Björn Leó Brynjarsson hefur verið leikskáld Borgarleikhússins undanfarið ár og í gærkvöldi sá ég afraksturinn, Stórskáldið á Nýja sviði undir stjórn Péturs Ármannssonar. Mér er enn furðu ferskur í minni einleikurinn Frami eftir Björn Leó sem var sýndur í Tjarnarbíó fyrir fjórum árum þannig að væntingarnar voru talsverðar.

StórskáldiðÞær minnkuðu ekki við geysilega viðamikið (bókstaflega, það var skógi vaxið!) svið Ilmar Stefánsdóttur sem sýnir frumlegt hótelherbergi í Amazon regnskóginum. Þar dvelur íslenskt nóbelskáld, Benedikt (Jóhann Sigurðarson), víðsfjarri fósturjarðar ströndum, og hefur ekki haft samband heim í áratug. En nú hefur hann kallað til sín dóttur sína Rakel (Unnur Ösp Stefánsdóttir) vegna þess að hann er dauðvona af krabbameini. Rakel hefur ekki heyrt í föður sínum í aldarfjórðung eða frá því að hann yfirgaf hana og móður hennar þegar dóttirin var fjórtán ára og hún kemur á vettvang full tortryggni. Rakel er kvikmyndagerðarkona og er að vinna að heimildamynd um föður sinn, og með henni er tökumaður sem líka er elskhugi hennar, Andri (Hilmar Guðjónsson), tíu árum yngri en Rakel. Benedikt verður undir eins tortrygginn út í hann. Hér er þá kominn svolítið óvenjulegur og spennandi þríhyrningur handa Birni Leó til að leika sér að.

Það gerir hann með ýmsum aðferðum sem lífga upp á einfalda söguna. Fyrst er augljósa leiðin: Rakel og Andri stilla upp fyrir viðtal, reyna að fá viðmælandann til að hlýða skipunum sem gengur illa en þó kastar fyrst tólfunum þegar Rakel byrjar að spyrja. Hún hefur engan áhuga á bernsku hans eða bókmenntaafrekum, hún hefur bara áhuga á að vita af hverju hann yfirgaf þær mæðgur á sínum tíma. Því hefur Benedikt engan vilja til að svara. Skötuhjúin komast að því að Benedikt lifir á að skrifa samtöl fyrir sápuóperu í sjónvarp héraðsins og Rakel áttar sig fljótlega á því að í skrifum sínum notar Benedikt atriði úr sameiginlegri fortíð þeirra. Þessir textar verða að leiknum innslögum eins og „flash-back“ sem rjúfa söguþráðinn og það gera líka hitabeltisórar Andra sem þolir aðstæðurnar verst þremenninganna.

Andri er líka sakleysinginn sem verður leiksoppur feðginanna í einkastríði þeirra – þau eru bæði snjallari en hann í blekkingaleikjum ­ – og Hilmar Guðjónsson lék hann af ungæðislegum krafti og húmor. Unnur Ösp var langsærð og bitur dóttir sem þróaðist smám saman í jafnoka föður síns í að búa til hentugan veruleika til að sýna í vel heppnaðri heimildamynd og líklega verður hún ágætlega hamingjusöm framakona á sínu sviði og í einkalífinu eftir að við skiljum við hana. Einkaleikir parsins voru mátulega hallærislegir og fyndnir.

Það eru alltaf jól og páskar þegar maður fær að sjá Jóhann Sigurðarson á sviði; enginn fer með texta eins og hann, enginn hefur aðra eins rödd, enginn er eins mikið tröll á sviðinu, bæði í anda og holdi – að sjá þau Unni Ösp saman minnti á myndir Ásgríms Jónssonar af tröllinu og stúlkunni! Framan af var textinn heldur rýr til að Jóhann gæti notið sín en þegar átökin hörðnuðu og hann fékk að sýna fleiri hliðar á persónunni þá breiddi hann úr sér svo yndi var að horfa á.

Lýsing Pálma Jónssonar og hljóðmynd Þórðar Gunnars Þorvaldssonar voru báðar í stíl við framandi sviðið, dularfullar og heillandi. Þetta er skemmtileg sýning og ástæða til að óska ungu leikskáldi til hamingju.

 

Silja Aðalsteinsdóttir