Nú þegar Vesturport tekur upp á ný sýningu sína á Hamskiptunum í Þjóðleikhúsinu rifjar tmm.is upp umsögn Silju Aðalsteinsdóttur sem birtist á vefnum 28. september 2007.  Þetta er magnþrungin sýning og fagnaðarefni að hún skuli tekin upp að nýju fyrir þá sem ekki áttu þess kost að sjá hana þá …

HamskiptinÞað rann ekki skýrt upp fyrir mér hvað Hamskiptin eftir Kafka eru djúpur og margræður harmleikur fyrr en á sýningu Vesturports á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi. Ástæða þess er að einhverju leyti sú að ég var unglingur þegar ég las bókina fyrst og fann fyrst og fremst til með foreldrum og systur piltsins Gregors að þurfa að þola þetta kvikindi í húsinu. Ég tók mér sem sagt stöðu með fjölskyldunni þó ég hefði vissulega samúð með Gregor. Minnir mig. En í gærkvöldi rann upp fyrir mér hrikalegt umfang þessa makalausa verks, enda er sýningin afar vönduð hvar sem á hana er litið og stefnir einbeitt að því að ná kjarna verksins upp á sviðið og út í sal.

Það sem fyrst mætir augum okkar er svið Barkar Jónssonar. Millistéttarheimili á fyrri hluta 20. aldar í stóru og smáu. Svolítið dimmt og drungalegt, hátíðlegt heimili með matborðið í hjartastað. Svo koma húsráðendur inn, móðirin vel tilhöfð (Elva Ósk Ólafsdóttir), dóttirin fríðleiks lipurtá (Nína Dögg Filippusdóttir) og faðirinn virðulegur, svolítið strangur á siðunum (Ingvar E. Sigurðsson), má ekki vamm sitt eða sinnar fjölskyldu vita. Þau setjast að morgunverði, þess fullviss að fyrirvinna heimilisins, sonurinn Gregor (Gísli Örn Garðarsson) sé löngu farinn til starfa sinna sem sölumaður hjá stóru fyrirtæki.

En uppi á lofti berst Gregor við rúmfötin og veit ekki hvernig hann á að komast fram úr, af því hann hefur breyst í bjöllu um nóttina. Þegar faðirinn finnur skóna hans á stigapallinum fara þau upp á loft og banka á dyrnar hjá honum, faðirinn strangur og reiður, móðirin skilningsrík og samúðarfull. Eftir talsverða stund tekst bjöllunni að hnika lyklinum til í skránni með kjaftinum, þau þrjú ganga inn – og sjá skrímslið – dýrið – viðbjóðinn sem þaðan í frá verður óbærilegur baggi á þeim.

Saga Kafka er könnun á viðbrögðum fólks við því þegar eitthvað óvænt og óhugnanlegt kemur fyrir einn úr hópnum. Og hann sýnir báðar hliðar, bæði öfgakennd viðbrögð hinna og hyldjúpan sársauka þess sem verður fyrir áfallinu. Í stóra samhenginu er eðlilegt að sjá gyðingaofsóknir í verkinu, og er persóna gestsins, herra Fischers (Ólafur Egill Egilsson), mótuð samkvæmt þeim skilningi í sýningunni. Bókin kom að vísu út 1915, mörgum árum fyrir valdatöku nasista í Þýskalandi, en það hindrar ekki þennan skilning. Það voru ekki nasistar sem fundu upp á að ofsækja gyðinga þótt þeir hafi náð mestri færni í því. Táknræn merking verksins er þó alls ekki einhlít. Menn gera sínum nánustu skömm til með svo margvíslegum hætti – með því að drekka of mikið, verða geðveikir, you name it.

Eiginlega verður manni fyrst fyrir núna að undrast fyrirlitninguna sem vinnunni er sýnd í verkinu. Á okkar tímum er ímynd manna svo bundin við starfið sem þeir gegna, en fyrir einni öld var ennþá fínast að gera ekki neitt (og víst er það svona enn í sumum kreðsum). Samsa fjölskyldan á ekki eignir og þarf að lifa á verkalaunum. Faðirinn fór á hausinn með fyrirtæki sitt og síðan er Gregor fyrirvinna fjölskyldunnar, og fjölskyldan lítur eiginlega á hann sem dýr – vinnudýr – áður en hann breytist í dýr. Það hræðilegasta við hinar breyttu aðstæður, í augum hinna, er að faðirinn og dóttirin neyðast til að fara að vinna! Um þetta mætti skrifa langt mál og merkilegt.

Hamskiptin er leiksýning sem segir öllu fólki eitthvað – um það sjálft, um annað fólk, samfélagið eða heiminn. Ógleymanleg verður hún fyrir allt, umgjörðina, textann (Jón Atli Jónasson þýddi), tónlistina (Nick Cave og Warren Ellis) og leikinn (Gísli Örn og David Farr stýra). Leikararnir fimm unnu verk sitt af nákvæmni og alúð, en ógleymanleg verður sýningin þó fyrst og fremst vegna Gísla Arnar sem leikur Gregor þannig að samúðin verður eins og snæri sem herðist meir og meir að hálsinum.

Silja Aðalsteinsdóttir