Elsku barn eftir Dennis Kelly sem var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi undir stjórn Jóns Páls Eyjólfssonar er ekki venjulegt leikrit. Það er byggt upp á viðtölum og minnir mest á réttardrama – sem löngum hafa verið vinsæl, einkum í sjónvarpi. En þó að þetta þýði að verkið sé nokkurn veginn allt safn eintala er það andskoti áhrifamikið, einkum vegna þess að það er svo fantavel leikið. Og þar á aðalleikarinn, Unnur Ösp Stefánsdóttir, stærstan hlut.

Elsku barnUnnur Ösp leikur Donnu, unga konu sem hefur setið í fangelsi fyrir að hafa drepið tvö börn sín sem dóu í frumbernsku. Þaðan var henni þó sleppt eftir að málið var tekið upp að nýju, en fangelsisvistin hefur sett óafmáanlegt mark sitt á hana. Lýsingarnar á fangavistinni í fyrsta viðtalinu við Donnu voru rosalega áhrifamiklar í einfaldleika sínum, maður átti í engum vandræðum með að sjá allt fyrir sér sem Donna segir frá. Smám saman fáum við svo að vita meira um málið og sögu Donnu, hitta móður Donnu, Lynn (Halldóra Geirharðsdóttir), sem er á pólitískri framabraut, aðstoðarmann hennar Jim (Valur Freyr Einarsson), blaðakonuna sem skrifaði æsifréttirnar um dauða barna Donnu (Nína Dögg Filippusdóttir), eiginmann Donnu (Hallgrímur Ólafsson) og síðast en ekki síst sálfræðinginn dr. Millard (Benedikt Erlingsson), sem hefur sínar eigin hugmyndir um konur sem drepa börnin sín. Finnur meira að segja upp sérstakt syndróm sem hann segir þær eiga sameiginlegt.

Leikararnir sköpuðu sannfærandi persónur og heilluðu með líflegum leik þótt mótleikarinn sæist ekki og stundum heyrðist meira að segja ekki í honum. Fyrir utan persónu Donnu varð einkum persóna pólitíkussins Lynn smám saman óhugnanlega ljós. Sú er nú ekki hikandi í tali, klisjurnar renna upp úr henni, vel hugsaðar og vel smurðar. Annað en frásögn dóttur hennar, margslitin sundur og höktandi vegna þess að hún er að reyna að segja hið ósegjanlega, lýsa hinu ólýsanlega. Þessum mun og öllu honum tilheyrandi náði þýðing Hafliða Arngrímssonar skínandi vel.

Verkið vann Dennis Kelly upp úr þekktu máli á Bretlandseyjum þegar þrjár dæmdar konur voru seinna sýknaðar af því að hafa drepið börn sín eftir að furðulegir útreikningar barnalæknis á líkunum fyrir því að vöggudauði væri í rauninni morð voru dregnir í efa af fræðimönnum. Verkið þykist framan af vera heimildaverk – og auðvitað er það það – en smám saman kemur margfeldi þess og blekkingaleikur í ljós. Undir þessa margræðni ýtti göldrótt sviðsmynd Ilmar Stefánsdóttur og tónlist Halls Ingólfssonar magnaði sjokkeffekta yfirheyrslnanna. Djöfulli hrökk ég við, maður.

Elsku barn verður varla eins minnisstætt sem leikrit og Munaðarlaus eftir Kelly sem var ein athyglisverðasta sýning ársins í fyrra. En þó að eintöl séu einhæfari en samtöl þá vil ég hvetja áhugamenn um leikhús til að missa ekki af þessari sýningu, einkum fyrir frábæran leik og óvænt sviðsumhverfi.

 

Silja Aðalsteinsdóttir