MeinvilltStúdentaleikhúsið ræðst ekki á garðinn þar sem hann er þægilega lágur að þessu sinni. Undir stjórn Vignis Rafns Valþórssonar vinna þau sýningu sem þau kalla því hnyttna nafni Meinvillt upp úr umdeildu leikriti Edwards Bond Saved. Þau stytta verkið mikið og fjarlægja úr því alla fullorðna, unglingarnir eru einir eftir og leika lausum hala.

Saved var sýnt í Iðnó undir heitinu Hjálp haustið 1971. Í þetta sinn er það sýnt í Kartöflugeymslunum fyrir ofan Rafstöðvarveg. Það hráa rými má teljast viðeigandi staður fyrir þetta verk sem er sannkallaður hryllingur. Það fjallar um hóp atvinnulausra og vonlausra ungmenna í fátækrahverfi í London og viðurstyggilegan glæp sem þau fremja í sameiningu út úr leiðindum.

Það verður sagt undir eins að þrátt fyrir góð tilþrif hjá hópnum tekst þeim engan veginn að gera meginatburðinn sannfærandi – sem betur fer, liggur mér við að segja. Leiðanum náðu þau ágætlega en það vantaði of mikið upp á örvæntinguna til að verkið snerti við manni eða vekti þann viðbjóð sem olli því að jafnvel fílefldir karlmenn gengu út af sýningum bæði hér á landi og annars staðar.

Lengst af var þó verulega gaman að horfa á krakkana (ekki alveg eins gaman að hlusta á þau öll, leikstjórinn hefur ekki lagt áherslu á framsögn). Sýningin hefst á hópreið undir háværum hljómum Óðsins til gleðinnar úr 9. sinfóníu Beethovens. Svo tínast þau burtu uns eftir eru strákurinn Lárus (Tryggvi Björnsson) og stelpan Perla (Hekla Lydía Gísladóttir). Hún vill hafa mök við Lárus en hann er tregur, sennilega finnst honum bara að aðstæður eigi að vera þægilegri fyrir slíkan leik, enda rómantískur maður í eðli sínu með sterka hreiðurgerðarhvöt. Þetta atriði var vel unnið, einkum bjó Tryggvi til góða og sannfærandi týpu úr Lárusi. Ég hef séð gott til Tryggva áður, hann er efni.

Perlu fer fljótlega að leiðast Lárus, hann er alltof vænn, en verður gagntekin af Fredda (Ragnar Pétur Jóhannsson) sem er nokkuð dæmigerður kvennaljómi. Hann verður skotinn í Perlu en er ennþá fljótari að fá hundleiða á henni en hún á Lárusi. Hún eignast barn og kennir Fredda en hann er tregur til að gangast við því. Helsti keppinautur hans í töffaraskapnum er Pétur (Tómas Gauti Jóhannsson), hann átti eitt eintal uppi á borði um eftirminnilegar samfarir og fór virkilega vel með það. Önnur hlutverk eru einkum til uppfyllingar en voru ágætlega unnin af Guðmundi Arnari, Emblu Huld, Þór Símoni, Söru Rut Arnardóttur og Hildi Sigurðardóttur.

Sviðið var blóðhrátt eins og hæfði en krakkarnir notuðu sér vel rými á efri hæð hússins innst, þar sjáum við villt partý gegnum glugga. Katrín Helga Ólafsdóttir sá um tónlistina í sýningunni sem var býsna áleitin, einkum var vandlega hugsuð notkunin á jólasálminum fallega sem íslenski titillinn vísar til og ítrekaði að ólíkar móttökur ættu mannanna börn í vonum þegar þau fæðast.

Ég velti því fyrir mér fyrir sýninguna hvort ástæða væri til að endurvekja þetta leikrit í atvinnuleikhúsi en – nei, það er alveg ástæðulaust.

Silja Aðalsteinsdóttir