Ég var svo heppin að ná að sjá útskriftarsýningar tveggja nemenda á sviðshöfundabraut LHÍ núna kringum páskana; bæði lofa góðu um framtíðina.

Það fyrra var Mergur eftir Katrínu Lóu Hafsteinsdóttur, tónverk frekar en leikverk þó að vissulega byggi hver þátttakandi til sína persónu eftir föngum. Þeir fengu dálítinn tíma til að móta persónu sína því að kórfélagar tíndust smám saman inn á sviðið og leið oft talsverð stund milli manna. Hver nýr félagi þurfti að velja sér stað á pöllunum, sem voru klæddir bláu flaueli og skemmtilega gamaldags, heilsa og sýna viðbrögð við þeim sem fyrir voru. Allt var það án heyranlegra orða en hreyfingar og fas sögðu meira en mörg orð og voru oft verulega fyndin. Það var Juulius Vaiksoo sem sá um sviðshreyfingar. Allan þennan tíma stóð svartklædd vera eins og stytta fyrir framan pallana en reyndist svo vera kórstjórinn sem tók til við að stjórna þegar kórinn var fullskipaður.

Það kom á óvart hvað verkið var vel samið og fallegt sem tónverk og sungið fjórraddað af þessum prýðilegu söngkröftum var það alveg heillandi – eða hefði verið heillandi ef ekki hefði verið fyrir textann sem gerði sitt besta til að koma áhorfendum óþægilega á óvart! Hann fjallaði sem sé um starfsemi líkamans á hinn nærgöngulasta máta – alla hans vessa, hvernig þeir haga sér, hvað verður um þá og hvernig við bregðumst við þeim. Þetta varð alveg sprenghlægilegt þegar það var flutt á þennan hátíðlega og glæsilega hátt. Þarna var leikið á andstæður af hnitmiðaðri smekkvísi og list.

Sól Ey er eftir Egil Andrason og Melkorku Gunborgu Briansdóttur sem einbeita sér að hryllingi eins og vænta má á okkar stríðstímum. Það var Egill sem var að útskrifast. Sóley (Berglind Alda Ástþórsdóttir) er starfsmaður í boltalandi (í verslunarmiðstöð?) og gætir þar fjögurra barna á aldrinum fjögurra til ellefu ára (Ágúst Örn Börgesson Wigum, Jakob van Oosterhout, Katla Þórudóttir Njálsdóttir, Mikael Emil Kaaber). Sjálf er Sóley barnshafandi. Skyndilega ríða yfir miklar en óljósar hamfarir, þó að líkindum af mannavöldum, og þau lokast inni í þessu þrönga, fremur óyndislega umhverfi. Eins og vitað er hefur það afar slæm áhrif á fólk að lokast inni, hvað þá þegar það er matarlaust, og höfundar leyfa aðstæðum að þróast um óákveðinn tíma.

Þetta er hádramatískt efni en höfundar gæta þess lengi vel að keyra ekki stöðugt á hryllingnum heldur fá börnin að vera börn og leika sér inn á milli. Eftir að ákveðin hvörf verða í verkinu er þó enginn lengur í stuði til að leika sér og alvaran – hryllingurinn – tekur yfir.

Hér skiptu ljós miklu máli, bæði birtustig og litur á ljósum, en um lýsingu sáu Egill leikstjóri og Sölvi Viggósson Dýrfjörð sem einnig var dramatúrg. Andrúmsloftið varð smám saman býsna rafmagnað enda skorti ekkert á innlifun hinna ungu leikara í hlutverkin. Mikið var lagt á aðalleikarann, Berglindi Öldu, en hún reis vel undir því. Krakkarnir voru ekta krakkalegir, ekki síst Mikael Emil sem lék fjögurra ára ofvitann Hannes af mikilli fimi. Búningar barnanna minntu skemmtilega á Stubbana (Teletubbies) og rímuðu vel við boltana sem þöktu sviðið. Verkið var heldur langt og hefði þurft að þétta en textinn var skemmtilegur og efnið vel hugsað.

Ekki er ósennilegt að bæði þessi verk eignist framhaldlíf á öðrum leiksviðum – til dæmis gætu hressir kórar tekið Merg á sína dagskrá! Alla vega er enn tækifæri til að sjá bæði þessi verk og eflaust önnur útskriftarverk líka og ég mæli eindregið með því. Það er spennandi að sjá hvað nýliðarnir eru að pæla.

 

Silja Aðalsteinsdóttir