Þrjú leikskáld frumsýndu nýja einþáttunga á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi við háværa ánægju gesta sem troðfylltu salinn. Yfirfyrirsögnin var Núna sem vísar bæði til þess að verkin eru flunkuný og eiga að segja okkur eitthvað um tímann sem við lifum núna. Salka Guðmundsdóttir átti Svona er það þá að vera þögnin í hópnum, Kristín Eiríksdóttir Skríddu og Tyrfingur Tyrfingsson Skúrinn á sléttunni. Kristín Eysteinsdóttir stýrði öllum þáttunum, dró vel fram sérkenni hvers þeirra en náði þó skemmtilegum heildarblæ á sýninguna.

Núna 2013Snjöll leikmynd Helgu I. Stefánsdóttur stuðlaði vel að heildarblænum. Á sviðinu voru nokkrar háar en nettar álgrindur (einkennilega fallegar) sem hægt var að raða á ýmsa vegu. Í fyrsta verkinu mynduðu þær fyrst eins konar ganga þvers og kruss sem persónur örkuðu um eins og fólk á hraðferð um borgarstræti meðan þær skiptust á orðum. En þegar leið á verkið var grindunum safnað saman utan um eina persónu þannig að þær urðu eins og fangelsisrimlar. Í seinni verkunum voru þær veggir ólíkra híbýla. Búningar Helgu voru líka afar vel hugsaðir og viðeigandi þó að þeir væru óþarflega margir í lokaverkinu – en það hefur væntanlega ekki verið hennar ákvörðun.

Í þætti Sölku erum við stödd í netheimum þar sem raddir tveggja karla (Þröstur Leó Gunnarsson og Valur Freyr Einarsson) og tveggja kvenna (Lára Jóhanna Jónsdóttir og Hanna María Karlsdóttir) keppast við að uppfæra statusa sína á Facebook og kommentera á þá. Þetta fékk geysigóðan hljómgrunn í salnum enda var það ótrúlega fyndið. Ekki dró úr fyndninni að leikararnir tæmdu blöðrur smám saman upp í sig og urðu skrækróma eins og Andrés önd. En hláturinn hljóðnar þegar einn statusinn sker sig úr hinum, Hulda 22 ára (Lára Jóhanna) fer beinlínis að verða eitthvað skrítin. Það er að sjálfsögðu ekki leyfilegt og um að gera að þjarma að kvenmanninum til að athuga hvernig hún bregðist við. Ekki síst í ljósi umræðunnar þessa dagana um gamalt nauðgunarmál á Húsavík varð þessi þáttur verulega sterkur og óhugnanlegur og Lára Jóhanna fór afar vel með sitt erfiða hlutverk.

Í Skríddu erum við inni í íbúð Viktors (Valur Freyr) sem er nýlega farinn að búa með Söru (Unnur Ösp Stefánsdóttir) en hún allavega er ekki viss um að sambandið gangi upp hjá þeim. Þetta virðist ætla að verða einföld saga um sambúðarerfiðleika ungs fólks en það reynist mun feitara á stykkinu. Á þessum mínútum sem þátturinn tók var ýjað að mörgum sögum, bæði um persónurnar sjálfar og annað fólk í kringum þær, einkum Bláskeggstýpuna á neðri hæðinni. Þau Valur og Unnur Ösp léku hlutverk sín af stakri prýði, hraðinn var gersamlega heillandi – sjálfsagt hefði sýningin getað verið helmingi lengri ef þau hefðu skipst á um að tala en ekki talað hvort ofan í annað! Eftir á að hyggja fannst mér kvöldið ná hámarki í þessum þætti í leik og leikstjórn.

Verk Sölku og Kristínar eru bæði ekta einþáttungar að byggingu en lokaþátturinn var öðruvísi. Annaðhvort gat Skúrinn á sléttunni verið útdráttur úr löngu leikriti eða fyrsti þáttur í lengra verki. Það breytir þó ekki því að þetta var morðfyndið verk með sannkölluðu dívuhlutverki fyrir Hönnu Maríu sem lék af mikilli nautn Höllu (eða Holly – með nettri vísun í Breakfast at Tiffany’s), íslenska konu sem býr í skúr í Ameríku og gerir sitt besta til að lifa af.  Hjá sér hefur hún Hróðnýju (Unnur Ösp) sem dreymir um frægð og frama sem söngkona en vinnur fyrir leigunni hjá Höllu með öðrum hætti. Til þeirra stallsystra kemur sonur Höllu, Gunnar, sem ætlar að verða Gunna (Sigurður Þór Óskarsson), ásamt elskhuga sínum, Haraldi (Þröstur Leó) og trufla tilveru þeirra um skeið. Textinn sem persónurnar, einkum Halla, fengu upp í sig var ískyggileg en litrík blanda af íslensku og ensku svo manni varð hugsað til Káins skálds.

Salka, Kristín og Tyrfingur hafa samið og sýnt ýmislegt fyrr svo að verkin komu ekki alveg á óvart en ég hygg að ekki hafi verið vafi í huga leikhússgesta í gærkvöldi að þarna ættum við þrjú efnileg ný leikskáld.

Silja Aðalsteinsdóttir