„Ég vildi að ég byggi í Kardimommubæ,“ stundi fullorðinn förunautur minn eftir frumsýninguna í Þjóðleikhúsinu í gær. Og hver vildi ekki búa í borg þar sem hvert tækifæri er notað til hátíðahalda, þar sem allir bæjarbúar hjálpast að þegar kviknar í og þar sem þjófum er ekki haldið í fangelsi heldur eru þeir endurhæfðir og síðan gefin virðuleg embætti? Þetta er sannarlega fyrirmyndarsamfélag.

Ágústa Skúladóttir leikstjóri efnir líka til hátíðahalda á stóra sviðinu og var ekkert til sparað. Þátttakendur í hverri sýningu eru um fjörutíu, telst mér til, en margar stöður eru tvímannaðar vegna ungs aldurs leikaranna og því eru mun fleiri nefndir í leikskrá. Högni Sigurþórsson hönnuður leikmyndar, María Th. Ólafsdóttir búningahönnuður og Karl Olgeir Olgeirsson tónlistarstjóri hafa sammælst um að hafa suðrænan blæ á sýningunni – eða kannski öllu heldur suðurríkjablæ með litadýrð, mjúkum formum og léttum djasstakti. Þetta var bæði fagurt og dillandi skemmtilegt.

Í Kardimommubæ ríkir Bastían bæjarfógeti (Örn Árnason) ásamt sinni frú (Ragnheiður Steindórsdóttir) og punktar hjá sér í litla vasabók allt sem bæjarbúar kvarta yfir. Helsta kvörtunarefnið eru óreglulegar ránsferðir ræningjaflokks sem býr utan borgarmarkanna, en Bastían hefur ekki lagt í að uppræta flokkinn af því að gæludýr ræningjanna er ljón (Ernesto Camilo Aldazábal Valdés túlkar það af innlifun) sem allir óttast. Svo snýst hringsviðið og við fáum að líta heim til ræningjanna og þar er nú sjón að sjá! Þeir Kasper (Hallgrímur Ólafsson), Jesper (Sverrir Þór Sverrisson) og Jónatan (Oddur Júlíusson) eru að drukkna í drasli. Þeir finna ekki lengur neitt sem þá vantar og syngja um það frægt kvæði. En þótt þeir nenni að syngja nenna þeir ekki að taka til og í vandræðum sínum ræna þeir ungfrú Soffíu (Ólafía Hrönn Jónsdóttir), rómuðum dugnaðarforki úr borginni. Þvert á það sem ætla mætti unir ungfrúin sér vel meðal þessa rumpulýðs, þarna fær hún loksins útrás fyrir orkuna við að siða ræningjana til. En ræningjunum fellur illa að þurfa að þvo sér og skila Soffíu aftur heim. Tveir sniðugir krakkar, Kamilla (Vala Frostadóttir) og Tommi (Jón Arnór Pétursson) njósna um næstu ránsferð ræningjanna; þeir eru handsamaðir í bakaríinu að næturlagi og Bastían neyðist til að setja þá í steininn. Þaðan er þeim sleppt þegar kviknar í turninum hans Tobíasar gamla (Þórhallur Sigurðsson) og þeir vinna slíka hetjudáð (einkum Kasper) að þeim er launað með föstu starfi og fullum borgaralegum réttindum. Síðan er slegið upp dúndrandi veislu!

Örn Árnason er auðvitað réttur maður í hlutverk Bastíans og Ragnheiður frábær sem hans betri helmingur. Ræningjarnir eru hver öðrum spaugilegri, Kasper í tilraunum til að vera virðulegur sem foringi hópsins, Jesper mjúkur og undirgefinn en svolítið kvartsár og Jónatan sérgóður og tillitslaus og óttalegt flón. Oddur er einstakur sviðslistamaður, fimur og fjölhæfur, og fær að nýta flesta sína hæfileika í þessari sýningu. Ekki þarf að spyrja að Ólafíu Hrönn, hlutverk Soffíu frænku er sem samið sérstaklega fyrir hana.

Marga fleiri þarf að nefna. Bjarni Snæbjörnsson er einkar glæsilegur pylsugerðarmaður,  Gunnar Smári Jóhannesson svolítið ískyggilegur kaupmaður og dýrasali,  Hildur Vala Baldursdóttir nettur sporvagnsstjóri,  Sigríður Eyrún Friðriksdóttir blómlegur bakari og Snæfríður Ingvarsdóttir gríðarlega töffaralegur rakari. Öll sungu þau óaðfinnanlega. Og framhluta úlfaldans dapra var vel borgið hjá Hákoni Jóhannessyni. Hópatriðin voru vel hugsuð með fjörugum dönsum Chantelle Carey, hljómsveitin á sviðinu var kraftmikil og ljósin hans Ólafs Ágústs Stefánssonar brugðu töfrabirtu yfir þetta undursamlega ævintýraland.

Íslendingar hafa lengi elskað leikrit Torbjörns Egner og öll kunnum við lögin hans úr þeim og textana hans Kristjáns frá Djúpalæk. Það var gæfa íslenskra barna að hann skyldi vera fenginn til að þýða þá og ekki er prósaþýðing Huldu Valtýsdóttur síðri. Innilegar hamingjuóskir með dásamlega sýningu.

Silja Aðalsteinsdóttir

 

Kardemommubærinn