Ég deyÞessi glaðlega hending hér fyrir ofan er úr frumsömdu vöggukvæði eftir Charlotte Bøving sem hún syngur í uppistandssýningu sinni Ég dey á Nýja sviði Borgarleikhússins um þessar mundir. Þar fjallar hún um dauðann á ótrúlega margvíslegan hátt á ekki lengri kvöldstund, fræðilega og persónulega. Aðstoð við að leikstýra sjálfri sér fær hún frá Benedikt Erlingssyni bónda sínum og Grétu Kristínu Ómarsdóttur dramatúrg, tónlistinni stýrir Gísli Galdur, Garðar Borgþórsson lýsingu en Unnur Elísabet Gunnarsdóttir leikstýrði sviðshreyfingum.

Á sviðinu, sem Þórunn María Jónsdóttir hannar eins og fjölbreytta, fyndna og fallega búninga Charlotte, eru tröppur fyrir miðju og á neðsta þrepinu er líkkistuskraut þegar við komum inn í salinn. Í loftinu er klassísk jarðarfararmúsík og verkið hefst á búklausri rödd sem flytur útfararræðu yfir dönsku leikkonunni Charlotte Bøving sem settist að á Íslandi rúmlega þrítug og átti bæði hér og þar einkar farsælan feril. Þegar við þetta bætist að leikskráin lítur út eins og útfarardagskrá er ekki laust við að um mann fari óþægilegur hrollur. En í lok ræðunnar lyftist lok á neðsta þrepinu, Charlotte stingur upp kollinum og spyr kankvís hvort nokkur hafi farið að skæla!

Þegar hún rís upp úr kistu sinni er hún í hvítum líkklæðum. Þau reynast vera ysta lag á þreföldum búningi sem sýnir mannslíkamann innar og innar, fyrst húðlausan, síðan holdlausan. Þetta var sjón að sjá! Hún flytur síðan texta sinn um dauðann, meðal annars ber hún saman jarðarfararsiði í ólíkum heimshlutum, ræðir tilgang lífsins í ellefu atriðum og varpar þeim upp á bakvegginn til frekari áréttingar; hún upplýsir að fólk sem spjallar við jafnt kunnuga sem ókunnuga við hvert tækifæri lifi lengst! Afar fróðleg var yfirferð hennar yfir dánarorsakir í heiminum á okkar dögum, hve ótrúlega fáir deyja úr hungri eða í vopnuðum átökum og hve óstjórnlega margir deyja úr offitu og öðrum lífstílstengdum sjúkdómum. Sér grefur gröf …

Charlotte fór býsna nærri sjálfri sér í persónulegu frásögnunum – af vinkonunni sem hún missti, af mömmu sinni og afa sínum lögreglustjóranum sem var handtekinn af Þjóðverjum undir lok stríðsins og sendur í fangabúðir. Það versta er ekki að streitast við að lifa af frá degi til dags við óbærilegar aðstæður; það versta er að vita ekki hvað maður þarf að halda sér á lífi lengi. Hvenær martröðinni lýkur.

En sýningin var sannarlega ekki eingöngu fræðilegur fyrirlestur með persónulegu ívafi. Charlotte bæði söng og dansaði fyrir okkur. Flottastur var beinagrindadansinn við skemmtilegt myndband Steinars Júlíussonar af dansandi beinagrindum. Eftir hlé kom Charlotte inn á gullfallegum Carmen-kjól í svörtu og rauðu sem fljótlegt var að breyta í búning dauðans sjálfs og hann söng líka fyrir okkur. Charlotte talar auðuga íslensku en gerir stórskemmtilegt grín að sjálfri sér og baráttu sinni við hana; þar fékk hún kannski flest hlátrasköllin.

Ég dey er djörf og óvenjuleg leiksýning sem vekur til umhugsunar um leið og hún skemmtir.

-Silja Aðalsteinsdóttir