um hið umdeilda minkamál sem átti sér stað í upphafi kórónuveirufaraldursins og lesendur muna ef til vill eftir.[26]
Bóksalinn nefnir skáldsöguna Jordisk (2023) eftir Theis Ørntoft, margradda kynslóðasögu sem teygir sig yfir um 600 blaðsíður og var nýverið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.[27] Auk Ørntoft hlaut danski rithöfundurinn Helle Helle tilnefningu fyrir bók sína Hafni fortæller (2023) sem segir frá smurbrauðsreisu konu um Jótland í miðjum skilnaði.[28] Áður hefur Ørntoft sent frá sér ljóðabókina Digte 2014 (2014) og loftslagsskáldsöguna Solar (2018), sem hann fékk mikið lof fyrir, en hún segir frá tilvistarangist ljóðskáldsins Theis og vonleysi hans í garð vestræns samfélags.[29] Í Jordisk, sem einnig mætti skilgreina sem loftslagsskáldsögu, tekur Ørntoft upp marga sömu þræði og í Solar en nú er það ekki lengur einstaklingurinn sem er miðpunktur sögunnar heldur samfélagið sem umlykur hann. Sjónarhornið hefur þannig víkkað og beinist jafnframt inn á við, að mannlífinu í allri sinni litadýrð, ekki síður en stærri utanaðkomandi öflum. Í lok Solar er lesandinn skilinn eftir í algjöru vonleysi en í Jordisk er hins vegar að finna nokkra bjartsýni og jafnvel von. Sagan er að hluta til vísindaskáldsaga en hún er einnig ofurraunsæisleg að því leyti að hún greinir í nákvæmum smáatriðum frá samræðum og hugsunum sögupersóna svo lesandinn er ítrekað, sér í lagi í fyrri hluta bókarinnar, kaffærður með ofgnótt af upplýsingum. Inn í söguna fléttar Ørntoft sömuleiðis ólíkar kenningar og orðræður sem sögupersónurnar gefa rödd og þannig takast á mismunandi sjónarmið og skoðanir í gegnum frásögnina. Á einum stað talar sögupersónan Rhea, kona á þrítugsaldri, um aukinn samfélagslegan áhuga á ýmiss konar dulspeki og útbreiðslu samsæriskenninga: „Underverdenen dukker op flere og flere steder. […] Én for én har vi aflivet de myter og forestillinger, der engang forklarede verden og gav den dybde. Det placerer mennesket i endnu en krise.“[30] Ørntoft hefur sjálfur talað um það að hafa viljað nota skáldskapinn í tilraunaskyni til að setja fram og prófa ýmis sundurleit og oft mótsagnakennd viðhorf og skoðanir sem endurspegla vestrænan hugsunarhátt samtímans.[31] Jordisk er þannig þéttofin og heildræn frásögn sem fangar fjölbreytt litbrigði mannlífsins á tímum hamfarahlýnunar og miðlar sömuleiðis hughreystandi trú á vægi listarinnar og uppbyggilegt hlutverk hennar á krísutímum.
Det er et yndigt land
„somaaliyey tooso, brormand, det er et yndigt land,“ skrifar ungskáldið Amina Elmi (f. 1994) í ljóðabók sinni Barbar [Tavshedens objekt] (2023) með vísun í danska þjóðsönginn.[32] Ljóðabókin vakti mikið umtal þegar hún kom út síðasta haust og fyrir hana hlaut Elmi Debutantprisen, verðlaun sem veitt eru árlega á dönsku bókamessunni fyrir bestu frumraunina í skáldskap.[33] Í bókinni skrifar Elmi meðal annars um reynslu sína af því að alast upp sem innflytjandi í dönsku samfélagi, en hún flutti til Jótlands frá Sómalíu ásamt fjölskyldu sinni þegar hún var þriggja ára gömul. Ljóðin hafa því pólitískan undirtón en þau fjalla líka um sorg, ást og hrottaskap; um tungumálið og löngunina eftir því að tilheyra. Í ljóðum sínum blandar Elmi jafnframt saman dönsku, ensku, arabísku og sómalísku, og „sikksakkar“ þannig tungumálið, eins og hún sjálf kemst að orði: „somalieren har lavet zigzag på jeres sprog i 30 år / miyaad waalantahay; vi har givet jer nok / om lidt kommer alle til at claime de har kendt en Abdi i 3. klasse.“[34] Á þennan hátt framandgerir Elmi tungumálið fyrir hinn almenna málhafa og skrifar um leið margbreytilegan tungumálaveruleika sinn inn í dönskuna. Þannig skapar hún einnig nýja hrynjandi eða tónlist í dönskunni og hefur verið nefnd einn af brautryðjendum nýrrar bókmenntastefnu sem snýr að auknu fjöltyngi í dönskum samtímabókmenntum.[35]Elmi hefur verið varfærnislega líkt við dansk-palestínska ljóðskáldið Yahya Hassan (f. 1995) í dönskum fjölmiðlum, en hann hristi rækilega upp í danskri bókmenntasenu með ljóðabók sinni YAHYA HASSAN árið 2013 og náði alþjóðlegri frægð áður en hann lést fyrir aldur fram í apríl 2020, einungis 24 ára gamall.[36] Líkt og Hassan útskrifaðist Elmi úr hinum virta danska rithöfundaskóla Forfatterskolen, þaðan sem margir helstu rithöfundar Danmerkur eru menntaðir, svo sem Solvej Balle, Helle Helle, Olga Ravn, Jonas Eika og Theis Ørntoft. Með ritlistargráðu úr Forfatterskolen skrifar Elmi sig þannig inn í kanónu danskra bókmennta, nokkuð sem hún virðist sjálf afar meðvituð um ef marka má ljóð hennar. Þannig skrifar hún í einlægu ljóði til föður síns í upphafi bókar:
og jeg ser mig omkring, kommunen, jobcentrene, asylcentrene, alle steder du har været i systemet, og her sidder jeg / og skriver digte og får penge af staten for det, intet giver mening, / et fremmedpas og studerende på en af de mest prestigefyldte kulturelle institutioner i skandinavien, er det nu jeg skal sige / SHOUT OUT til udlændingestyrelsen, jeg er her endnu som / en ode til alle dem der har båret mig hen til min stemme[37]
Í Barbar má jafnframt greina togstreitu Elmi gagnvart þeirri stöðu sem henni hefur verið ánafnað sem innflytjendarithöfundur og í viðtölum um bókina hefur hún tekið fram að hún sé þreytt á því að allt sem hún skrifi þurfi að vera pólitískt. Í upphafi fjórða og síðasta hluta bókarinnar skrifar hún: „et vidnesbyrd / kæft jeg hader ordet vidnesbyrd / lad os kalde det et kampskrift / kæft jeg hader det ord endnu mere.“[38] Þá hefur hún sömuleiðis verið gagnrýnin, jafnt í ljóðum sínum sem og í viðtölum og á samfélagsmiðlum, á tilhneigingu dansks samfélags til að eigna sér rödd innflytjandans af áhuga sem jaðrar stundum við blæti.[39] Barbar vekur þannig upp spurningar um aðgengi að dönsku bókmenntalífi, hver megi taka þátt og á hvaða forsendum. Í ritdómi dagblaðsins Information um Barbar, sem vísað er til aftan á bókakápunni, segir einfaldlega: „Amina Elmi er hér.“[40] Og Amina Elmi er sannarlega hér, í miðju bókmenntasenunnar; engu síður bera ljóð hennar vitni um þörf fyrir að þurfa í sífellu að svara fyrir viðveru sína sem innflytjendahöfundur. Með Barbar stígur hún þó einnig fram af áræðni og einlægni sem einn af fulltrúum nýrrar kynslóðar rithöfunda í dönskum bókmenntum – og það verður spennandi að fá að fylgjast með henni áfram.
Tilvísanir
[1] Bókmenntahátíðin Louisiana Literature fer fram á hverju sumri á listasafninu Louisiana Museum for Modern Art á Sjálandi. Hátíðin var fyrst haldin árið 2010. Sjá https://louisiana.dk/det-sker/louisiana-literature/.
[2] Asta Olivia Nordenhof, Djævlebogen: Scandinavian Star. Del 2 (Kaupmannahöfn: Gads forlag, 2023); Nath Kraus, Logan i Aokigahara (Kaupmannahöfn: Møllegades Boghandel, 2023); Tellerup, Malte. Spræng fabrikken. Kaupmannahöfn: OVO Press, 2023.
[3] Jonas Eika, Efter solen (Kaupmannahöfn: Basilisk, 2018) og Olga Ravn, Voksbarnet (Kaupmannahöfn: Gyldendal, 2023).
[4] Olga Ravn og Johanne Lykke Holm stofnuðu ritlistarnámskeiðið Hekseskolen árið 2015. Tine Kirkensgaard, „Heksen er en kvinde, der ikke er bange for at gå over grænser,“ Politiken, 29. september 2017.
[5] Isabella Balanchi, „Olga Ravn har altid været fascineret af heksene,“ Kristeligt Dagblad, 18. nóvember 2023.
[6] Sama.
[7] Sama. Sjá einnig t.d. Torben Svendrup, Magi og trolddom i dansk middelalder (Egå: Ådalen, 2019).
[8] Isabella Balanchi, „Olga Ravn har altid været fascineret af heksene“..
[9] Fræðikonan Silvia Federici heldur því fram að nornin sé uppfinning sem kom fram í tengslum við upphaf kapítalismans og nýlendustefnu í Evrópu. Silvia Federici, Caliban and the Witch: Women, the Body and Primitive Accumulation (New York: Autonomedia, 2004).
[10] Tine Kirkensgaard, „Heksen er en kvinde, der ikke er bange for at gå over grænser“.
[11] Maren Uthaug, 11% (København: Lindhart og Ringhof, 2022).
[12] Sebastian Nathan (f. 1996) útskrifaðist úr Forfatterskolen árið 2019 og sendi frá sér frumraun sína, ljóðasafnið Honey Moon, árið 2021. Engle er önnur bók hans. Sebastian Nathan, Engle (København, Gads forlag, 2024), 60.
[13] Um hugtakið sjálfsaga (e. metafiction) sjá Jón Karl Helgason, „Deiligaldur Elíasar: tilraun um frásagnarspegla og sjálfgetinn skáldskap,“ Ritið nr. 3 (2006): 101-130.
[14] Íkveikjan átti sér stað aðfaranótt 7. apríl 1990. 159 manns létu lífið. Danska ríkisútvarpið (DR) gerði nýverið heimildaþáttaseríu um málið, sjá https://www.dr.dk/drtv/serie/scandinavian-star_170141.
[15] Asta Olivia Nordenhof, Djævlebogen, 11-12.
[16] Asta Olivia Nordenhof, Djævlebogen, 10.
[17] Tue Andersen Nexø, Vidnesbyrd fra velfærdsstaten: den sociale vending i ny dansk litteratur (Kaupmannahöfn: Arena, 2016).
[18] Sama, 8.
[19] Sama. Fyrir nánari umfjöllun um hamfarahlýnun og danskar samtímabókmenntir, sjá Marianne Barlyng og Jens Kramshøj Flinker ritstj., Solen er ligeglad: er litteraturen? (Hellerup: Forlaget Spring, 2022).
[20] Pauline Bendensen, „Generation etik,“ Information, 24. janúar 2014, https://www.information.dk/kultur/2014/01/generation-etik
[21] Sama.
[22] Elisabeth Friis, „Den forbandede krop,“ Information, 3. febrúar 2012. https://www.information.dk/kultur/2012/02/forbandede-krop
[23] Michael Kallesøe Schmidt, „Nordic Studies: Danish Literature“, The Year’s Work in Modern Language Studies 83, 1 (2023): 625-634, https://doi-org.ep.fjernadgang.kb.dk/10.1163/22224297-08301015. Sjá einnig t.d. Camilla Schwartz, „Fra Voksenfobi Til Moderskab i Dansk Samtidslitteratur,“ Passage 36, nr. 85 (2021): 45–61, https://doi.org/10.7146/pas.v36i85.127974; Johanne Gormsen Schmidt, „Bogstaveligt Talt: Fra Levet Liv Til Tung Vision: 10’erne Læst Gennem Karl Ove Knausgård, Asta Olivia Nordenhof og Jonas Eika,“ Passage (Århus, Denmark) 36, nr. 85 (2021): 29–44 og Merle Baeré, „To forfattere vil give ordet til patienten i psykiatrien og kalder det ’ømhedsaktivisme’,“ Information, 21. nóvember 2020, https://www.information.dk/kultur/2020/11/to-forfattere-give-ordet-patienten-psykiatrien-kalder-oemhedsaktivisme?destination=node/719732.
[24] Merle Baeré, „To forfattere vil give ordet til patienten i psykiatrien og kalder det ’ømhedsaktivisme’.“
[25] Sama.
[26] Mathilde Walter Clark, Det blinde øje (Kaupmannahöfn, Politikens forlag, 2023).
[27] Theis Ørntoft, Jordisk (Kaupmannahöfn: Gyldendal, 2023). Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, Norden.org, https://www.norden.org/is/bokmenntaverdlaunin.
[28] Helle Helle, Hafni fortæller (Kaupmannahöfn: Gutkind, 2023).
[29] Theis Ørntoft, Solar (Kaupmannahöfn: Gyldendal, 2018).
[30] Theis Ørntoft, Jordisk, 100.
[31] Nanna Mogensen, „Theis Ørntoft: ’Jordisk’,“ DR – P1. Skønlitteratur (ritstj. Hanne Barslund), 6. september 2023, 57 mín, https://www.dr.dk/lyd/p1/skoenlitteratur/skoenlitteratur-2023/skoenlitteratur-theis-oerntoft-jordisk-11032303363?fbclid=IwAR1CNrcXplosTn_NCD7lX-IWryWKonVGRv2N1D8HLi71prmvPAfUYxoXSNk
[32] Nana Bugge Rasmussen, „Amina Elmi,“ Forfatterweb: Bibliotek og undervisning, september 2023, https://forfatterweb.dk/elmi-amina. Amina Elmi, Barbar.
[33] Sama.
[34] Amina Elmi, Barbar, 103.
[35] Á dönsku er talað um „flersproglig litteraturrevolution“. Victor Skov Jeppesen, „Vi er vidner til en flersproglig guldalder i dansk litteratur. Og den er kun lige begyndt,“ Information, 3. nóvember 2023, https://www.information.dk/kultur/2023/10/vidner-flersproglig-guldalder-dansk-litteratur-kun-lige-begyndt?lst_srs.
[36] Sjá t.d. Mikkel Krause Frantzen, „Det er svært ikke at kalde den her bog en sensation,“ Politiken, 17. ágúst 2023, https://politiken.dk/kultur/boger/boganmeldelser/skonlitteratur_boger/art9477741/Det-er-sv%C3%A6rt-ikke-at-kalde-den-her-bog-en-sensation. Lisa Vandborg, „Yahya Hassan,“ Litteratursiden – bibliotekernes side om litteratur, https://litteratursiden.dk/forfattere/yahya-hassan. Sjá einnig Louise Rosengreen, „Yahya Hassan,“ Forfatterweb: Bibliotek og undervisning, desember 2019 (uppfært 2020), https://forfatterweb.dk/oversigt/hassan-yahya.
[37] Amina Elmi, Barbar, 20.
[38] Amina Elmi, Barbar, 87.
[39] Victor Skov Jeppesen, „Amina Elmi vinder Debutantprisen: »Det handler om poesien. Hvorfor skal det være en kampplads?«“ Information, 3. nóvember 2023, https://www.information.dk/kultur/2023/09/amina-elmi-laver-zigzag-paa-sproget.
[40] Kamilla Löfström, „‚Barbar‘ er en stærk debut og et sprog under sproget ligesom et hjerte under hjertet,“ Information, 18. ágúst 2023, https://www.information.dk/kultur/anmeldelse/2023/08/barbar-staerk-debut-sprog-sproget-ligesom-hjerte-hjertet.