SegulsviðVið sáum loksins Segulsvið Sigurðar Pálssonar í gærkvöldi í Kassa Þjóðleikhússins, undrafagra sýningu þar sem hvað styður annað: margslungið leiksvið Gretars Reynissonar, táknvísir búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur, snjöll lýsing og ævintýraleg myndbandshönnun Halldórs Arnar Óskarssonar og Magnúsar Arnars Sigurðarsonar og skemmtileg hljóðmynd Úlfs Eldjárn og Kristjáns Sigmundar Einarssonar. Öllu haldið saman af óbrigðulum smekk leikstjórans, Kristínar Jóhannesdóttur.

Ég var með svolítinn hita og held að það hafi bara hjálpað mér að ná sambandi við verkið. Við erum stödd í heimi og hugarheimi Unnar (Elma Stefanía Ágústsdóttir), ungrar konu sem hefur misst meira á stuttum tíma en réttlátt er að manneskja missi, bæði eiginmann sinn og kæran vin (Snorri Engilbertsson) sem huggaði hana í sorginni. Hún er á hæli, í þunglyndis- og sorgarmeðferð, líklega á sterkum lyfjum því hún gerir ekki alltaf greinarmun á veruleika og órum. Gæslumenn hennar á hælinu, þau Systa (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) og Gísli (Eggert Þorleifsson), eru strangir við hana á daginn en þegar Unnur sleppur út á næturnar birtast þau henni í öðru gervi, mun alúðlegri og léttari í lundu. En aðalvinkonur hennar á næturnar eru Nóttin sjálf (Lilja Nótt Þórarinsdóttir) og Rigningin (Svandís Dóra Einarsdóttir) og gera báðar sitt til að hugga hana þó að sjálfar séu þær ekki alltaf glaðar. Einkum kvartar Rigningin hástöfum og grætur yfir hlutskipti sínu.

Texti Sigurðar er nákvæmur en þó ljóðrænn og fer vel í munni og eyra; stundum myndar textinn raunar sjálfstæð ljóð sem gaman væri að fá að lesa. Hann er mettaður djúpri sorg sem leikararnir komu til skila á áhrifamikinn hátt, ekki síst Elma Stefanía. Sem betur fór fengu þó Eggert og Ólafía Hrönn að létta andrúmsloftið hvað eftir annað. Og í lokin er hin svartbrýnda Haustnótt orðin ljós Júnínótt og Rigningin kát stelpa og þá vitum við að Unnur hefur komist yfir það versta. Önnur sjálf hennar eru tilbúin að faðma brotna kjarnann að sér og búa til eina heila manneskju.

Heildarsvipur þessarar sýningar er óvenjulega sterkur en eitt atriði í verkinu gæti dvalið jafnvel lengur í minningunni. Lilja Nótt fær að syngja við lag eftir Úlf Eldjárn eitt af mínum eftirlætisljóðum eftir Sigurð, „Nóttin er til þess að gráta í“ úr fyrstu bók hans, Ljóð vega salt. Er Segulsvið kannski, þegar allt kemur til alls, tilraun til að setja það ljóð á svið?

Silja Aðalsteinsdóttir