SvartþrösturLeikfélag Reykjavíkur frumsýndi um helgina Svartþröst eftir Skotann David Harrower á Litla sviði Borgarleikhússins. Vignir Rafn Valþórsson bæði þýðir og leikstýrir enda er hann kunnugur verkum af þessu tagi ­ – erfiðum, afhjúpandi verkum sem ganga nærri persónum sínum, leikurum og áhorfendum. Ég minnist sýninga hans á Munaðarlaus, Bláskjá, Hans Blæ, Illsku, Refnum og Rocky, þær skildu mann allar eftir í andnauð.

Og það er eins með Svartþröst og mörg hinna áðurnefndu að annaðhvort verður að skrifa langa ritgerð um leikritið og reyna að greina það í öreindir sínar eða örstutta sem segir eins lítið og hægt er að komast af með. Mitt val er augljóst því að ég vil endilega að fólk fari að sjá sýninguna með opinn huga og viti ekki mikið annað en það sem stendur í kynningartexta. Það tryggir áhrifin!

Peter Beckham (Valur Freyr Einarsson) er starfsmaður á verkstæði, kominn nokkuð á sextugsaldur, þegar ung kona úr fortíð hans, Una (Ásthildur Úa Sigurðardóttir) kemur á vinnustaðinn og vill fá að tala við hann. Hún kallar hann Ray og í ljós kemur að hann hefur skipt um nafn. Hann er tregur til að hitta hana, jafnvel dónalegur, segist ekki þurfa að tala við hana, hann sé laus undan allri ábyrgð á henni og áhuga á henni. Fljótlega kemur í ljós að hann sat inni í nokkur ár fyrir kynferðislegt samband sitt við hana tólf ára gamla. Í framhaldinu kemur saga þeirra fram, saga af laumulegri vináttu fertugs manns og stúlkubarns – og ólíkar hvatir, kenndir og þrár þeirra tengdar þessu sambandi sem lauk svo bratt. Hugsanir hennar hafa snúist um þessa atburði í fimmtán löng ár, hún er enn alltaf að endurlifa þá. Hann er kominn á nýjan stað og kannski hættur að hugsa um hana. Kannski farinn að hugsa um allt annað. Samræður þeirra og átök á kaffistofu verkstæðisins sveiflast milli reiði, hörku, blíðu, saknaðar – jafnvel vissrar gleði … Það eru óþægilega margir fletir sem David Harrower snýr upp á þessu flókna máli og Vignir Rafn skilar þeim skýrt í vandaðri þýðingunni.

Vandaður er líka leikur Vals og Ásthildar. Valur Freyr er auðvitað margreyndur í ólíkum hlutverkum en ekki held ég að hann hafi tekið eins svakalega á öllu sínu áður. Hann þarf að vera fjarlægur og ákveðinn meðan hann reynir að hrista óværuna af sér, síðan þarf hann að beita hörkubrögðum til að fá hana til að vera kyrra því hún skal hlusta á hann. Hann þarf líka að vera bljúgur, sannfærandi, iðrandi, grátandi, ástúðlegur, hress, lúmskur, ósvífinn … ja, hvað þarf hann ekki að vera?

Ásthildur Úa vinnur hér leiksigur í sínu fyrsta stóra hlutverki. Una er komin undir þrítugt en hún er ennþá unglingur í fasi, hreyfingum, klæðaburði og tali. Hún hefur stöðvast í þroska tólf ára – en hefur þá að vísu verið vel gerð og vitsmunalega þroskuð tólf ára stúlka. Í fimmtán ár hefur hún hugsað um þennan mann og nú hefur hún fundið hann þó að hann hafi falið sig eins vel og hann gat. En hvað vill hún honum í raun og veru? Fá svör? En við hvaða spurningum nákvæmlega? Þetta verður æsispennandi sálfræðigáta sem heldur manni á tánum alveg í gegn.

Júlíanna Lára Steingrímsdóttir gerir litlu kaffistofuna á verkstæðinu einstaklega nöturlega og búningar þeirra Rays og Unu eru afar hversdagslegir. Þeir gefa til kynna að þarna sé heitt – þó getur líka verið að þeim hitni í hamsi í átökunum – alltént var tilfinningin rétt. Lýsingin hans Pálma Jónssonar stýrði tilfinningum manns þegar mikið lá við og sama gerðu mergjuð tónlist Arnar Eldjárn og hljóðmynd Sölku Valsdóttur.

Þetta er þungavigtarsýning sem hægt er að ræða endalaust og ég ráðlegg ykkur að sjá hana.

Silja Aðalsteinsdóttir