Það er svo góður gangur í sýningum Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu að til vandræða horfir. Því hefur leikhússtjórinn nú komið sér upp annexíu í Gamla bíói þar sem frumsýnd var í gærkvöldi uppsetning Kristínar Jóhannesdóttur áKristín Jóhannes eftir Federico Garcia Lorca, í nýrri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar, á ísköldu, álklæddu og stórfenglegu sviði Brynju Björnsdóttur.

Hús Bernhörðu AlbaAðstæðurnar sem Lorca skapar í verki sínu eru nöturlegar. Bernharða Alba, sextug húsfreyja og tvöföld ekkja (Þröstur Leó Gunnarsson), ákveður þegar hún missir seinni mann sinn að hlíta fornum siðum og loka dætur sínar fimm inni í átta sorgarár. Dæturnar eru á aldrinum 20 til 39 ára en raunar er sú elsta, Angústías (Harpa Arnardóttir), dóttir fyrri manns hennar og þarf því ekki að loka sig alveg inni en má tala við vonbiðil sinn, Pepe, gegnum rimlana í herbergisglugganum sínum og leyfa honum að biðla til sín. Angústías er líka betur sett en hinar systurnar að því leyti að hún erfir mikinn auð eftir föður sinn, hinar fá lítið eftir sinn föður. En Angústías er orðin roskin, næstum komin úr barneign, og þar að auki heilsulítil, þannig að Pepe (sem við sjáum aldrei á sviðinu) hefur að líkindum meiri áhuga á yngri dætrunum, einkum þeirri yngstu, Adelu (Hildur Berglind Arndal). Alltént hafa allar dæturnar mikinn áhuga á Pepe sem verður draumaprinsinn þeirra í kæfandi andrúmslofti húss Bernhörðu sem er sannur heimilisharðstjóri.

Leikritið fjallar um það sem gerist þegar eðlilegar hvatir fólks eru bældar í langan tíma. Það er – að minnsta kosti á yfirborðinu – um karlmannsleysi, og Kristín dregur enga dul á það. Systurnar eru hver með sínu svipmóti: Angústías viðutan og gufuleg, Magdalena (Unnur Ösp Stefánsdóttir) hörð á ytra borði og skörp en meyr hið innra, Amalía (Maríanna Clara Lúthersdóttir) dæmigert miðjubarn sem alla vill sætta, Martírío (Nína Dögg Filippusdóttir) veiklunduð og brotin en Adela djörf og uppreisnargjörn, ung og ennþá óbuguð. En þær eiga allar sameiginlegt að þrá að vera elskaðar, þrá atlot og útrás tilfinninga sinna. Greddan varð stundum nærri áþreifanleg í loftinu. Þó voru Bernhörðudætur alltaf þokkafullar og oft fyndnar í ýktum hreyfingum sínum en aldrei klúrar. Greddan var enn undirstrikuð í samtali Pontíu ráðskonu (Sigrún Edda Björnsdóttir) við vinnukonuna í húsinu (Charlotte Bøving) í byrjun leiks og eintali vinnukonunnar þar sem hún gefur í skyn að húsbóndinn nýlátni hafi notfært sér hana kynferðislega. Báðar þessar persónur voru afar vel gerðar, ekki síst vinnukona Charlotte sem varð óvænt einkar kærkomið kómískt innslag. Enn er bætt í með persónu afgamallar móður Bernhörðu, Maríu Jósefu (Hanna María Karlsdóttir), sem er læst inni í herbergi sínu en sleppur út og vill flýja úr húsi dóttur sinnar til að gifta sig. Einnig hún er á valdi órakenndra kynferðislegra langana.

Samkvæmt túlkun leikstjórans eru þessar kúguðu og kynferðislega bældu konur táknmynd spænsku þjóðarinnar undir Franco og þess vegna hefur hún karl í hlutverki móðurinnar, Bernhörðu sjálfrar. Með þessu breytir hún áherslum í verkinu sem upphaflega er ekki síst árás á háskalegt vald mæðra yfir dætrum sínum. En þessi túlkun er alveg viðunandi af því að hin túlkunin blasir ævinlega við.

Þetta er mikil kvennasýning því auk allra þessara kvenna í helstu hlutverkum leika Esther Talía Casey og Lovísa Ósk Gunnarsdóttir nokkur aukahlutverk í verkinu og persónur úr nútímanum sem skotið er inn í sýninguna. Tveir kvennakórar, Vox feminae og Stúlknakór Reykjavíkur, leika syrgjandi (og syngjandi) svartklæddar þorpskonur. Senurnar með þeim og dætrum Bernhörðu í sínum fögru sorgarklæðum (Þórunn María Jónsdóttir hannaði eftirminnilega búninga) voru gífurlega áhrifamiklar sviðsmyndir. Svo fór barnung stúlka frábærlega með stutta upphafsræðu, ég veit ekki hvor þeirra það var sem eru skrifaðar fyrir hlutverkinu í leikskrá.

Í rauninni má segja að þessi sýning sé ekki síður „flipp“ en uppsetningin á Jeppa á Fjalli í Borgarleikhúsinu um daginn. Hér er unnið með gamalt leikrit og það lagað að nýjum tíma eftir smekk leikstjórans. En munurinn er einkum sá að Hús Bernhörðu Alba er mun betra, bitastæðara og skemmtilegra verk en Jeppi. Að vísu voru einnig í gærkvöldi senur sem urðu of langar og voru löngu búnar að koma merkingu sinni til skila þegar þeim loksins lauk – ég nefni til dæmis heimsókn Prúdentíu (Esther Talía) og eintal gömlu Maríu Jósefu – en þetta voru undantekningar. Einnig má segja að innskot Pussy Riot, Tawakkon Karman og Simone de Beauvoir hafi verið óþörf, leikritið og sýningin talaði skýrt án þeirra, en þau voru ekkert leiðinleg. Allt í allt var þetta glæsileg sýning, sterk og heit og verður lengi í minnum höfð.

Silja Aðalsteinsdóttir