UnglingurinnÞeir eru snillingar, unglingsdrengirnir tveir sem sýna nú sína eigin ritsmíð, leikverkið Unglinginn, í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Arnór Björnsson er 15 ára og Óli Gunnar Gunnarsson 14 svo þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að tala um þegar þeir lýsa lífi unglingsins bæði þversum og langsum. Svo er það móðir annars unglingsins, leikkonan Björk Jakobsdóttir, sem stýrir þeim og félagar þeirra pínulítið eldri, Sindri Þór Hannesson og Svanur Logi Guðmundsson, sjá um lýsingu og hljóð. Þetta er þvottekta unglingasýning.

Að sjálfsögðu byrja þeir á því að útlista hvað það er ÖMURLEGT að þurfa að vakna á morgnana. Þeir fá ALDREI að sofa út og munu aldrei fá að sofa út fyrr en í gröfinni! Það eru ekki álitlegar framtíðarhorfur. Svo er það skólinn. Þvílíkt ömurlegur staður, maður. Og ekki nóg með að þurfa að sitja þar í MARGA KLUKKUTÍMA á dag og taka jafnvel óvænt skyndipróf í DÖNSKU heldur þarf maður að halda áfram að læra þegar maður kemur heim. Heimanám! Ömurlegt.

Eftir hlé settu þeir sig í uppfræðslugírinn til að sinna betur öllum fullorðnu áhorfendunum. Hvað þýðir það að hafa allt í einu ungling á heimili í staðinn fyrir barn? Það þýðir breytingar – og leikin voru stutt atriði til að sýna í hnotskurn muninn á „krakka“ og „unglingi“ á heimili. Það þýðir aukin útgjöld – unglingar eru dýrari en krakkar. Það þýðir nýtt tungumál á heimilinu því unglingar geta ekki talað þetta „tvíbíska“ hversdagslega mál sem við tölum hin. OG það þýðir að það verður offramboð af hormónum á heimilinu. Þar fóru þeir félagar á kostum en upplýstu um leið alveg þokkalega vel í hvað kynþroski þýðir í lífi stráka og í lífi stelpna og uppskáru mikinn hlátur í salnum, ekki síst hjá stelpunum.

Raunar var maður tvöfaldur af hlátri mestallan tímann – og þetta er nærri tveggja tíma sýning. Arnór og Óli skrifa fínan texta og þeir fóru skínandi vel með hann, hvort sem þeir töluðu „venjulega“ íslensku eða unglinga„íslensku“. Auðvitað eru þeir að vinna með kunnuglegar staðalmyndir, bæði af unglingum og foreldrum, en þeir fara afar vel með þessar myndir og hafa náð fullkomnu valdi á texta sínum. Arnór er makalaus trúður í leik, bæði svipbrigði og hreyfingar. Stundum var eins og liðamótum hans væru engin takmörk sett, svo fáránlega liðugur er hann. Óli Gunnar er ívið alvarlegri og sýndi meiri dýpt í leik. Þannig verða þeir hið fullkomna par og er óskandi að sem allra flestir unglingar og foreldrar, afar og ömmur, sjái þessa sýningu.

Og stelpur! Næst kemur að ykkur!

Silja Aðalsteinsdóttir