UpphafÞað er grímuskylda í Þjóðleikhúsinu og mér fannst það talsverð reynsla að sitja heila leiksýningu með grímu fyrir vitunum. En maður gerir hvað sem er, þegjandi og hljóðalaust, ef það stuðlar að því að leikhúsin haldist opin. Vissulega varð mér dálítið þungt um andardráttinn undir sýningunni en kannski var það ekki gríman heldur tilfinningaspennan á sviðinu sem jókst jafnt og þétt. Sviðið var í Kassanum og þar var verið að leika Upphaf eftir David Eldridge undir styrkri stjórn Maríu Reyndal. Þetta er tveggja manna tal eins og Oleanna sem var frumsýnd á föstudagskvöldið í Borgarleikhúsinu en að öðru leyti andstæða þess í einu og öllu.

Í Upphafi er Guðrún (Kristín Þóra Haraldsdóttir) nýflutt inn í glæsilega íbúð sem hún hefur keypt sér í Vesturbænum og gestirnir eru nýfarnir úr innflutningspartýinu, allir nema Daníel (Hilmar Guðjónsson). Fljótlega komumst við að því að hann varð ekki eftir af tilviljun; þau þekktust ekki fyrir en hafa verið að gefa hvort öðru auga allt kvöldið og Kiddi vinur hans hefur hvatt hann til að reyna sig við Guðrúnu. Seinna kemur í ljós að Guðrún hefur alveg sérstaka ástæðu fyrir því að halda Daníel hjá sér einmitt þessa nótt og sú ástæða ristir djúpt.

Þau eru á ólíkum stað í lífinu þessi tvö þótt þau séu á svipuðum aldri, um fertugt. Hún er framkvæmdastjóri á góðum launum og býr í eigin íbúð. Hann er í starfi sem veitir honum hvorki góða afkomu né sjálfstraust, fráskilinn og skilinn líka frá barni sínu og fluttur aftur heim til mömmu. Hann er enginn happafengur enda spyr hann Guðrúnu hreinskilnislega hvað hún vilji eiginlega með hann. Getur hún notað hann til einhvers? Hann er hræddur og víkur sér undan atlotum hennar, stingur jafnvel frekar upp á að þau taki til eftir partýið en fari í kelerí. Allan tímann tala þau saman, hlélaust, og vegna þess hvað samræðurnar snúast að lokum um mikil grundvallarmál kynnast þau hvort öðru sjálfsagt betur á þessari einu nótt en fólk gerir á mörgum mánuðum í venjulegu tilhugalífi. Um leið opinberast persónur þeirra smám saman og þær verða æ áhugaverðari. Verkið er virkilega vel byggt og samtölin eru eðlileg og þjál í þýðingu Auðar Jónsdóttur. Staðfærslan er líka vel útfærð og sannfærandi þó að maður geti vel spurt sig hvort hugsanlegt sé að íslenskt par geti átt svona opinskátt samtal um tilfinningar. En auðvitað er allt til og þau eru engir krakkar.

Kristín Þóra og Hilmar léku hlutverk sín af innlifun og öryggi svo unun var að fylgjast með þeim. Lengi vel fannst mér reyna meira á Hilmar, það er Daníel sem er til skoðunar og veit ekki hvort hann á að vera eða fara og saga hans er líka nöturleg. En áherslan færðist yfir á Kristínu Þóru í dásamlegu atriði þegar Guðrún hættir að beita orðum og brestur í trylltan dans! Eftir þá útrás fær hún aftur málið og heldur hógværa en þó máttuga ræðu yfir gesti sínum. Þá ræðu heyrði ég vel, enda sneri Kristín sér fram í salinn undir henni; það var stundum erfiðara að heyra orðaskil þegar Hilmar stóð innar á sviðinu og hún sneri sér hálfvegis að honum og frá áhorfendum. Þetta þyrfti að hafa í huga, að minnsta kosti fyrir fólkið á aftasta bekk.

Upphaf

Leikmynd Finns Arnars Arnarsonar er mjög smart en líka þénug; þrefaldur eldhúsbekkurinn tekur gríðarlegt magn af flöskum og dósum til að sýna fjölda burtfarinna gesta og stofan fyrir framan er notaleg fyrir samtalið. Margrét Einarsdóttir búningahönnuður lét fatnað Guðrúnar sýna að henni væri frekar í mun að vera flott en láta sér líða vel í boðinu heima hjá sér. Daníel var hins vegar kæruleysislega búinn eins og hæfði þeirri persónu sem hann vill gefa upp. Úlfur Eldjárn var aðalmaðurinn í tónlistinni ásamt Valdimar Guðmundssyni og Elvari Geir Sævarssyni; tónlistin kom aðallega inn á ögurstundu og stóð sig vel!

Upphaf er skemmtilegt verk en líka einlægt og ágengt og það á brýnt erindi við fólk á öllum aldri – einkum þó unga fólkið.

Silja Aðalsteinsdóttir