Fyrsta skiptiðGaflaraleikhúsið í Hafnarfirði frumsýndi í gær fimmta verkið (telst mér til) sem sérstaklega er unnið af og ætlað áhorfendum á unglingsaldri en höfðar þó til eldri aldurshópa – vegna þess að öll höfum við verið unglingar. Fyrsta skiptið heitir stykkið og fjallar eins og nafnið bendir til um ýmis „fyrstu skipti“ í lífi fólks og samskiptum kynjanna sérstaklega. Ég gæti trúað að efni og efnistök muni róta rækilega upp í minningum þeirra sem á horfa.

Björk Jakobsdóttir leikstjóri henti hugmyndinni að verkinu inn í fimm manna hóp ungmenna sem skrifuðu senur upp úr samtölum sín á milli og spuna sem Björk vann síðan handrit úr um leið og hún leikstýrði sýningunni og hannaði leikmynd og búninga. Leikararnir ganga undir eigin nöfnum í sýningunni en eru auðvitað ekki alltaf að leika sjálf sig eða túlka eigin reynslu þó að sennilega sé hún oft býsna nálægt þeim á sviðinu. Höfundar og leikarar eru Arnór Björnsson, Berglind Alda Ástþórsdóttir, Inga Steinunn Henningsdóttir, Mikael Emil Kaaber og Óli Gunnar Gunnarsson. Arnór og Óli Gunnar eru gamalreyndir á þessu sviði, þeir voru upphaflegu Unglingarnir í samnefndri sýningu 2013 og í Stefán rís þrem árum seinna.en hin þrjú gefa þeim ekkert eftir.

Þau byrja á fyrsta kossinum og leika sér að því að sýna þær óravíddir sem eru milli þráðrar reynslu og raunverulegrar. Bráðfyndin var túlkun „Íslenska dansflokksins“ á fyrsta sleiknum! Fyrsta skipti á túr varð drephlægilegt þegar strákarnir lifðu sig inn í vandamálið. En það var í kaflanum „fyrsta skipti hrifin“ sem krakkarnir fóru á flug. Óli Gunnar brást til dæmis á klassískan hátt við þessum óvæntu tilfinningum, fékk störu og missti hökuna niður á bringu, Mikael fékk óviðráðanleg flog og sýndi hvað hann er fáránlega liðugur, en Berglind sökk ofan í dagdrauma sem hún gat ekki stöðvað fyrr en þeir voru komnir út í algerar öfgar! Fyrsta stefnumótið var skemmtilega sviðsett með Óla og Ingu í bíó í ægilegum samskiptavandræðum en Berglind og Arnór stóðu á bak við þau og opinberuðu hugsanir þeirra. Arnór fékk að sýna viðbrögðin við fyrstu klámreynslunni, salnum til tryllingslegrar skemmtunar. Inga afmeyjaði Berglindi með gríðarlegum blóðmissi og undir skellihlátri!

Fyrsta kynlífsreynslan var líklega það sem áhorfendur biðu eftir og höfundarnir ungu fóru með það efni af alúð og virðingu en gleymdu þó ekki húmornum. Þetta er, svo merkilegt sem það kann að sýnast, efnisatriði sem allt fólk getur sameinast um því allir muna – eða vita – hvenær þeir áttu þessa reynslu. En um leið er yfirleitt þagað um hana. Munið þið eftir æviminningum þar sem hún er dregin fram?

Séu unglingar saman eru meiri líkur en minni á því að þeir slíti sambandinu og eitt slíkt sýnishorn var meðal bestu atriðanna í sýningunni. Þau röppuðu sig í gegnum sambandsslitin Berglind og Óli svo unun var að heyra. Tónlistin í sýningunni var að hluta frumsamin af Halli Ingólfssyni, Mikael og Óla Gunnari en rapplagið var eftir Mikael og Teit Snæ Tryggvason við texta Óla Gunnars og Berglindar. Tónlistarhönnuður sýningarinnar var Hallur Ingólfsson.

Ekki þarf að fjölyrða um hvað þau kunna, þessir krakkar, hvað þau syngja vel, dansa og hreyfa sig fallega, hvað þau eru öguð og vel samhæfð. En ekki er síður mikils virði hvað þau sýna efni sínu mikla virðingu og hvað þau eru einlæg í viðleitni sinni til að ráðleggja unglingum um hvernig maður á að haga sér í skiptum við hitt kynið. Það getur enginn séð fyrir hvar eða hvenær „fyrsta skiptið“ verður en við getum haft talsverð áhrif á hvernig það verður og hvort bærilegt verður að rifja það upp. Beinlínis dásamleg leiksýning. Takk.

-Silja Aðalsteinsdóttir