DúkkuheimiliDúkkuheimili Hörpu Arnardóttur á stóra sviði Borgarleikhússins er án nokkurs vafa ein skemmtilegasta uppsetning á leikriti Ibsens sem ég hef séð. Ég hef séð róttækari uppsetningu (Thomas Ostermeier á Schaubühne í Berlín sem líka var látin gerast í samtíma okkar) og klassískari uppsetningu (Ingmar Bergman í Konunglega í Köben) en Anne Tismer og Pernilla August voru ekki líkt því eins mikil beib og Unnur Ösp Stefánsdóttir í hlutverki Nóru … og ég er ekki frá því að hún hafi snortið mig dýpra en þær í umkomuleysi sínu undir lokin, í baráttunni við skelfinguna sem heltekur hana þegar hún áttar sig á því að hún veit ekkert hver hún er og þaðan af síður hvar hún stendur.

Nóra hefur verið gift Þorvaldi Helmer lögfræðingi (Hilmir Snær Guðnason) í átta ár og eignast með honum þrjú börn (Andrea Magnúsdóttir, Vera Stefánsdóttir (ekki Jónsdóttir eins og stendur í leikskrá), Alexander Kaaber Bendtsen á frumsýningu). Hann hefur haft óreglulegar tekjur sem strangheiðarlegur málafærslumaður en á jólunum, þegar leikurinn gerist, hefur hann verið skipaður bankastjóri, hann á að taka við starfinu eftir áramót og framundan sjá þau fyrir sér líf í lúxús. Miklum lúxús. Á yfirborðinu ríkir glitrandi heimilishamingja en það eru aðrir undirstraumar. Húsmóðirin unga er greinilega yfirspennt og það eru ekki bara jólin. Hún nagar konfektmola eins og lítil mús þegar Þorvaldur sér ekki til – og neitar sök þegar hann ber upp á hana sælgætisát. Og þegar hann spyr hvað hún vilji í jólagjöf vill hún bara peninga. Þegar Nóra fær gamla vinkonu í heimsókn, Kristínu Linde (Arndís Hrönn Egilsdóttir), getur hún ekki á sér setið að koma upp um leyndarmálið sitt stóra sem enginn í heiminum veit nema hún og lánardrottinn hennar, Níels Krogstad (Þorsteinn Bachmann). Nóra fékk nefnilega stórt peningalán hjá Krogstad nokkrum árum áður til að fara með Þorvald veikan í langa lífsnauðsynlega dvöl til Ítalíu og á í basli með að borga af því.

En þetta er ekki allt og sumt, eins og við fáum að vita þegar Krogstad sjálfur kemur í heimsókn. Þegar Þorvaldur ætlar að segja honum upp í bankanum og ráða Kristínu í staðinn hótar hann Nóru að koma upp um óþægilega staðreynd ef hún fær mann sinn ekki til að hætta við uppsögnina. Það tekst henni ekki og því fer sem fer.

Ég er ekki mikil fjármálamanneskja en texti leikritsins í nýrri þýðingu Hrafnhildar Hagalín Guðmundsdóttur hljómaði ekki ólíkt því sem þessar transaksjónir gætu vel átt sér stað á okkar dögum. Og afbrot Nóru er saknæmt á öllum tímum. Samskipti á netinu urðu jafnvel ennþá eðlilegri en póstsendingar upprunalega textans. Við viljum eflaust að niðurlægjandi framkoma Þorvalds við Nóru, bæði fyrir uppgjörið, í því miðju og eftir það, sé úrelt og gæti ekki átt sér stað á okkar dögum, en því miður varð hún óþægilega sannfærandi í stórkostlegum leik þeirra Hilmis Snæs og Unnar Aspar.

Harpa leggur mikla áherslu á að sýna okkur heimilislífið eins og það hefur verið í dúkkuhúsinu. Börnin fá mun meira hlutverk en ég hef áður séð, þau eru sínálæg, Nóra leikur við þau eins og barn, hoppar, hleypur og dansar við þau og stelpurnar tvær flytja skemmtilegt söngatriði fyrir mömmu sína. Ekki varð sviðið til trafala í þessum fjöruga leik. Ilmur Stefánsdóttir notar gervallt stóra sviðið (eða ég sá ekki betur) sem einn geim, undradjúpan, og hylur gólfið með rauðbrúnu gúmmíkurli sem kom að ýmsum óvæntum notum. Þessi bjarta heimilissæla gerir framvindu verksins ennþá nöturlegri og harmrænni.

Dúkkuheimili

Unnur Ösp og Hilmir Snær fá að sýna allan skala mannlegra tilfinninga í hlutverkum Nóru og Þorvalds og skila þeim eiginlega fullkomlega. En þau fá líka góðan styrk frá meðleikurum sínum. Þorsteinn er rustalegur Krogstad en tekur skemmtilegum breytingum þegar þau Kristín hafa rifjað upp gömul kynni. Arndís Hrönn var skelegg Kristín sem ekki ætlar að sóa fleiri árum af lífi sínu. Valur Freyr Einarsson var hæðinn og tvíræður Jens Rank læknir, heimilisvinur hjónanna. Samband hans og Nóru er erótískara í þessari sýningu en venjulegt er en nú erum við líka á 21. öldinni. Ef hann væri til staðar fyrir Nóru þegar hún tekur sína stóru ákvörðun þá væri hún ekki í miklum vanda, færi bara frá einum til annars, en Ibsen setur vandlega undir þann leka.

Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósameistari fær verkefni við sitt hæfi að lýsa þennan mikla geim og má segja að lýsingin hafi orðið stór þáttur í túlkun verksins þegar á leið og þó einkum í enda leiksins sem mér fannst þó heldur teygður. Sömuleiðis átti tónlist Möggu Stínu Blöndal sinn þátt í áhrifum sýningarinnar, dramatískum sveiflum hennar og myrkum undirtónum. Filippía I. Elísdóttir er búningahönnuður þessarar sýningar eins og Sjálfstæðs fólks í Þjóðleikhúsinu. Ekki þori ég að segja hvort verkefnið henni hefur þótt skemmtilegra en ólík eru þau, eins ólík og verða má. Búningarnir hér undirstrika vel ólíkar persónugerðir karlanna og kvennanna, ólík kjör þeirra og hlutverk. Einkum er munurinn á búningum Nóru og Kristínar sláandi, Nóru kjólar léttir og léttúðugir, Kristínar efnismiklir og alvarlegir.

Dúkkuheimili Henriks Ibsen og Hörpu Arnardóttur er dásamleg sýning, fjörug, kynþokkafull, sorgleg og sjokkerandi. Lifandi klassík.

Silja Aðalsteinsdóttir