Í samhengi við stjörnurnarÍ samhengi við stjörnurnar eftir Nick Payne er vissulega leikrit fyrir tvo leikara en á frumsýningunni í Tjarnarbíó í gærkvöldi fannst mér oft að ég væri að upplifa danssýningu, myndlistargjörning eða tónverk, svo sérkennilega margslungin er þessi sýning sem Árni Kristjánsson stjórnar af öryggi. Árni þýðir verkið líka á þjált talmál þó oft fjalli orðræðan um flókin vísindi.

Vísindamaðurinn María (Birgitta Birgisdóttir) og býflugnabóndinn Ragnar (Hilmir Jensson) hittast í fyrsta skipti í grillveislu og hún notar á hann eina frumlegustu pikköpplínu sögunnar: Geturðu sleikt á þér olnbogann? Ég vissi það ekki fyrir en tilfellið er að það getur manneskjan ekki! Þetta atriði fáum við að sjá hvað eftir annað af því að hann bregst ýmislega við daðurslegri spurningunni eftir því hvar hann er staddur í lífi sínu: Hann er trúlofaður, hann er giftur, hann er nýkominn úr löngu sambandi, hann hefur ekki áhuga, hann hefur áhuga! En þó að hann hafi áhuga og fari með henni heim – í boði hennar – er leiðin ekki endilega greið því þegar þangað kemur er hún kannski ekki í stuði til að sinna honum meira. Og þegar hún vísar honum á dyr bregst hann ýmislega við því, verður svekktur, pirraður, reiður jafnvel eða skilningsríkur og tilbúinn til að taka upp þráðinn þegar hún vill. Og svona gengur þetta áfram og áfram því á eftir hverri ákvörðun koma ótal aðrar sem þau bregðast við á ýmsan hátt …

Leikskáldið bendir á með býsna frumlegum og máttugum hætti að við ráðum ósköp litlu um líf okkar og örlög. Þrátt fyrir titil verksins finnst mér hann segja að líf okkar sé alls ekki skráð í stjörnurnar heldur hafi milljón litlir hlutir úrslitaþýðingu fyrir það hvað okkur verður úr stórkostlegustu tækifærum okkar til að verða gæfusöm í lífinu og þar ráði tilviljunin ein. Til að negla þetta inn í huga okkar notar hann endurtekninguna sem verður dáleiðandi með sínum óteljandi tilbrigðum í orðum, athöfnum, svipbrigðum og tóni. Þann meistaralega tvídans dönsuðu þau Birgitta og Hilmir fantalega vel. Þau þurftu að skipta snöggt milli tilfinninga – frá áhugaleysi, gegnum kæruleysi yfir í kviknandi áhugavott , þaðan í raunverulegan áhuga og svo jafnvel aftur til baka. En þrátt fyrir fjölda tilbrigða og hröð skapbrigði tókst þeim að túlka sannan tilfinningahita þegar stjörnurnar stilltu sér þannig upp. Og það varð fullkomlega sannfærandi að Ragnari gætu fundist skammtafræði Maríu sexí!

Í samhengi við stjörnurnarSkiptin milli tilbrigða voru túlkuð með hreyfingum og ljósum og mér fannst alltaf skýrt hvenær við vorum komin í annað tímalag. Þetta hefur útheimt mikla nákvæmnisvinnu hjá Hafliða Emil Barðasyni ljósahönnuði og Árna leikstjóra sem skapaði sannfærandi sinfóníu úr óreiðunni. Hljóðheimur Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur var óáleitinn og afar viðeigandi.

Þórunn María Jónsdóttir gerir leikmyndina sem er einföld en gersamlega heillandi: Niður úr loftinu hangir listaverk sem minnir á uppistöðu í fornan vef eða steinhörpu og á gólfinu stendur hár þríhyrningur sem einnig minnir á strengjahljóðfæri. Loks er ferhyrndur kollur á sviðinu sem gagnast ýmislega. Búningarnir eru sömuleiðis einfaldir, hvítur kjóll, hvítar buxur, jakki og bolur.

Í samhengi við stjörnurnar er vel spunnið fimm ára gamalt verðlaunaverk eftir athyglisverðan ungan breskan höfund. Það bregður óvæntu ljósi á hversdagsleikann með því að margfalda hann á frumlegan hátt. Sýningin er stílhrein, falleg og áhrifamikil og ástæða til að hvetja áhugamenn um leikhús til að láta hana ekki framhjá sér fara.

-Silja Aðalsteinsdóttir