Þú ert hér://Ósköp er litla höndin þín köld

Ósköp er litla höndin þín köld

Óperuleikstjórinn Jamie Hayes setti upp nokkrar sýningar hjá Íslensku óperunni í Gamla bíó og það er greinilegt á nýrri uppsetningu hans á La Bohème í Eldborgarsal Hörpu að hann hefur verið orðinn ansi leiður á þrengslunum á gamla staðnum. Þeir sem sáu uppsetningu hans á La Traviata fyrir um fjórum árum kannast við aðferðir hans og stíl, hann er mikið fyrir glæsilegar veislur og fjörug partý og að senda söngvarana upp og niður ganga og svalir, en í þessari nýju sýningu missir hann sig alveg af púra kátínu yfir plássinu, fyllir svið og hús af glæsilegum Parísarbúum á öllum aldri. Þarna svífa um svið og sal um þrír tugir barna og álíka fjölmennur kór íslensku óperunnar auk aðalsöngvaranna, meðlima Sirkus Íslands og tuttugu manna lúðrasveitar. Manni flaug kannski í hug orðið bruðl – en það var áður en sýningin fór alvarlega að beita mann galdri sínum.

La Bohème Því þarna verða til sannir töfrar. Enn á ný lifði maður sig inn í söguna gömlu og nýju um ungu, fátæku elskendurna, skáldið Rodolfo og saumakonuna Mimi (sem Garðar Thór Cortes og Þóra Einarsdóttir sungu á sýningunni sem ég sá). Þau hittast, verða ástfangin og fara að búa saman en hljóta að skilja af því hann getur ekki hugsað nógu vel um hana eftir að hún verður veik. Hún fær sér auðugri elskhuga en henni batnar ekki og dauðvona þráir hún ekkert heitar en sinn gamla ástmann. Í grátbólgnu lokaatriði deyr hún og skilur Rodolfo eftir óhuggandi.

En þó að þeirra tragíska ástarsaga sé aðal er létt á henni með fjörugum aukasögum af listamönnum og námsmönnum í Latínuhverfinu í París um miðja 19. öld. Þar ber hæst brokkgengu elskendurna Marcello (Ágúst Ólafsson) og Musettu (Herdís Anna Jónasdóttir) sem eru dauðskotin hvort í öðru en Musetta á erfitt með að halda sig við einn í einu sem þar að auki er alltaf blankur. Hún á annan ríkari vin í Alcindoro (Bergþór Pálsson) og notar hann til að stríða Marcello. Einnig eru stöðugt í kringum þá Rodolfo og Marcello vinirnir Schaunard (Hrólfur Sæmundsson) og Colline (Jóhann Smári Sævarsson), uppáfinningarsamir prakkarar en líka góðir strákar.

Tónlist Puccinis er auðvitað dásamleg og nokkrar aríur úr þessari óperu eru löngu orðnar almenningseign. Eins og sjá má hér fyrir ofan sá ég aðra sýningu á verkinu með Garðari Thór og Þóru og mér fannst þau eins og sniðin í hlutverkin. Bæði svo falleg á sviði og náðu léttilega þeirri glöðu einlægni sem þarf til að sagan hrífi. Við þurfum að trúa því að þau elski hvort annað til að harmurinn virki í lokin. Ekkert skorti á það. Garðar Thór var sannfærandi Rodolfo bæði í gleði og sorg og fór fallega með aríurnar hans. Þóra var beinlínis stórbrotin Mimi. Maður tók andköf í glæsilegustu aríunum og ég varð fyrir þeirri sérkennilegu lífsreynslu að fá gæsahúð niður á hæla þegar hún kynnti sig fyrir Rodolfo í fyrsta þætti. Ágúst og Herdís Anna voru frábær í sínum hlutverkum, fyndin þegar það átti við, bitur og illvíg í skilnaðarsenunni og svo hjartnæm í lokin þegar þau gera sitt besta til að bjarga Mimi. Bergþór Pálsson syngur bæði leigusalann Benoît og auðuga kokkálinn Alcindoro og var bráðfyndinn í báðum hlutverkum.

La boheme

Daníel Bjarnason stýrði fjölmennri sinfóníuhljómsveitinni í gryfjunni og ekki hef ég annað upp á hann að klaga en að kannski hefði mátt draga úr styrk einstaka sinnum til að betur mætti njóta einsöngsins, en ég tek fram að ég sat niðri í sal; sennilega hefur fólk á svölum ekki orðið vart við þetta. Leikmyndina gerði Will Bowen og hún var verulega falleg og þénug, blekkti augað vel með því að virðast mun dýpri en sviðið leyfir. Þar komu skuggamyndir á þili að góðum notum. Búningana eitt hundrað eða svo hannaði Filippía I. Elísdóttir og þeir voru sannkallað augnayndi. Mesta gleði hafði hún af því að klæða fiðrildið Musettu en ýmislegt má líka lesa í þá ákvörðun hennar að klæða Rodolfo og Mimi í hvítt í lokaþættinum. Lýsingin var á vegum Björns Bergsteins Guðmundssonar sem ekki brást.

Þetta var eftirminnileg upplifun og freistandi að nota hana sem grunn til að ræða eitt sem ég stillti mig um í spjalli mínu um Vesalingana í Þjóðleikhúsinu. Enginn söngvari er magnaður upp í La Bohème í Eldborgarsalnum, þó heyrist nánast hver tónn. Auðvitað eru þetta óperusöngvarar sem hafa það að aðalstarfi að fylla sali með röddinni einni. En þátttakendur í Vesalingunum hafa flestir raddir sem færu létt með það, og hinum þyrfti bara að hjálpa með því að draga niður í hljómsveitinni. Hugsið ykkur hvað það væri miklu notalegri upplifun ef við fengjum raddirnar beint úr hálsi söngvaranna en ekki úr tækjum.

Silja Aðalsteinsdóttir

2019-08-08T16:19:49+00:0018. mars 2012|