PabbastrákarÞað var mikið hlegið í Tjarnarbíó í gærkvöldi á frumsýningu Pabbastráka eftir Hákon Örn Helgason og Helga Grím Hermannsson sem líka leika aðalhlutverkin. Persónurnar voru vissulega býsna hlægilegar en ennþá fyndnari heyrðist mér áhorfendum finnast vísanirnar til tímans þegar leikritið á að gerast – ársins minnisstæða 2007. Nýliðin þátíð er alltaf gott efni í grín – við minnumst hennar með sælukenndum hrolli, skiljum ekki hvernig okkur gat þótt þessi músík góð, þessi tíska falleg eða þessar hugmyndir sniðugar, en við söknum hennar samt. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir er meðhöfundur og dramatúrg, Andrés Þór Þorvarðarson sér um tónlistina og leikur ýmis aukahlutverk af sprúðlandi kæti, Aron Martin Ásgerðarson sér um leikmynd og búninga en Magnús Thorlacius um ljósahönnun.

Í upphafi sögu erum við flogin til sólarlanda og fylgjumst með þeim Ólafi fulltrúa sýslumanns (Hákon Örn) og Hannesi lausamanni (Helgi Grímur) takast á um ferðatöskur sem koma á færibandi úr flugvélinni. Þeir reynast eiga eins töskur og hið óhjákvæmilega gerist: tvær töskur víxlast. Ólafur uppgötvar þetta strax og hann opnar sína tösku og líst ekki á blikuna, en hann veit ekki hvað ferðafélaginn heitir og hvað er þá til ráða? Hannes heldur bara að hann hafi pakkað svona asnalega í töskuna sína og notar fatnað Ólafs og fjölskyldu, alveg kúl! Þegar hann finnur ítarlega ferðaáætlun í plastmöppu í töskunni hendir hann henni auðvitað, nákvæmar áætlanir eru ekkert fyrir hann. En Ólafur saknar sinnar áætlunar sem átti að færa þá feðga, hann og Snorra fimmtán ára, hvorn nær öðrum. Snorri hefur þó greinilega engar áhyggjur af því en slakar á með Silju móður sinni, feginn að vera laus við plön pabba síns.

Hannes og Ólafur hittast svo af tilviljun á ströndinni og Hannes þvælir Ólafi inn í sína einkaáætlun sem auðvitað er mjög laus í reipunum og áður en varir eru þeir orðnir félagar, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Hugmyndin að verkinu er sniðug og textinn skemmtilegur. Alveg sérstakt hrós fær rúsínan í pylsuendanum sem ekki má útlista frekar! En hvorki texti né sýning eru alveg tilbúin. Leit Hannesar að föður sínum þarf að undirbyggja betur og vandræði Ólafs í föðurhlutverkinu yrðu skýrari ef Snorri væri á sviðinu í holdinu. Hákon þarf að leika á loftið þar sem Snorri og Silja ættu að vera og það er ekki auðvelt, þar þyrfti meiri æfingu. Og þó að klaufagangurinn yrði oft fyndinn varð hann of langdreginn, sýningin þarf að þéttast. Þeir geta ýmislegt, þessir tveir pabbastrákar, en þeir þurfa að vinna þessa sýningu betur, hún á það skilið.

 

Silja Aðalsteinsdóttir