SaumurÍ annað sinn á skömmum tíma fáum við að sjá ungt par í djúpum vanda á sviði reykvískra atvinnuleikhúsa. Tvíleikurinn Saumur eftir Anthony Neilson sem nú er sýndur á Litla sviði Borgarleikhússins undir stjórn Ríkharðs Hjartar Magnússonar er einkar svipaður verki Mikaels Torfasonar, Harmsögu, sem enn má sjá í Kassa Þjóðleikhússins. Bæði verkin skoða parsambönd sem eru komin í öngstræti og enda með ósköpum en parið hans Neilsons á sér lengri þjáningarfulla sögu og er ansi miklu skemmdara en parið í Harmsögu.

Ég les það á netinu að Saumur hafi hneykslað svo áhorfendur á Edinborgarhátíðinni fyrir fáeinum árum að þeir hafi margir hverjir gengið út. Þeim hafi blöskrað svona orðbragðið í verkinu og ýmis orðaskipti og vísanir í sögulega viðburði, þekkta barnamorðingja, gasklefa, sjúkar kynferðislegar langanir og aðra viðurstyggð. Ekki get ég sagt að orðbragðið í þýðingu leikstjórans hafi snert mig verulega illa. Kannski er það af því að ég hef ekkert tilfinningasamband við orðið „fökk“ sem er nokkurn veginn eina blótsyrðið sem notað er í sýningunni. Sennilega hefði „djöfulsins viðbjóður“ eða „andskotans ógeð“ eða „farðu til helvítis“ komið mun verr við mig. Það er vandasöm list að bölva eins og Mark Twain benti á fyrir löngu. Og hvað varðar vísanir í raunverulegar hörmungar og brjálaða raðmorðingja þá fóru þær líklega flestar framhjá mér – ef þeim var þá ekki beinlínis sleppt í þýðingunni.

En Neilson kann alveg að semja samtöl og þau eru nokkur vel unnin með góðum stíganda í Saumi. Leikritið hefst á einu slíku, umræðum parsins um það hvort þau eigi að láta Lindu (Vala Kristín Eiríksdóttir) ganga með það barn sem komið er í ljós að hún ber undir belti. Á undan samtalinu sjálfu er löng talandi þögn milli þeirra meðan Stebbi (Hjörtur Jóhann Jónsson) veltir vöngum yfir óléttuprófinu sem hann heldur á í hendinni, reynir að segja eitthvað, hættir við, hleypir brúnum, opnar munninn, stynur o.s.frv. Þetta var skemmtileg og vel gerð sena. En eftir hana var lítil hvíld og fáar þagnir en mikil hróp og köll og æst rifrildi og voða mikið „fökk“!

Mér fannst í gærkvöldi að þau Vala Kristín og Hjörtur Jóhann kæmust vel frá hlutverkum sínum, ekki síst Vala Kristín sem er aðeins komin á annað ár í leiklistardeild LHÍ. Sannarlega tilhlökkunarefni að fylgjast með henni í framtíðinni. En eftir lesturinn á netinu um sýningar á verkinu erlendis þykist ég sjá að það hafi verið verulega mildað fyrir íslenska áhorfendur, bæði texti og líkamleg átök milli persónanna. Kannski er það þess vegna sem endirinn verður ekki að þessu sinni eins sjokkerandi og höfundurinn ætlast til. Samt vil ég hvetja leikhúsáhugamenn til að sjá þessa sýningu; bæði er alltaf gaman að fylgjast með því sem Anthony Neilson er að bauka – þó þetta sé ekki hans besta verk – og svo eru leikararnir ungu algerlega einnar kvöldstundar virði.

Silja Aðalsteinsdóttir