Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gærkvöldi á stóra sviði Borgarleikhússins Macbeth eftir William Shakespeare í nýrri prýðilegri þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar. Leikstjóri var undrabarn frá Litháen, Uršulė Barto, Milla Clarke hannar leikmynd, Liucija Kvašytė sér um búninga og leikgervi, Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson um tónlistina en hljóðmyndin er í höndum Þorbjörns Steingrímssonar. Lýsingin og hin viðamikla myndbandshönnun er verk Pálma Jónssonar. Dramatúrg sýningarinnar er Andrea Elín Vilhjálmsdóttir.

Það geisar stríð í heimi verksins. Dúnkan konungur (Sólveig Guðmundsdóttir) er fjarri vígstöðvum en fær fregnir með særðum liðsforingja (Ásthildur Úa Sigurðardóttir) af hetjulegri framgöngu herstjórans Macbeths (Hjörtur Jóhann Jónsson). Undir lofið tekur aðalsmaðurinn Ross (Bergur Þór Ingólfsson) um leið og hann klagar Kafdor jarl sem kóngur sviptir tignarheiti sínu og flytur það yfir á Macbeth. Okkur er því ljóst áður en aðalpersónan stígur á svið hve mikil hetja hann er og að frami hans er vís. Allt er þetta kvikmyndað af fréttamönnum sjónvarps og varpað á bakvegg.

En uppi á heiði eru Macbeth og félagi hans Bankó (Sigurður Þór Óskarsson) á leið heim úr stríðinu þegar þeir sjá mikla sýn: þeim birtast þrjár all undarlegar konur (Rakel Ýr Stefánsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Esther Talía Casey) sem staddar eru á skrifstofu frá því um 1990, á að giska. Þær þekkja hermennina og flytja Macbeth óvænta spádóma. Þær vita að hann hefur hlotið jarlstign af Kafdor og bæta við að hann verði kóngur. Þetta skrifar Macbeth lafði sinni (Sólveig Arnarsdóttir) sem undir eins kveikir á því að hér verði hún að stíga inn og hvetja mann sinn til að taka örlögin í eigin hendur.

Þar með hefur verið lagður grunnurinn að illvirkjum Macbeths og sömuleiðis túlkun Uršulė Barto sem tengir valdaskiptin í verki Shakespeares beint við valdaskiptin í Rússlandi fyrir síðustu aldamót. Þetta verður að sönnu talsvert bratt en tímaflutningurinn er nánast alveg bundinn við umgerðina – textinn fær að halda sér, þó styttur, en vissulega er snúið út úr honum á ýmsan hátt með áherslum, kynusla og túlkun. Til dæmis gerir Bergur Þór Ross að hálfgerðum brandarakarli og samtal Malkolms konungssonar (Árni Þór Lárusson) og Macduffs (Björn Stefánsson) varð ansi skondið þegar ljóst var að Macduff væri í samkynja hjónabandi.

Margt var afar skemmtilega gert. Nornirnar voru hreint frábærar, öll lögnin og hvort sem var á myndbandi eða í holdinu á sviðinu. Samtal herra Macduffs (Haraldur Ari Stefánsson) við son sinn var sniðugheitin uppmáluð. Kvenkyns morðingi (Ásthildur Úa) notaði einkar athyglisverða aðferð til að myrða Bankó. Og auðvitað eru Pussy Riot beinir afkomendur nornanna þriggja!

Sólveig var bæði glæsileg og sköruleg lafði Macbeth og góð viðbót að hafa hana háólétta þegar hún kynnir áætlanir sínar fyrir okkur. Fyrstu einræðu lafðinnar flutti hún af tilfinningahita og innlifun sem annars var ekki áberandi í sýningunni. Hjörtur Jóhann var hins vegar helst til bældur í hlutverki sínu og varð furðu lítið úr frægum einræðum bæði þess vegna og sem bein afleiðing af sviðsetningu. Þetta er eflaust samkvæmt fyrirmælum leikstjóra sem þar eins og víðar er ekki að hugsa um verk Shakespeares heldur sína sérstöku leið að því gegnum sögu Rússlands og Austur-Evrópu á síðustu áratugum. Þessi skilningur var spennandi valkostur um það leyti sem gert var aukahlé á sýningunni vegna tæknilegra örðugleika eftir vel rúman klukkutíma en var svo troðið duglega ofan í okkur eftir það. Tónlistin var gamaldags (eins og skrifstofa nornanna) og heldur ágeng á köflum og veislan í híbýlum Macbeth-hjóna nóttina sem Dúnkan kóngur er myrtur var of löng og leiðinleg. En það eru veislur Pútíns eflaust líka.

Leikmynd Millu Clarke er fjölbreytt og geysimikið í hana lagt og sömuleiðis tímalausir búningar Liuciju Kvašytė. Þarna ægir öllu saman og var ekkert til sparað enda hélt sýningin manni glaðvakandi og á tánum allan tímann. Þetta var ekki beinlínis sá Macbeth sem ég hef hlakkað til að sjá í allan vetur en kannski hefur hér tekist að búa til Shakespeare-sýningu fyrir nýja kynslóð leikhúsgesta.

 

 

Silja Aðalsteinsdóttir