Hugleikur frumsýndi í gærkvöldi í húsnæði sínu að Eyjarslóð 9 leikritið Sá glataði eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, sprellfjöruga útfærslu á nokkrum dæmisögum Jesú undir stjórn Ágústu Skúladóttur. Mikil músík er í verkinu, samin og leikin af Elísabetu Indru Ragnarsdóttur á fiðlu og sungin af leikhópnum við texta eftir Þorgeir Tryggvason og undir tónlistarstjórn hans. Tónlistin er aðal verksins ásamt sviðsetningunni sem var hugmyndarík og oft verulega falleg, til dæmis verður upphafsatriðið með Feneyjagrímunum minnisstætt. Fjölbreytta búninga hannaði Kristína R. Bermann en stór hópur fólks bar ábyrgð á leiksviði og leikmunum.

Sá glataðiUppistaðan í verkinu er skondið sambland af sögunum um týnda soninn og týnda sauðinn. Lúkas (Rúnar Kristinn Rúnarsson), sonur Abrahams (Rúnar Lund) og bróðir Mattheusar (Óskar Þór Hauksson), týnir ánni Babýlon (Gríma Kristjánsdóttir), fær greiddan föðurarf sinn, skilur hjörðina eftir og leggur af stað í langferð til að leita ærinnar. Hann fer um langa vegu og lendir í alls kyns ævintýrum, eyðir öllum farareyri sínum í óhófsaman lifnað en fær hjálp í nauðum frá örlagavaldinum (Hulda B. Hákonardóttir), ræður sig í vinnu hjá ríkum manni (Hörður Skúli Daníelsson) og vinnur langan vinnudag fyrir sama kaup og þeir sem byrjuðu ekki fyrr en löngu eftir hádegi, bjargar Babýlonshórunni (Gríma líka) frá illum örlögum og unir sæll með henni, meðal annars músísera þau saman í brúðkaupi sem gestirnir mæta ekki í. Svo missir hann konuna í árás illvirkja á leið heim aftur til pabba en miskunnsami samverjinn (Guðrún Eysteinsdóttir) kemur honum til hjálpar. Og þegar hann kemur loksins aftur heim finnur hann að sjálfsögðu það sem hann hafði leitað að um langa hríð. Hann hafði vissulega leitað langt yfir skammt en grætt heilmikla reynslu í leiðinni. Á sömu stundu er föður hans launað fyrir lofsverða þolinmæði sína við fíkjutréð sem ekki vildi bera ávöxt.

Eins og sjá má er hér blandað saman ýmsum sögum – eins og höfundurinn hafi athugað hvað sæti eftir úr barnalærdómnum, hrært því í einn graut og kryddað með brotum til dæmis úr ljóðaljóðunum og mergjuðu orðalagi eins og „grátur og gnístran tanna“, það stef varð æ fyndnara eftir því sem á leið. Efnið reynist einkum vera úr Lúkasarguðspjalli og Mattheusarguðspjalli eins og nafngiftir bræðranna gefa til kynna.

Þessi sýning skemmtir vel, engin spurning um það. Ef hún gerir eitthvað umfram það, ef hún kennir okkur eitthvað, er það hvað gömlu bíblíusögurnar eru dýrmætar. Það er óskandi að íslensk börn fái að njóta þeirra áfram þótt auðvitað eigi múslimar líka að fá að byggja mosku.

 

Silja Aðalsteinsdóttir