Lofthræddi örninn ÖrvarOddur Júlíusson er loksins kominn til höfuðborgarinnar eftir langan túr um landið með barnaleikritið Lofthrædda örninn Örvar. Honum var tekið fagnandi í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu í gær enda er þetta bráðskemmtilegt stykki. Verkið er sagt eftir þá Klinting, Ahrreman og Engkvist og ekki skilgreint nánar hvað hver þeirra á en upprunalega sagan mun vera eftir Lars Klinting. Leikstjóri er Björn Ingi Hilmarsson sem sjálfur lék Örvar fyrir um tuttugu árum við miklar vinsældir undir stjórn Peters Engkvist.

Þetta er söguleikhús. Oddur kemur inn og kynnir sig, hann er leikari og heitir Oddur, hann kynnir leiksviðið líka fyrir áheyrendum, leiktjöldin, hjálpargögnin, hljómtækin. Svo segist hann ætla að segja okkur sögu en hann þurfi fyrst að sækja tvo bestu vini sína sem sagan fjalli um. Síðan fer hann bak við skilrúm til að sækja þá. Við heyrum þá Örvar örn þrátta um stund vegna þess að Örvar fær allt í einu kvíðakast og vill hætta við allt saman. En hinn vinurinn, músarrindillinn, er hvergi banginn. Svo koma þeir vinirnir fram, músarrindillinn á öxl Odds sem leiðir Örvar, ósýnilegir báðir tveir en svo bregður Oddur sér í gervi þeirra til skiptis. Vandalaust var að ímynda sér bæði örninn og músarrindilinn enda gerði Oddur skýran greinarmun á þeim félögum í rödd og fasi og sjálfur var hann allt öðruvísi en hinir báðir.

Sagan er einföld. Örvar er lofthræddur þó að hann sé stór og sterkur örn og þorir ekki að fljúga upp í himinblámann; það þráir hann þó meira en allt annað. Músarrindlinum pínulitla finnst þetta býsna fáránlegt en hann hæðir Örvar ekki heldur býðst til að kenna honum listina. Vandinn er aðallega sá að músarrindillinn hefur svo rosalega mikið að gera við alls konar aðra hluti að hann mætir alltaf hálfum sólarhring of seint á stefnumótin. Félaga mínum fimm ára fannst skemmtilegast af öllu að hlusta á sífellt hraðari upptalningu músarrindilsins á sínum ótal verkefnum. Á meðan Örvar bíður fylgjumst við með klaufalegum tilburðum hans til flugs. Þar beitti Oddur endurtekningunni listilega þangað til áhorfendur voru farnir að æpa af hlátri. Allt tekst þetta svo auðvitað að lokum.

Hér er margur hollur boðskapurinn eins og sjá má: Það er eðlilegt að vera stundum hræddur og engin skömm að því að þiggja hjálp, og þá getur sá litli vel hjálpað hinum stóra. Maður á ekki að gera gys að þeim sem á bágt heldur koma til aðstoðar. Svo er nauðsynlegt að vera þolinmóður, gefast ekki upp þótt manni takist ekki í fyrstu tilraun, ekki annarri, ekki þriðju, ekki fjórðu …

Þetta er auðvitað óskaverkefni fyrir sniðugan leikara og Oddur naut þess í botn. Hann er snjall látbragðsleikari og náði vel til krakkanna. Ég var svolítið smeyk um það fyrstu mínúturnar að hann talaði of lágt til að þau sem sátu aftarlega heyrðu til hans en það var bara rétt fyrst. Dómur tveggja ungra félaga minna var eindreginn: Mjög skemmtileg sýning!

Silja Aðalsteinsdóttir