Mútta courage og börninÞjóðleikhúsið frumsýndi á stóra sviðinu fyrir rúmri viku leikritið Múttu Courage og börnin eftir Bertolt Brecht og Margarete Steffin í nýrri þýðingu Bjarna Jónssonar. Verkið var sýnt áður á því sviði fyrir nærri því sextíu árum (1965) og hefur sú sýning orðið ein af goðsögnum íslensks leikhúss. Skemmra er síðan ég sá sýningu Mörtu Nordal með útskriftarnemendum úr Listaháskólanum (2019), minnilega óvænta og skemmtilega sýningu. Að þessu sinni stýrir Una Þorleifsdóttir verkinu, Ilmur Stefánsdóttir gerir leikmyndina sem birtir mynd af örfoka landi eftir stríðsátök og lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar magnar þá tilfinningu. Filippía I. Elísdóttir sér um búninga sem voru mikið og margvíslegt safn sem undirstrikar tímaleysi verksins, en búningur Múttu skar sig úr með sínum hreinu línum og sterka lit. Valgeir Sigurðsson og Helgi Hrafn Jónsson semja nýja tónlist við söngtextana, kunnuglega popptónlist sem ýtir undir þá tilfinningu að verkið gerist á okkar tímum.

En sagan sem Brecht og Steffin segja á að gerast í þrjátíu ára stríðinu á árunum 1624–1636 þó að kveikjan að því hafi verið innrás Þjóðverja í Pólland í upphafi síðari heimsstyrjaldar 1939. Hin ódrepandi farandsölukerling Anna Fierling, sem gengur undir gælunafninu Mútta Courage og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir gefur sjóðandi skaphita, máttuga rödd og stolt yfirbragð, eltir sænska herinn með varning sinn í stórum vagni. Vagninn draga börnin hennar, Katrín (Hildur Vala Baldursdóttir), Klárinn gæflyndi (Almar Blær Sigurjónsson) og Eilífur (Oddur Júlíusson) sem þráir ævintýri. Drengirnir eru komnir á herskyldualdur og þrátt fyrir andmæli Múttu er Eilífur fljótlega tældur í herinn þar sem hann gerir sig gildandi með grófum ofbeldisverkum. Klárinn er líka munstraður í herinn sem gjaldkeri en örlög veslings Katrínar verða þau að hermaður ræðst á hana og misþyrmir henni þannig að hún vill ekki láta nokkurn mann sjá sig. Í rás viðburða eru þau öll drepin, drengirnir af „sínum“ mönnum en Katrín af óvinunum. Henni tekst þó að vinna raunverulegt afreksverk áður en hún er skotin til bana. Ekkert af þessu virðist raska heimspekilegri stillingu Múttu; þegar hún er orðin ein eftir dregur hún vagn sinn ein.

Mútta courage og börnin

Þó að saga Múttu og barnanna sé í miðju verksins verður fleira fólk á vegi þeirra. Guðrún S. Gísladóttir og Sigurður Sigurjónsson eru hermennirnir sem skrá drengina í herinn og eiga lífleg samtöl við Múttu, einkum var Guðrún kankvís og kát í brynju sinni. Það er einmitt hún sem orðar þennan óhugnanlega sannleik: „Það er erfitt að hætta stríðsrekstrinum eftir að hann er einu sinni hafinn.“ Í herbúðunum kynnist Mútta Kokknum (Atli Rafn Sigurðarson), sleipum náunga sem Atli lék af ísmeygilegri list. Þangað rekst líka vændiskonan Yvette (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) sem syngur nöturlegan söng um meðferðina á sér barnungri. Búningur hennar virtist mér í beinni mótsögn við inntak söngsins. Herpresturinn (Hilmar Guðjónsson) vingast líka við Múttu og allar þessar persónur fá sinn sérstaka svip og geðslag í meðförum leikaranna.

Mútta courage og börnin

Þrátt fyrir viðburðaríka atburðarás og frábær stök atriði var það þó svo að fyrri hluti sýningarinnar varð nokkuð langdreginn og á köflum eins og ekkert væri að gerast. Kannski hafði stærð eyðilegs sviðsins sín áhrif, kannski hæg samtölin. En allt breytti um svip eftir hlé. Þá var eins og nöturleiki stríðsins magnaðist og hiti færðist i leikinn. Allir í kringum Múttu eru orðnir eldri og þreyttari og munurinn á þeim og fólkinu í sveitinni sem þau hitta verður áberandi. Svo magna örlög Katrínar hitann – þessarar stúlku sem hefur reynt allt verkið að láta sem allra minnst bera á sér, mállaus og afskræmd eins og hún er, en gerir nú eins mikinn hávaða og hún mögulega getur til að vekja borgarbúa til vitundar um yfirvofandi innrás.

Þýðing Bjarna Jónssonar virkaði vel. Hið talaða mál var auðugt og beinskeytt en söngtextarnir voru stundum dálítið klúðurslegir.  Söngurinn var fínn, einkum Steinunnar Ólínu en líka Vigdísar og annarra leikara.

Það er ákveðin sögn í því að taka þetta verk til sýningar nú á okkar stríðstímum. Það er óskandi að boðskapur þess skili sér – að stríð eyðileggi allt sem gott er og fagurt og sá sé haldinn blindu sem ímyndi sér að hann geti grætt eitthvað á því. Og það er sérstök meining frá höfundar hendi í því að Mútta Courage skuli missa öll börnin sín. Einmitt því sem hún vildi helst vernda glataði hún.

Silja Aðalsteinsdóttir