Margrét Tryggvadóttir: Kjarval. Málarinn sem fór sínar eigin leiðir

Iðunn, 2019

Rán Flygenring: Vigdís. Bókin um fyrsta konuforsetann

Angústúra, 2019

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2020

 

Fyrir jólin komu út tvær bækur handa börnum um merka Íslendinga, málarann Jóhannes Kjarval og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta lýðveldisins. Þetta eru hvort tveggja bækur í stóru broti, litprentaðar og einkar fallega úr garði gerðar en býsna ólíkar að aðferð og útliti, enda um ólíkar manneskjur. Stóra brotið kemur báðum bókum til góða því báðir höfundar nota plássið vel, einkum nýtist það þó bókinni um Kjarval því þar eru litprentuð mörg af hans voldugustu listaverkum.

 

Listmálarinn

Kjarval - Málarinn sem fór sínar eigin leiðir

Kjarval – Málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur

Kjarval – málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur segir sögu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval listmálara. Margrét byggir bókina upp þannig að hver opna er sjálfstæð um efni og hefur sína eigin kaflafyrirsögn með upphafsstaf máluðum með breiðum pensli í einkennislit opnunnar. Þetta gerir bókina litríka og fallega en líka aðgengilega fyrir unga lesendur sem geta dvalið á opnunni eins lengi og efnið heldur þeim og notið þess að skoða allt sem fylgir textanum, myndir af málverkum, ljósmyndir úr einkasöfnum eða dagblöðum og ljósmyndir af hlutum sem tilheyrðu Jóhannesi. Ekkert ýtir lesanda til að fletta annað en áhuginn á að vita meira. Meginmálsletrið er skýrt og  læsilegt en myndatextar eru með of smáu og grönnu letri fyrir minn smekk, einkum getur verið erfitt að lesa þá þegar undirlagið er í lit. Til dæmis er fyrsti myndatextinn (6) prentaður með hvítu letri á okkurgulan bakgrunn og verður ekki nógu læsilegur. En smáatriði eins og að auðkenna myndir úr einkasöfnum með hornum sem notuð voru á árum áður til að líma myndir í albúm eru afskaplega vel til fundin. Það kemur bókaáhugamönnum ekki á óvart að hönnuðurinn sem finnur efninu þennan skýra og glæsilega farveg er Alexandra Buhl; handarverkin hennar eru orðin kunn.

Í upphafskaflanum, „Maðurinn í hrauninu“, lýsir Margrét fullorðnum manni sem stendur allan daginn við trönurnar sínar þótt kalt sé í veðri, lýsir klæðaburði hans, sem er annað en glæsilegur, segir frá því sem hann er að mála, bæði því sem allir sjá og því sem hann einn sér. Hann gleymdi nesti en bílstjórinn hans kom með kaffi handa honum og í vasanum eru sveskjur til að seðja sárasta hungrið. Þetta er ákafamaður, við áttum okkur strax á því, haldinn óviðráðanlegri ástríðu sem ekkert má trufla. Lýsingunni í orðum fylgir ljósmynd af Jóhannesi við trönur úti í hrauni, líka ljósmynd af penslum Jóhannesar og loks stór mynd af málverki úr Gálgahrauni eftir hann. Þessi fyrsta opna bókarinnar er dæmigerð fyrir heildina, einungis rofin af myndaopnum. Hún er líka dæmigerð fyrir það að segja mikið með ólíkum ráðum, næmur lesandi fær miklu meiri upplýsingar en gefnar eru berum orðum.

Eftir nærmyndina í hrauninu víkkar Margrét myndina af þessum sérstæða manni á næstu opnum, kemur því að hvað hann hafi hegðað sér sérkennilega en um leið verið skondinn og skemmtilegur. En hvers vegna á hann skilið að fá um sig bók? Jú, hann „var listmálari og einn sá virtasti sem fæðst hefur á Íslandi fyrr og síðar. […] Honum tókst að skapa eitthvað alveg nýtt og birta Íslendingum nýja sýn á landið sitt.“ (8) Hver nýjungin var kemur svo í ljós þegar líður á bókina.

Í stuttum texta sem ætlaður er ungum lesendum þarf að fara hratt yfir sögu en ná samt öllum aðalatriðum með. Margréti tekst vel að rekja helstu æviatriði Jóhannesar um leið og hún leggur áherslu á að bera tíma hans saman við samtímann til að lesendur skilji betur kjör hans og aðstæður og um leið hans einstaka framlag. Frásögnin af þrettán systkinum í þröngum torfbæ verður skiljanleg og þar koma myndir að góðu gagni, ekki síst 19. aldar ljósmynd Tempests Anderson úr baðstofu á bls. 10. Lýsingin á ferðalaginu þegar drengurinn er sendur í fóstur í fjarlægt hérað er líka skýr og áhrifamikil þótt stutt sé, enda studd lýsandi ljósmyndum (17):

Ef við færum frá Efri-Ey í Meðallandi og austur í Borgarfjörð eystra þyrftum við að aka tæplega 500 kílómetra og það tæki okkur næstum heilan dag. Við þyrftum að fara yfir þrettán brýr sem liggja yfir ár, læki og jafnvel stórfljót. Þegar Jóhannes litli fór að heiman var ferðalagið miklu erfiðara. Ferðin tók heilar þrjár vikur og Jóhannes var alveg örugglega reiddur á hestbaki […] Hann hefur verið bundinn fastur í hnakkinn og þegar hann sofnaði á langri leiðinni var höfuðið á honum bundið upp líka svo að það slægist ekki til. Þannig hélt litli drengurinn út í lífið, fjögurra ára gamall, yfir sanda, óbrúaðar ár og stórfljót, fjöll og meðfram jöklum. Foreldra sína sá hann ekki aftur fyrr en hann var fullvaxta. (16)

Vonandi situr þessi lýsing nógu lengi í lesendum til að þeir geti íhugað seinna í bókinni hvað viðskilnaðurinn við foreldra og systkini hafði afgerandi áhrif á allt líf Jóhannesar og sálarlíf hans.

Hjá fósturforeldrunum í Geitavík í Borgarfirði eystra (bærinn er kallaður Geitvík í 1. prentun bókarinnar en það er leiðrétt í 2. prentun) virðist Jóhannes hafa tekið þá ákvörðun upp á sitt eindæmi að verða myndlistarmaður og fylgir henni eftir af óskiljanlegri elju þó að allt umhverfið reyni beint og óbeint að telja honum hughvarf. Ástríðan var hamslaus allt frá bernskuárum þegar hann teiknaði skútur í auðu línurnar í skriftarbókinni sinni! Hann fer í teiknitíma til þekktra málara þegar hann flyst til Reykjavíkur og kemst til London 26 ára, og lærir margt þar á fáeinum mánuðum þótt ekki hefði hann efni á skólavist. Skemmtilegt er dæmið sem Margrét sýnir af áhrifum enska málarans Turners á Jóhannes (26–27). Raunar verður þróun í myndlist almennt og Jóhannesar sérstaklega furðu skýr þótt umfjöllunin sé stutt. Og hagnýtar upplýsingar eins og aðferð til að mála í rigningu eru mikils virði.

Myndefnið í bókinni er afbragðsvel valið og mætti taka dæmi af hverri opnu. Af óvæntu efni má nefna tillögur Jóhannesar að íslenskum fána (30) og myndin af Jesú Kristi í Bakkagerði með Dyrfjöll í baksýn býður upp á langar umræður. Bráðsnjallt er að benda á listaverkin í Landsbankahúsinu við Austurstræti; vandalítið fyrir lesendur á höfuðborgarsvæðinu að kynna sér þau. Hinar ólíku undirskriftir Jóhannesar eru athyglisverðar (44). Gaman er fyrir unga lesendur að sjá hvað Jóhannes gat teiknað strax óskólagenginn stráklingur en líka hvað fyrstu myndlýsingarnar hans í bók Sigurbjarnar Sveinssonar voru frumstæðar. Það er gott að sjá bæði skemmtilegar augnabliksteikningar á servéttum (76) og málverk sem voru mörg ár í vinnslu (78). Merkileg er líka sagan af Ragnari í Smára sem neitaði einu merkasta listasafni heims um málverkið „Fjallamjólk“. Það hlýjar að vita að ekki er allt til sölu.

Þó að Margrét velti sér ekki upp úr örlögum Jóhannesar verða þau nöturlega skýr. Hvernig hann fórnar lífshamingju sinni til að verða sá myndlistarmaður sem hann skynjar að býr í honum og hvað honum reynist erfitt að vera bæði maður og listamaður, hvað hann er vansæll í einkalífi sínu og að hann skuli aldrei á ævi sinni eignast raunverulegt heimili eftir að hann flytur frá Geitavík. En líka hvað hann var stór manneskja, gjafmildur á verk sín og peninga þegar hann loksins eignaðist þá. Víst er að Jóhannes var afar flókin persóna og erfitt að taka undir myndatexta á bls. 9 þar sem stendur: „Hann kunni heldur ekki að vera annar en hann var.“ Enda er honum andmælt í myndatexta á bls. 60: „Jóhannes kunni að leika hlutverk listamannsins og setja sig í stellingar.“ Jóhannes lék mörg hlutverk í lífi sínu og freistandi að álykta að hann hafi alls ekki verið viss um það sjálfur hver hann var nákvæmlega. En íslenska náttúru þekkti hann og tignaði.

Íslensk stjórnvöld koma ekki vel út úr þessari sögu. Tregðan til að styrkja Jóhannes til náms og hlægilegt fálmið út af heimili handa honum á gamals aldri eru átakanleg dæmi um skammsýni. Vinirnir koma betur út.

Um Jóhannes Kjarval hafa verið skrifaðar margar bækur þannig að ástæðulaust er að kvarta þótt maður sakni einhvers í þessum stutta texta. En fleiri myndrænar (gaman)sögur hefðu ekki sakað og svo hefði verið sniðugt að hafa með – af því að þetta er bók handa börnum – eitt af ævintýrum Jóhannesar, til dæmis „Þjóðin sem svaf í mörg hundruð ár“ eða Hvalasöguna.

Það er margt sem gerir þessa bók holla ungum lesendum. Hún dregur upp skýra mynd af kjörum fólks á Íslandi í tiltölulega nýliðinni fortíð. Hún sýnir hvernig ástríða einstaklings yfirvinnur hindranir sem virðast óyfirstíganlegar og hvað framlag eins manns getur verið óendanlega mikils virði.

 

Forsetinn

Vigdís - bókin um fyrsta konuforsetann

Vigdís – bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring.

Mun léttara er yfir bók Ránar Flygenring um Vigdísi forseta en bókinni um Kjarval enda er Vigdís gæfumaður. Þótt hún hafi vissulega orðið fyrir sárri lífsreynslu er ekki komið inn á það, ekki einu sinni nefnt að hún hafi misst eina systkini sitt, bróðurinn sem var henni svo kær.

Aðferð Ránar er líka persónulegri en Margrétar. Hún býr sér til sögumann sem segir frá í fyrstu persónu, litla glaðbeitta stelpu sem ætlar að verða rithöfundur og fær þá snjöllu hugmynd að skrifa bók um fyrstu konuna í heiminum sem var kosin forseti lands síns í lýðræðislegum kosningum. Heimatökin eru hæg, konan er íslensk, hún er lifandi og býr á meðal okkar. Stúlkan bankar upp á hjá Vigdísi sem tekur svona skínandi vel á móti henni og segir henni frá sjálfri sér á óþvingaðan, ljúfmannlegan hátt, alveg í anda fyrirmyndarinnar.

Bókin er skipulögð eins og Kjarvalsbókin, hver opna segir sína sögu eða tekur fyrir ákveðið efni eða tímabil. Rán er sjálf hönnuður sinnar bókar, enda teiknar hún alla bókina, letrið líka. Það er nokkuð stórkarlalegt þegar stúlkan er að skrifa eigin texta en verður mjúkt og fallegt og svolítið hátíðlegt þegar Vigdís tekur til máls. Þó að textinn skipti auðvitað miklu máli stækka, lengja og dýpka myndirnar söguna mikið. Þær eru fremur hreinar og einfaldar, auðvelt að lesa úr þeim þótt fjöldamörg smáatriði séu á mörgum opnunum. Stelpuhnokkinn minnir sterklega á höfundinn í útliti en er nokkuð gróflega teiknaður; Vigdís er vandaðri og svipurinn auðséður með fyrirmyndinni þótt sú raunverulega sé fallegri. Inni í bókinni er Vigdís fullorðin kona en framan á kápunni er Vigdís eins og hún var þegar hún var kosin, ung og björt. Litirnir eru sterkir og hreinir og hver opna heilt ævintýri. Til dæmis fá allir hlutir mál á opnunni í stofu Vigdísar, stólar, bækur, farsími, píanó, púðar, styttur, myndir, munir. Mér þykir leitt að benda á villu í tilvitnun í Hávamál í máli einnar myndarinnar, þar ætti að standa: „Veistu ef þú vin átt …“

Frásögn Vigdísar birtist í máli og myndum og viðbrögð stúlkunnar eru oft barnslega fyndin, eins og þegar hún heldur að Vigdís hafi orðið forseti strax svona fjögurra–fimm ára. Opnan með fjölbýlishúsinu á Ásvallagötu sem Vigdís ólst upp í er alveg frábær. Vigdís kemur því meðal annars að þar að þá voru ennþá rollur í Reykjavík. Og á næstu opnu á eftir koma þær Rán og Vigdís að ótrúlegu magni af upplýsingum um það sem börn og fullorðnir undu sér við á fyrri hluta 20 aldar. Líka kemur fram að þau systkinin voru send í sveit á stríðsárunum. En þó að Vigdís yndi sér vel í sveitinni ætlaði hún að verða skipstjóri þegar hún yrði stór. Það varð hún líka á sinn hátt.

Frakkland er afgreitt á einni opnu, kennslan, sjónvarpið og dóttirin Ástríður á annarri, leikhúsið á þeirri þriðju; þar blandar Rán saman Hamlet og Grýlu – eða er það Gilitrutt sem kvenkyns Hamlet hittir á sviðinu? Kvennafrídagurinn fær eina opnu og í beinu framhaldi kemur hvatningin til Vigdísar um að bjóða sig fram til forseta. Hún er treg en þrýstingurinn eykst uns skeytið kemur frá skipverjum á Guðbjarti ÍS, það gerir útslagið. Það fær líka gott pláss og sömuleiðis fallegi kjóllinn sem Steingerður Hólmgeirsdóttir prjónaði og Vigdís skartaði morguninn sem hún tók við hyllingu þegna sinna. Óvæntasta myndin er af hnettinum á herðum barnsins þar sem við sjáum bláklædda Vigdísi á móti fjölda svartklæddra karla í forsetaembættum heimsins.

Störf Vigdísar í forsetatíð hennar eru tíunduð stuttlega en sjálfri finnst Vigdísi skipta mestu máli að í hvert skipti sem hún fór í heimsóknir út á land hafði hún með sér þrjár birkihríslur sem hún gróðursetti með börnunum á staðnum, „eina fyrir stúlkur, aðra fyrir drengi, og þá þriðju fyrir ófæddu börnin“. „Það er heill skógur!“ segir sögustúlkan hrifin á lokaopnunni, stödd inni í vænum Vigdísarlundi.

Saga Vigdísar er hugsuð, skrifuð og teiknuð af listfengi og virðingu fyrir einstakri persónu án þess að verða tilfinningasöm, húmorinn kemur í veg fyrir það.

 

Í lokin

Bækurnar um Kjarval og Vigdísi eru mikilsverð viðbót við barnabókaflóruna. Um leið og þær kynna markverðar persónur fyrir lesendum sínum gefa þær góða innsýn í líf raunverulegra Íslendinga sem er býsna ólíkt þeirra eigin lífi. Í víðara samhengi gefa þær lærdómsríka og fjölbreytta mynd af íslensku þjóðfélagi á öldinni sem leið.

Silja Aðalsteinsdóttir