Leikfélag Mosfellsbæjar er að sýna söngleikinn um Ronju ræningjadóttur í Bæjarleikhúsi sínu undir stjórn Agnesar Wild og tónlistarstjórn Sigrúnar Harðardóttur. Sýningin er afar fjölmenn, upp undir þrjátíu manns taka þátt í henni, og þó eru búningarnir enn fleiri því sömu leikarar leika skógarnornir og grádverga og annar hópur leikur rassálfa og Borkaræningja. Ekki furða þótt fjórtán manns séu skrifaðir fyrir búningum og sviðsmynd ásamt hönnuðinum Evu Björgu Harðardóttur. En gaman hefur verið að búa til þessar gersemar.

Saga Astrid Lindgren um ræningjadótturina hugrökku og hvatvísu er afskaplega skemmtileg og áhrifamikil þroskasaga feðgina. Matthías ræningjaforingi (Askur Kristjánsson) er himinsæll þegar hann eignast dóttur með Lovísu konu sinni (Íris Hólm) og tilkynnir ræningjum sínum stoltur að þarna sé kominn framtíðarforingi þeirra. En þegar Ronja (María Ólafsdóttir) vex úr grasi er hann svo hræddur um hana að á tímabili lítur helst út fyrir að hún fái aldrei að verða sjálfstæð manneskja. Smám saman sleppir hann takinu að þessu leyti. En þegar hún gerir uppreisn gegn valdboði hans seinna og tekur – að því er honum finnst – samkeppnisaðila Matthíasar, ræningjaforingjann Borka (Loftur S. Loftsson) og Birki son hans (Ari Páll Karlsson) fram yfir hann á hann aftur erfitt með að horfast í augu við að hún sé sín eigin persóna. Þetta hafa feður allra alda átt erfitt með að sætta sig við en sjaldan hefur því verið skýrar lýst en í sögu Lindgren sem liggur söngleiknum til grundvallar.

Ronja Ræningjadóttir

Það fer afar vel um söngleikinn á vel nýttu sviði Bæjarleikhússins. Í vinstra horni er íveruherbergi íbúa Matthíasarborgar, helvítisgjáin verður til fyrir miðju baksviði nóttina þegar Ronja fæðist, skógurinn er framsviðs, klettabelti til hægri og hellir Ronju og Birkis er snarlega fluttur inn á gólfið þegar þörf krefur. Sviðið er hugvitssamlega gert en ennþá meira hrifu búningarnir. Þeir eru margir sannkölluð listaverk, einkum búningar skógarnornanna sem hefðu sómt sér vel á tískupöllum Parísar. Ræningjaliðin voru aftur á móti óttalega drusluleg en Matthías og Lovísa voru vel búin og búningur Ronju klassískur fyrir þetta hlutverk.

Það skorti heldur ekkert á að hópurinn uppfyllti kröfurnar sem hlutverkin og búningarnir gerðu til hans. Þarna dansa allir og syngja af fjöri og fagmennsku skemmtilegu textana hans Böðvars Guðmundssonar við lögin hans Sebastians. Það var gaman að upplifa með áhorfendum sem ekki þekkja verkið titillagið, „Ronja ræningjadóttir“, prumpulagið, anímónulagið og vorlagið. Margir ræningjarnir voru líka liðtækir spilamenn (maður getur til dæmis gert sér í hugarlund að þeir hafi farið út í þessa atvinnugrein upp úr verkfalli tónlistarkennara), til dæmis lék Borki ræningjaforingi á kontrabassa þegar hann var ekki að rífast eða slást við Matthías. Af stökum leikurum er nauðsynlegt að hæla Dóru Wild sem lék og söng Skalla-Pétur af kímni og innlifun, Írisi Hólm sem var sannfærandi kvenvargur í hlutverki Lovísu og söng mjög vel, líka Aski og Ara Páli, karlmönnunum í lífi Ronju. En það er María Ólafsdóttir sem fyrst og fremst heldur sýningunni uppi með persónutöfrum sínum, góðum leik, skýrum og skorinorðum framburði og heillandi söng. Ég vona að sem allra flest börn fái að njóta þessarar sýningar.

Eitt vil ég þó nefna til umhugsunar. Sýningin verður helst til löng eftir hlé – þetta er eitt af þeim leikverkum sem „endar“ oft – og ég held að það myndi styrkja hana að stytta hana svolítið, taka kannski út eitt eða tvö lög.

Silja Aðalsteinsdóttir