Eiginlega er sýning Leikfélags Reykjavíkur á Njálu, sem frumsýnd var á stóra sviði Borgarleikhússins í gær, eins og Njála sjálf: löng og dramatísk, viðburðarík og djúp, ofbeldisfull, blóðug, hæðin og fyndin, spennandi og þó langdregin og leiðinleg á köflum. Jafnvel tímaskekkjurnar, þegar persónur bregða fyrir sig nýlegum enskuslettum eða bresta út í amerískum dægurlagasöng eða rappi, þær eiga sér líklega sínar hliðstæður í Njálu, þótt ekki beri mikið á þeim núorðið þegar svo langt er liðið frá tímum hennar. Ég fullyrði að það er afrek að búa til sýningu af þessari stærð og vigt og þar eiga þátt allir í leikhópnum og Íslenska dansflokknum, handritshöfundar, sviðslistamenn með Ilmi Stefánsdóttur leikmyndahönnuð í broddi fylkingar, og þó líklega fyrst og fremst leikstjórinn, Þorleifur Örn Arnarsson.

NjálaÞeir sem hafa kviðið því að Njála sé ekki með í sýningunni geta slappað af: þarna er mikil Njála. Upphafsatriðin gætu verið úr baðstofudrama þar sem verið er að lesa bókina og ræða um hana fram og aftur. Sigrún Edda Björnsdóttir les beinlínis upphaf Njálu með sinni fallegu rödd og hefur það hlutverk öðru hverju í sýningunni að vernda söguna og verja hana fyrir skemmdarverkamönnum á sviðinu. Svo langt gengur á einum stað þegar hún ætlar að stöðva ósóma að sviðsmenn eru kallaðir til og látnir bera hana æpandi út af sviðinu. Hún var líka Bergþóra í nokkrum sviðsettum hápunktum sögunnar, glæsileg eiginkona Njáls hins spakvitra (Brynhildur Guðjónsdóttir, stórbrotin), móðir Skarphéðins (Hjörtur Jóhann Jónsson, illvígur) og tengdamóðir Kára hins gæfuríka (Björn Stefánsson, heillandi).

Handritshöfundarnir Þorleifur Örn og Mikael Torfason fara þá skynsamlegu leið að stikla á spennandi söguþáttum sem þeir sviðsetja og nota sögumenn (Hilmar Guðjónsson og Vala Kristín Eiríksdóttir) til að fylla upp í með einfaldri frásögn á milli. Fyrsti þátturinn sem þeir velja er hin merkilega en utanáliggjandi saga bræðranna Höskuldar (Hjörtur Jóhann) og Hrúts (Valur Freyr Einarsson) og meyjarinnar Unnar Marðardóttur gígju (Vala Kristín) sem Höskuldur velur handa bróður sínum. Fyrir brúðkaupið fer Hrútur til Noregs til að heimta arf og kynnist þar Gunnhildi drottningu (Hilmar Guðjónsson) sem tælir hann (ekki mjög tregan) til fylgilags við sig. Hrútur gerir þau mistök við brottför að skrökva að Gunnhildi að hann sé ólofaður og Gunnhildur leggur á hann kynlífsbann sem meinar honum að hafa mök við konu sína heima. Útfærslan á þessu atriði var grótesk en um leið óhugnanlega harmþrungin. Ekki veit ég hverjum á að þakka þessa minnisstæðu lausn, búningahönnuðinum Sunnevu Ásu Weisshappel eða leikgervahönnuðunum Margréti Benediktsdóttur og Elínu S. Gísladóttur.

Þessi þáttur tengist svo meginhluta Njálu með því að Unnur Marðardóttir leitar til frænda síns Gunnars á Hlíðarenda til að hjálpa sér að heimta fé sitt undan Hrúti eftir skilnaðinn. Áður en að því kemur þurfti leikhópurinn að velja Gunnar úr sínum hópi; það var ansi skondið atriði og voru margir kallaðir en að endingu aðeins einn útvalinn í samræmi við glæsilega lýsingu sögunnar á þessari eftirlætispersónu. Það var Valur Freyr sem síðan fór með hlutverkið af miklum krafti og sjarma sem og hlutverk annars glæsimennis, Höskuldar Hvítanesgoða, uppeldissonar Njáls og Bergþóru sem Njálssynir drepa á hinn blóðugasta hátt síðar í sögunni.

Það á ekkert spaug við þegar Hallgerður Höskuldsdóttir langbrók er valin úr hópi meyja, þar dugar ekki minna en langur, dramatískur, jafnvel ofsafenginn dans þar sem leikið er með miklar hárkollur, flottasta atriðið af mörgum mögnuðum dönsum Ernu Ómarsdóttur damshöfundar í sýningunni. Úr þeim hópi kemur svo Hallgerður sýningarinnar, Unnur Ösp Stefánsdóttir, og var að öllu leyti jafnoki síns myndarlega þriðja eiginmanns, fögur og háskaleg. Saga hennar fyrir fund þeirra Gunnars á Þingvöllum er sögð stuttlega, þó eru þeim kinnhestum gerð skil sem eiga eftir að hafa örlagaríkar afleiðingar í lífi þeirra Gunnars. Viðureignir Gunnars við óvini sína voru sviðsettar á hinn ofbeldisfyllsta hátt en einkum verða minnisstæðar erjur hans við Otkel í Kirkjubæ (Hjörtur Jóhann) og Skammkel á Hofi (Hilmar), þar átti einkum Hjörtur Jóhann stórleik – hvílík kómísk gáfa. Fyrri hluti sýningarinnar endar á vígi Gunnars en útfærslan á því þótti mér nokkuð geigandi. Raunar var svo miklum leikhúsreyk spanderað á það atriði að ég var farin að halda að víginu og brennunni hefði verið steypt saman. En brennan var sannarlega eftir.
Fyrsta atriðið eftir hlé var mesta raun kvöldsins – og þó var þar margt fagurlega gert. Kristnitakan sumarið 999 var sem sé tákngerð með sjöundu píanósónötu Prokofievs, sem Árni Heiðar Karlsson tónlistarstjóri sýningarinnar lék á píanó, og dansi fólks í umhjúpandi fjötrum sem það er leyst úr – væntanlega með kristninni – að lokum. Einnig þetta er í stíl við söguna: að draga mann lengi á átökum sem vitað er að eru framundan uns spennan verður óbærileg.

Aðdragandinn að brennunni á Bergþórshvoli er skilmerkilega skýrður með vígi Höskuldar Hvítanesgoða sem Flosi höfðingi á Svínafelli (Jóhann Sigurðarson, stórfenglegur) hefnir. Hann hafði gefið Höskuldi bróðurdóttur sína Hildigunni (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) og hún linnir ekki látum fyrr en vígsins hefur verið grimmilega hefnt. Brennunnar þarf síðan líka að hefna, það hlýtur Kári Sölmundarson að taka að sér, eini vopnfæri maðurinn sem slapp úr eldinum. Við fáum bara frásögn hans af þeim aðförum – enda nóg komið af ofbeldi á sviðinu í bili – og í lokin verður fullkomin sátt þegar þau Kári og Hildigunnur sameinast í hjónabandi í einhverju magnþrungnasta atriði sem ég hef séð á íslensku sviði.

Þetta er leiksýning, rokkópera, myndlistarverk og danssýning, allt á einu kvöldi. Hvílík veisla fyrir augu, eyru og jafnvel nef. Innilegar hamingjuóskir.

Silja Aðalsteinsdóttir