VaktÞað skemmtilega við ArtFart er náttúrlega það óvænta. Til dæmis var erfitt að vita hver nákvæmlega var að leika og hvenær á Fjöltengigjörningnum á BSÍ í gær. Og einmitt það atriði sem allir voru vissir um að væri partur af leiknum – þegar beri maðurinn með græna bindið kom og keypti sér gos – það var alls ekki partur af leiknum heldur steggjapartý sem villtist inn í sýninguna! Svo fer maður daginn eftir á Norðurpólinn og sér algerlega klassískt verk um klassíska tilvistarspurningu sett upp á býsna venjulega óvenjulegan hátt.

Tvíleikurinn Vakt eftir Halldór Armand Ásgeirsson hefur fengið langmesta athygli sýninganna á ArtFart-hátíðinni til þessa, og ég giska á að það sé ekki síst af því að annað hlutverkið leikur Hera Hilmarsdóttir sem vakti mikla athygli þegar hún lék sárung stórt hlutverk í kvikmynd Guðnýjar Halldórsdóttur Veðramótum fyrir fáeinum árum. Það er líka alveg þess virði að fara út á Nes og sjá þau Heru og Einar Aðalsteinsson í þessu stykki.

Vakt

Vakt / Hera Hilmarsdóttir og Einar Aðalsteinsson

Unglæknarnir Arna (Hera Hilmarsdóttir) og Baldur (Einar Aðalsteinsson) eru á vakt á gjörgæslu þegar þau fá inn til sín ungan mann sem hefur keyrt eins og vitleysingur, velt bílnum á Miklubrautinni og stórslasast. Hann er kominn úr aðgerð og ekki annað fyrir læknana að gera en fylgjast með líðan hans. Manni finnst svo sem ekki trúlegt að tveir læknar fái að slæpast lengi yfir manni sem ekkert er hægt að gera fyrir, en gott og vel, þetta er leikrit, ekki raunveruleiki. Meðan þau þreyja vaktina spjalla þau um daginn og veginn, sumarleyfið, hlýnun jarðar og hvort segir meira um kaffið, bragðið eða ilmurinn, og textinn opinberar smám saman hvers konar manneskjur þau eru þessi tvö. Arna virðist vera betur sett efnalega en hins vegar er fjölskylda hennar illa merkt af því að bróðir hennar er ósjálfbjarga í hjólastól og það gerir hana ábyrga, gætna og áhugasama um samfélagsmál. Baldur er kærulausari á yfirborðinu, kjaftfor strákur sem hefur gaman af að stríða Örnu. En þau eiga bæði eftir að sýna okkur annan mann þegar þau mæta alvarlegu siðferðilegu vandamáli á vaktinni sinni.

Verkið er samið af metnaði og uppsetningin er skemmtilega hugsuð. Hera og Einar koma bæði vel fyrir á sviði, fallegt ungt fólk sem á auðvelt með að leika eðlilega þótt áhorfendur raði sér nánast allan hringinn í kringum þau. En þegar fer að reyna verulega á þau fannst mér nálægðin trufla þau, einkum Heru, hún virtist bældari í leik en Einar. Hún hefði kannski átt auðveldara með að sleppa fram af sér beislinu ef fjarlægðin frá áhorfendum hefði verið meiri. En það breytti því ekki að áhorfendur voru svo spenntir að það var eins og þeir héldu niðri í sér andanum síðustu mínúturnar á vaktinni.

Það verður aðeins ein sýning í viðbót á verkinu og hún er klukkan 20 annaðkvöld, mánudagskvöld. Það er full ástæða til að hvetja leikhúsáhugamenn til að taka vaktina með unglæknunum.

Silja Aðalsteinsdóttir