Mikið getur maður verið þakklátur fólki sem kynnir fyrir manni nýja mannlífskima. Í gærkvöldi frumsýndi Lab Loki í Tjarnarbíói nýtt leikrit eftir Lilju Sigurðardóttur um infantílisma – það fyrirbæri þegar fullorðið fólk langar til að verða lítil börn á ný. Stóru börnin heitir verkið og það er Rúnar Guðbrandsson sem stýrir. Vel heppnaða leikmynd og búninga sjá Drífa Freyju- Ármannsdóttir og Ari Birgir Ágústsson um.

Stóru börninLilja Guðrún Þorvaldsdóttir leikur „Mömmu“, konu sem rekur eins konar „barnaheimili“ fyrir fullorðna einstaklinga sem þrá að hverfa aftur til frumbernsku eða bernskuára. Af skjólstæðingum hennar eða kúnnum hittum við Kristján fyrst (Árni Pétur Guðjónsson). Hann er stjórnsamur og valdamikill maður í sínu fyrirtæki en um helgar kýs hann að verða aftur þriggja ára óþekktarormur, loka yfirsjálfið inni og hleypa „það“-inu út, leyfa því að njóta sín og fá svo skell á bossann að launum frá „Mömmu“. Hann verður „stóribróðir“ Róberts (Stefán Hallur Stefánsson) sem er kvæntur maður og tveggja barna faðir en er orðinn svo þreyttur á kröfunum sem sífellt eru gerðar til hans að hann langar mest af öllu til að verða aftur þriggja mánaða gamall og sofa heilu helgarnar. Loks rekst inn til „Mömmu“ stúlkan Elín (Birna Hafstein) sem langar bara til að einhver elski hana og verði henni góður af því elskhuginn var að svíkja hana. Hún verður eftirlæti „Mömmu“.

Fyrri hluti kvöldsins var sýning á því hvernig þessi starfsemi gengur fyrir sig og ég verð að viðurkenna að ég var fegin að þjást ekki af infantílisma, svo tilbreytingalítið virtist líf þeirra vera.  Lilja Guðrún var sannfærandi „Mamma“ en geldur þess nokkuð að hlutverk hennar er heldur orðmargt þó ekki sé orðræðan fjölbreytileg. Árni Pétur var hreint ótrúlegur „þriggja ára snáði“. Hreyfingarnar, röddin, fasið og taktarnir, þetta var næstum því viðbjóðslega ekta! Árni Pétur hefur lengi verið natinn við að leika með ýmsum atvinnuleikhópum utan við stóru stofananaleikhúsin og það hefur gert hann að meiri háttar leikara.

Þau Stefán Hallur og Birna tóku öðruvísi á sínum hlutverkum enda kemur í ljós í verkinu að þau eru ekki „raunverulega“ infantíl; helgarnar hjá „Mömmu“ eru hjá þeim flótti frá raunveruleika sem er tímabundið óþolandi. Af þessu leiðir uppgjör í seinni hluta verksins sem varð mun meira spennandi en fyrri hlutinn en um hann má fátt segja svo að ekki spilli.

Stóru börnin er einfalt verk í gerðinni og helst til langt. En það fjallar um forvitnilegt viðfangsefni sem gaman er að velta fyrir sér og rökræða. Mér er sagt að infaltílismi sé raunverulega til og í útlöndum hafi fólk atvinnu af því að annast fólk sem er haldið af honum. Lífið kann sannarlega að koma manni á óvart.

Silja Aðalsteinsdóttir