Í pistli sínum í leikskrá Gestagangs segir leikstjórinn, Þorgeir Tryggvason, að áhugaleikfélagið Hugleikur hafi verið stofnað til að „borgarbúum byðust loksins sömu tækifæri til listsköpunar og landsbyggðafólkið hafði notið eins lengi og elstu menn mundu“. Í nýju sýningunni má sjá þessa hugsjón í verki því alls taka þar þátt yfir þrjátíu manns, leikarar og hljómlistarmenn. Sjö manna hljómsveit er á sviðinu og þar er fremst í flokki höfundur Gestagangs, leikskáldið og tónskáldið frækna Þórunn Guðmundsdóttir.
Sagan byrjar laust fyrir seinni heimsstyrjöld þegar Reykjavík var svo viðburðafár bær að bæjarlöggurnar tvær, Nói (Hjörvar Pétursson) og Gunnar (Sigurður H. Pálsson) verða að reyna að múta Kötu krimma (Júlía Traustadóttir Kondrup) til að fremja afbrot til að þeir fái eitthvað að gera. Einkum finnst Gunnari að lífið eigi að vera í föstum skorðum og hver og einn þjóðfélagsþegn eigi að standa sig á sínum stað. En svo kemur blessað stríðið og bærinn fyllist af breskum hermönnum og þá veit enginn lengur hvar hans staður er. Einkum eru það stúlkurnar sem villast af leið, bresku dátarnir eru hufflegir við þær og það verður smám saman algert ástand í bænum. Agnar lögreglustjóri (Pétur Húni Björnsson) og Hermann forsætisráðherra (Eyjólfur Kristjánsson) velja Jónu (Erna Björg Hallbera Einarsdóttir) til að hafa eftirlit með stúlkunum. Eins og nafnið bendir til er Jóna kona og Gunnar á ekki orð yfir hneykslun sína á að fela kvenmanni svo ábyrgðarmikið starf.
Gunnar er hækkaður í tign og tekinn í lið eftirgrennslara Agnars en Nói er lækkaður í tign og gerður að fangaverði. Hann er góða löggan á móti vondu löggu Gunnars og svo fer að hann opnar fangelsið fyrir öllum konum sem hafa framið þann svívirðilega glæp að verða óléttar eftir breska hermenn. Það er nefnilega svo í stríði að þá er dyggð að drepa fólk en glæpur að verða barnshafandi ógift. Eða eins og segir í söngnum: „… ef býrð þú til líf ertu brennimerkt, / úthrópuð, fordæmd, frelsi þitt skert, / mannorðið svert.“ Sumir feður þessara barna sýna ábyrgð og giftast mæðrunum, eins og Peter (Axel Pétur Ólafsson) sem elskar Hrefnu sína (María Björt Ármannsdóttir), aðrir láta sem þunginn komi sér ekki við, eins og Larry liðsforingi (Sjafnar Björgvinsson), og þó er stúlkan hans engin önnur en Lóló (Selma Rán Lima), dóttir Björns athafnamanns (Rúnar Lund) sem er svo bráðheppinn að fá kókumboðið þegar Kaninn kemur. En Lóló tekur svikunum djarflega, er nokkur þörf á að eiga pabba?
Við sögu koma ótal persónur í viðbót, mæður, húsmæður, ástandsstúlkur, ráðherrar, hermenn, meira að segja tveir erlendir valdsmenn, dr. Gerlach, ræðismaður Þriðja ríkisins (Magnús Teitsson) og sjálfur Winston Churchill, forsætisráðherra Breta (Hjálmar Theodórsson). Hann kemur bugaður af þunglyndi inn í kvennafansinn í fangelsinu en þær taka svo vel á móti honum og syngja honum svo hressilegan söng að hann fer mun upplitsdjarfari frá þeim.
Sögurnar sem sagðar eru í Gestagangi eru einfaldar og fyrirsjáanlegar og samtölin líka. En söngtextarnir eru fínir og tónlistin frábær. Lögin eru verulega falleg, bæði þau ljóðrænu og þau hressilegu, og útsetningarnar eru listilega gerðar. Inn á milli koma sannkölluð óperuatriði þar sem allt að fjórum lögum fléttast saman á sviðinu þannig að úr verður margradda og margtóna söngur. Það eru engir aukvisar sem standa í faðmlögum og syngja fullum hálsi hvort sitt lagið! Söngtríó þeirra Ninnu Körlu Katrínardóttur, Selmu Rúnar og Maríu Bjartar fannst mér sérstaklega flott og áheyrilegt.
Hópurinn dansar líka og steppar þegar þess er krafist og mér fannst sviðshreyfingarnar skemmtilegar og oft óvæntar. Það voru þær Selma Rán, María Björt og Ninna Karla sem sáu um þær með leikstjóranum. Hér langar mig að nefna sérstaklega Eystein fjármálaráðherra í meðförum Ármanns Bernharðs Ingunnarsonar sem var alger senuþjófur þegar hann beitti sér.
Tungumálavanda leikritsins leysa höfundur og leikstjóri á eðlilegasta hátt: hver persóna talar einfaldlega sitt tungumál. Umræðuefni hermannanna og stúlknanna eru nú hvorki djúp né flókin þannig að enginn þarf að velkjast lengi í vafa um hvað sagt er. Og ég dáðist að leikurunum fyrir ágætan framburð á enskunni.
Gestagangur er fersk og fjörug skemmtun og leitt að í dag skuli verða síðustu sýningarnar. Hugleik skal óskað innilega til hamingju með 35 ára afmælið og þess beðið af einlægni að hann megi lifa sem allra lengst.