Það er umtalsvert afrek sem Sveinn Ólafur Gunnarsson vinnur á sviði Tjarnarbíós í verkinu Rocky sem Óskabörn ógæfunnar frumsýndu þar á föstudagskvöldið undir stjórn Vignis Rafns Valþórssonar. Sveinn er einn á sviðinu í um það bil 80 mínútur, talar allan tímann, lendir í hörkubardaga við ósýnilegan andstæðing og sýnir sjálfum sér að lokum þá dýpstu fyrirlitningu sem hugsast getur. Ég var eiginlega alveg lömuð þegar hann gekk út af sviðinu.

Rocky

Rocky er nýr danskur einleikur eftir Tue Biering sem byggir á frumlegan hátt á bíómyndunum um boxarann Rocky með Sylvester Stallone. Nú hef ég ekki séð neina af þeim kvikmyndum, sem munu vera sex fyrir utan afleiddar myndir, en sama varð ekki sagt um alla aðra áhorfendur í gærkvöldi. Talsverður hópur í salnum gat meira að segja sungið titillagið, umbeðinn. En það er ekki Rocky sem við sjáum á sviðinu; þar stendur sögumaður sem segir okkur söguna af Rocky, og þessi sögumaður upplýsir okkur um það að hann sé fæddur sama ár og fyrsta kvikmyndin var frumsýnd, 1976. Þetta á einnig við um Svein Ólaf leikara þannig að hann lætur eins og það sé hann sjálfur sem segir okkur söguna af fátæka ítalska stráknum sem varð heimsmeistari í hnefaleikum. Það er vandi að leika sjálfan sig en Sveinn Ólafur er eins og fiskur í vatni meðan hann spjallar við okkur og rifjar upp söguna af Rocky Balboa.

Einhvers staðar á leiðinni sveigir sögumaðurinn út af sögunni um Rocky kvikmyndanna þannig að hann verður meira pólitískur aktífisti sem vill „bjarga heiminum“ – raunar aðallega, að því er virðist, frá fólki eins og sögumanni okkar sem er velmenntaður, víðsýnn maður með sérstakan áhuga á heimspeki. Þá þróast sögumaðurinn líka á sviðinu, vex út úr afslöppuðum leikaranum og verður einlægur baráttumaður fyrir sínum lífsskoðunum. Og þá takast þeir á, Rocky og sögumaður, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Þetta er kolsvart verk en býsna brýnt nú um stundir þegar virðist stefna í endurtekningu á nýliðinni sögu. Vignir Rafn hefur valið vel í hlutverk sögumannsins, enda hefur Sveinn Ólafur áður leikið stór hlutverk undir stjórn Vignis með eftirminnilegum árangri. Enóla Ríkey sér um svið og búninga og var hvort tveggja sérlega vel hugsað – búningur sögumanns smart, sviðið blóðhrátt en tók vel á móti öllum aukahlutum og aðgerðum. Lýsingin var sömuleiðis gróf og stuðandi og flott.

 

Silja Aðalsteinsdóttir