Fyrsta tilfinningin sem grípur mann á Sendingu, leikriti Bjarna Jónssonar sem Marta Nordal setur upp á Nýja sviði Borgarleikhússins, er að það sé þrengt að því. Sviðið virkar svo lítið. Og eintóna. Gólf og þrír veggir sem eru samfelldar hurðir á skápum og öðrum herbergjum. En séu hurðir þá er eitthvað fyrir innan þær og þar liggur hundurinn grafinn.

SendingVið erum stödd á árinu 1982. Bubbi er búinn að gefa út Breytta tíma með sinni nýju hljómsveit, Ego, og kominn vestur á firði til að halda tónleika. Þangað fer sjómaðurinn Róbert (Þorsteinn Bachmann) og skemmtir sér vel en ekki kemur fram að hann hafi boðið konu sinni með sér. Enda hefur hún, Helga sjúkraliði (Kristín Þóra Haraldsdóttir), öðrum hnöppum að hneppa en fara á tónleika hjá kónginum. Hún hefur nefnilega pantað sér barn sem barnaverndarnefnd þarf að koma í fóstur. Meðan Róbert sefur út eftir tónleikana kemur María (Elma Stefanía Ágústsdóttir) með drenginn Frank (Árni Arnarson) og skilur hann eftir hjá Helgu þótt hana gruni að eiginmaðurinn hafi ekki áhuga á því að taka fósturbarn. Átökin sem eftir fara snúast á yfirborðinu um barnið en í raun og veru um það hver ræður á heimilinu, ekki bara yfir nútíðinni heldur ekki síður yfir fortíðinni sem býr í skápunum. Ein persóna kemur enn við sögu, Anton kennari og æskuvinur Róberts (Hilmar Guðjónsson), og valdataflið snýst líka um hann.

Barnaverndaryfirvöld fá ekki merkilega einkunn í þessu verki en höfundur skákar í því skjólinu að það gerist fyrir rúmum þrjátíu árum og við höfum fengið óhugnanlegar fréttir af því sem gerðist þá. Engin athugun hefur verið gerð á heimili Helgu og Róberts áður en barninu er komið þar fyrir og ekki eru sannfærandi skýringar gefnar á því hvers vegna Frank þarf að fara í fóstur til vandalausra. Hann er bara kominn þangað og Helga þarf meira að segja að greiða flugfarið fyrir hann. Þó kemur fram að þau hjónin eigi að fá greitt fyrir fóstrið. Þetta kemur ekki alveg heim og saman en það er ekki plottið sem Bjarna er efst í huga í þessu verki.

Sterkasta einkenni Sendingar er persónusköpunin sem leikurinn, leikstjórnin, leikmyndin (Gretar Reynisson), búningarnir (Stefanía Adolfsdóttir) og lýsingin (Björn Bergsteinn Guðmundsson) ýta undir. Allar eru persónurnar kunnuglegar manngerðir og samtölin eru þjál og vel skrifuð. Leikurinn er skínandi góður. Þorsteinn Bachmann gefur átakanlega skýra mynd af heimilisharðstjóra, manni sem ekki á neitt nema núið af því hann vill ekki muna, vill ekki eiga minningar, enda ekkert í fortíðinni sem ástæða er til að halda upp á. Fólkið í kringum hann, eiginkonan og vinurinn Anton, þrá að eiga í eðlilegu, mannlegu sambandi við hann og reyna af alefli að komast á þann stað, en það gengur skítt. Spurningin sem situr eftir er hvort þau bugast bæði eða bara annað – og þá hvort … Einstaklega vel var valið í hlutverkin til að ná sem sterkastri mynd af aðstæðunum: Þorsteinn er hávaxinn maður en Kristín Þóra og Hilmar eru mun lágvaxnari og auðvelt á sviðinu að ýkja þann mun með fasi og líkamsburði. Og drengurinn er auðvitað eins og mennskt barn í tröllahöndum þegar þeim lýstur saman, Frank og Róbert.

Sýningin hefur mörg skemmtileg leikstjórnareinkenni Mörtu Nordal sem við þekkjum úr fyrri verkum hennar, til dæmis raddir á upptökum sem í þetta sinn fjölguðu atriðum, breikkuðu tímaplanið, drógu fram undirtextann og óraunsæju hliðina á verkinu og unnu gegn einfaldleika þess. Þetta er sýning sem á skilið að ganga vel því auk þess sem hún er listilega gerð segir hún okkur sögu sem kemur okkur við hér og nú þó að hún gerist fyrir löngu.

Silja Aðalsteinsdóttir