Kristín Eysteinsdóttir leggur áherslu á tímaleysi í uppsetningu sinni á Heddu Gabler í Þjóðleikhúsinu. Þýðing Bjarna Jónssonar er afar áheyrileg en líka algerlega úr nútímanum – til dæmis orðtak Jörgens Tesman eiginmanns Heddu sem er svo skemmtilega notað í verkinu: pældu í því. Svið Finns Arnars er sannarlega ekki sú borgaralega stofa sem Heddu finnst hún vera að kafna inni í (og horfið er málverkið af pabba hennar sem ríkti yfir þeirri stofu samkvæmt fyrirmælum höfundar). Búningar Filippíu Elísdóttur vísa í ýmsar áttir; Berta vinnukona (Harpa Arnardóttir) er í síðpilsi, Júlíana Tesman (Kristbjörg Kjeld) í buxnadragt, Hedda (Ilmur Kristjánsdóttir) og Thea (Brynhildur Guðjónsdóttir) í pilsum með faldinn vel fyrir ofan hné.

Hedda GablerÞað er ábyggilega líka hægt að farast úr þunglyndi í lítt mubleraðri stofu sem minnir mest á smarta biðstofu hjá arkitekt eða tískulækni og sveiflurnar á pilsfaldinum hafa verið stórar alveg frá lokum fyrri heimsstyrjaldar, en Hedda Gabler er samt ekki tímalaust verk. Við erum minnt á það aftur og aftur að það er skrifað fyrir aldamótin 1900, ef ekki með öðru þá því að aldrei er ýjað að því að Hedda eigi val í lífi sínu, geti valið að vera annað en „bara“ frú Tesman. Og ég verð að viðurkenna að það truflaði mig á köflum að uppsetningin skyldi ekki gangast undir það. Síðasta uppsetning á verkinu sem ég sá í London fyrir sex árum gerði það – en þá kemur önnur játning: ég er nærri því viss um að þessi nýja uppsetning á eftir að lifa lengur og betur í minningunni en hún.

Líklega er ég að leiða að því að væntanlegir áhorfendur eigi að horfa framhjá umbúðunum, endanlega skipta þær ekki máli heldur verkið og leikurinn – og þar er erfitt að gera meiri kröfur en voru uppfylltar á frumsýningunni í gærkvöldi.

Hedda og Jörgen Tesman (Valur Freyr Einarsson) eru nýkomin úr hálfs árs brúðkaupsferð um Ítalíu þegar leikritið hefst og sest að í stóru glæsihýsi sem keypt hefur verið handa þeim eftir duttlungum Heddu meðan þau eru í burtu. Í ferðinni hefur hún eytt og spennt óhóflega, enda giftist hún Tesman ekki af ást heldur til að geta verið áhyggjulaus um eigin hag. Hann á von á prófessorsstöðu í menningarsagnfræði og hefur tekið stór lán út á væntanleg laun. Það er dýrt að hafa náð í Heddu sem allir karlmenn í bænum vildu eignast. Ekki er langt liðið á dag þegar Hedda kemst að því að gamall kærasti, Ellert Lövborg (Stefán Hallur Stefánsson), er kominn í bæinn og búinn að drífa í því sem bóndi hennar hefur ekki komið í verk: að gefa út bók um menningarsagnfræði. Hún hætti við hann á sínum tíma vegna þess að hann virtist ekki eiga neina framtíð fyrir sér en nú er sýnt að hann getur orðið Tesman skæður keppinautur um prófessorsembættið. Ennþá verra finnst Heddu að gömul skólasystir hennar og kærasta Tesmans, Thea Elvsted, á stóran hlut í endurreisn Lövborgs og verki hans og enn stærri hlut í framhaldinu sem nú er fullgert í handriti. Hedda verður bæði svekkt og afbrýðisöm og verandi gáfuð kona verður hefnd hennar grimmileg. Við hana nýtur hún óvæntrar aðstoðar fjölskylduvinarins Brakks lögmanns (Eggert Þorleifsson) sem sér sér hag í því að aðstoða Heddu við að tortíma Lövborg.

Hedda Gabler er óskahlutverk leikkvenna enda stórt og dramatískt og persónan ekki einhlít. Kristín og Ilmur hlífa Heddu ekki í þessari sýningu. Hún er ergileg þegar hún vaknar að morgni eftir ferðalagið, hún er hrokafull við gömlu fröken Tesman, meinfýsin í orðum og athugasemdum og heiftúðug þegar á líður. Ibsen hefur lagt sig allan fram við að gera texta hennar auðugan og persónuna spennandi þó ekki sé hún aðlaðandi. Þó getur Hedda vel breitt yfir ergelsið þegar á þarf að halda, verið elskuleg við Theu meðan hún er að hafa upp úr henni leyndarmálin, daðursleg við Brakk og í samtölum við Lövborg glittir í viðkvæma stúlku undir niðri. Hedda Ilmar er hvorki femínisti né fórnarlamb eins og maður hefur séð hana túlkaða, hún er reið ung kona, kannski fyrst og fremst sjálfri sér fyrir að hafa ekki þorað að fylgja eigin sannfæringu, fyrir að hafa valið vitlaust, fyrir að vera búin að loka sig inni. Ilmur var sannfærandi refsigyðja yfir sjálfri sér og leið hennar út úr búrinu varð skiljanleg.

Karlarnir í kringum hana voru hver með sínu móti. Valur Freyr var Jörgen Tesman lifandi kominn, menntamaður af þeirri tegund sem Ibsen bæði vorkennir og viðurkennir og svo vandræðalega hræddur við konu sína. Stefán Hallur var öflugur Lövborg. Munurinn á stærð þeirra Vals Freys var vel nýttur og senur þeirra Ilmar voru sterkar. Brakk lögmaður verður smám saman fangavörður Heddu og það er ekki síst hann sem ýtir henni út á ystu brún. Mér fannst Eggert búa til alveg nýja manngerð – makalaust hvað hann er mikið kamelljón – en nautnin af valdinu mætti verða sýnilegri undir lokin. Kristbjörg var glæsileg Júlíana Tesman og í samspili þeirra Vals Freys sá maður í sjónhending alla hans ævi, munaðarleysingjans sem var alinn upp hjá tveimur föðursystrum. Ástin milli þeirra var greinileg og ekki furða þótt Hedda þyldi hana illa. Brynhildur túlkar Theu Elvsted af heitri ástríðu og senurnar með þeim Ilmi voru einna áhrifamestar í sýningunni.

Óvæntur senuþjófur var Harpa Arnardóttir í hlutverki Bertu vinnukonu. Vinnukonan hér er miklu yngri en Ibsen hugsaði sér og allt önnur týpa. Hér verður hún einna líkust njósnara, hlerara sem allt sér og heyrir. Kannski var það hún sem sagði Ibsen frá öllu saman? Þessi túlkun á hlutverkinu passaði Hörpu afar vel, hún var ískyggileg, sannkölluð  óheillakráka þar sem hún leið um eins og skuggamynd á bak við, pússaði gler með hægum hreyfingum eða stóð grafkyrr með kökudisk, sjáandi allt og heyrandi. Hedda veit það ekki af því hún er yfirstéttarstúlka sem sér ekki þjónustufólkið en kannski er það Berta sem hún ætti að vera hrædd við.

Barði Jóhannsson býr sýningunni volduga hljóðumgerð sem setur áhorfendur í réttar stellingar fyrir hádramatísk átök strax í upphafi. Hún sýnir að þetta er ekki kammerverk sem við erum í þann mund að upplifa heldur örlagasinfónía.

 

Silja Aðalsteinsdóttir