Bjarni Harðarson frumsýndi sína Njálu á Söguloftinu í Landnámssetrinu Borgarnesi í gærkvöldi. Það var – mörgum að óvörum – mikil skemmtun, raunar má segja að frumsýningargestir hafi hlegið linnulítið allan tímann. Er Njála þá svona fyndin? spyrjið þið kannski. Nei, hún er sama harmsagan og hún hefur alltaf verið, málið er að Bjarni var að skapa nýja Njálu og á sinn einstaka hátt.

Hann byrjaði á að lengja hana aftur í tímann með frásögnum úr Landnámabók af forfeðrum Gunnars Hámundarsonar á Hlíðarenda. Það var mjög fróðlegt að fá þessa forsögu sem ég hafði alls ekki á hreinu. En fyrst og fremst sagði Bjarni hana til að undirbyggja Írafárið, eins og Björn Þorsteinsson sagnfræðingur kallaði kenninguna um írskan uppruna Íslendinga. Hún er kjarninn í kenningum Bjarna um söguna. Hann benti sem sé á að Gunnar, staðalmynd hinnar norrænu hetju, er af keltneskum ættum og það er rótin að allri ógæfu hans. Því það var ekki fínt á Njálutíma og lengi síðan að vera af blönduðu blóði. Íslendingar hafa alltaf verið rasistar, að dómi Bjarna, og Ísland hefur alltaf verið harkalega stéttskipt þjóðfélag þótt því sé leynt með því að fela lágstéttina. Þó að Njála sé vissulega góð bók, jafnvel bók bóka, þá er hún einfölduð og fegruð mynd af íslensku samfélagi á sögutímanum (og þá í og með ritunartíma); hún er lygi, á góðri íslensku. Sjálfsmynd okkar sem þjóðar, byggð ekki síst á Njálu, er sem sé byggð á lygi.

Svo endursagði Bjarni söguna út frá þessum kjarna og hún stækkaði umtalsvert og breyttist fyrir augum okkar; fólkinu í sveitunum fjölgaði um þá sem ekki er sagt frá þar, alla Keltana sem eru ósýnilegir í sögunni en dreifðu sér um láglendið á Suðurlandi. Uppsveitirnar voru norrænar. Þar bjó elítan.

Þetta var, eins og ég nefndi, ótrúlega skemmtilegt áheyrnar. Bjarni segir vel frá og er óhemju sannfærandi þó að hann hafi ekki svo mikið sem skugga af sönnunum fyrir þessari fjölmennu keltnesku byggð sem hann dregur upp. Skemmtilegar voru líka tengingar hans við samtímann og hvernig hann blandaði mál sitt frösum úr samtímamáli, sló saman fornum persónum og nýjum á stórskemmtilegan hátt. Hann benti á að Njála væri elítubókmenntir og elítan segir söguna alltaf eins og hún vill hafa hana en ekki eins og hún var í raun og veru. Eiginlega, sagði Bjarni, er Njála frumgerð Morgunblaðsins sem þegir alltaf yfir því sem skiptir máli en túlkar söguna upp á nýtt sér í hag. Bjarni nefndi sérstaklega „hið svokallaðan hrun“ Morgunblaðsritstjórans! Eins hefði Njáluhöfundur þagað yfir Keltunum og yfir því hvernig Gunnari Hámundarsyni á Hlíðarenda hefndist fyrir að vera Íri sem streittist við að verða einn af elítunni.

Þetta var frekar fyrirlestur en sagnaskemmtun á borð við þær sem við höfum notið á Söguloftinu undanfarin ár og í rauninni ættu að vera umræður á eftir svona ögrandi og óvæntum fyrirlestri. En það er líka gaman að fara bara heim í myrkrinu og sjá fyrir sér byggðina í landinu frá alveg nýjum sjónarhóli.

-Silja Aðalsteinsdóttir