Hvað sem þið viljiðÞað fer einkar vel á því að dreifa brotum úr gömlum Bítlalögum um nýju Shakespeare-sýninguna þeirra Ágústu Skúladóttur leikstjóra og Karls Ágústs Úlfssonar þýðanda og skálds í Kassa Þjóðleikhússins: Hvað sem þið viljið. Ástarsöngvar Bítlanna hafa einmitt þennan ungæðislega brag sem aðstandendur vilja ná: að lífið sé leikur og um að gera að skemmta sér sem best þótt ekkert sé eins og það á að vera í tilverunni. Enda er ást allt sem þarf, eins og kunnugt er.

Rósalind (Katrín Halldóra Sigurðardóttir) og Selja (Þórey Birgisdóttir) eru bræðradætur og hafa alist upp saman eins og systur. Það gengur ekki hnífurinn á milli þeirra þótt Friðrik hertogi, faðir Selju (Sigurður Sigurjónsson) hafi flæmt eldri bróður sinni, föður Rósalindar (Guðjón Davíð Karlsson) í útlegð og sölsað undir sig ríki hans. Og þegar Friðrik fær allt í einu nóg af Rósalind og rekur hana líka burt úr höllinni fer Selja með henni og þær flýja til skógar. Með sér hafa þær hirðfífl Friðriks, Prófstein (Hallgrímur Ólafsson). Rósalind dulbýr sig sem ungan karlmann og kallar sig Ganimedes en Selja fer í fátæklega larfa og þykist vera alþýðustúlkan Aliena.

Á skóginn flýr einnig aðalsmaðurinn Orlando (Almar Blær Sigurjónsson) undan eldri bróður sínum, Óliver (Guðjón Davíð) sem neitar honum um föðurarfinn og rekur hann frá sér. Orlando og Rósalind höfðu áður sést í mýflugumynd og orðið heiftarlega ástfangin og þegar þau hittast aftur í skóginum hefst mögnuð flétta. Orlando trúir Ganimedes fyrir brjálæðislegri ást sinni á Rósalind og Ganimedes (þ.e. Rósalind) býðst til að lækna hann af henni með því að leika Rósalind og gera hann leiðan á henni. Þarna höfum við þá stúlku sem þykist vera piltur sem leikur stúlku – og á tímum Shakespeares bættist einn hlekkur við enn því þá var Rósalind auðvitað leikin af pilti. Þvílíkur yndis-kynusli! Orlando slæst í hóp með föður Rósalindar í skóginum og hirð hans, m.a. heimspekingnum Jakobi (Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir). Auk þess eru í skóginum smalar af báðum kynjum og bæði sauðfé og hjartardýr sem leikararnir leika líka. Útlagarnir rækta vinskap og ást, kveðast á og syngja saman og þarna þarf sannarlega engum að leiðast.

Í leikhópnum eru margir helstu gamanleikarar landsins og hann tekur leikinn alla leið. Fyrirliðinn Guðjón Davíð kynnir þá ætlun þeirra í upphafi að leika þetta leikrit fyrir áhorfendur; hann deilir hlutverkum á hópinn og þurfa sumir að leika mörg, ólík hlutverk, meðal annars leikur hann sjálfur fimm hlutverk en Hilmar Guðjónsson slær honum við með sín sex! Báðir glönsuðu í hverju einasta hlutverki. Sigurður Sigurjónsson ætlaði að steindrepa salinn úr hlátri í hlutverki illa hertogans Friðriks en vakti innilega samúð í hlutverki gamla þjónsins Adams sem fylgir Orlando unga á skóg þótt hrumur sé. Steinunn Ólína var gustmikill Jakob þegar hún las yfir félögum sínum um rétt og rangt og fór afar vel með þær fínu ræður sem Shakespeare lét þessari persónu í té, m.a. pistilinn fræga um að veröldin sé leiksvið og við séum öll leikarar sem streitumst við að leika okkar hlutverk frá vöggu til grafar. Hún fékk líka að vera smalastúlkan Fífí sem verður ástfangin af Rósalind í dulbúningi en þarf að sætta sig við smalann Silvíus (Guðjón Davíð) þegar hið sanna kemur í ljós. Hallgrímur var skemmtilegur Prófsteinn, ekki síst þegar hann gerir gys að ástarljóðum Orlandos til Rósalindar; svo verður hann ekkert skárri sjálfur þegar hann fellur fyrir smalastúlkunni Öddu (Kristjana Stefánsdóttir). Þarna er sem sé ekki eingöngu kynusli heldur mikill og ósvífinn stétta-usli sem Shakespeare hafði gaman af.

Þórey Birgisdóttir var afskaplega falleg og fín Selja prinsessa en naut sín jafnvel betur sem alþýðustúlkan Aliena í skóginum. Almar Blær var glæsilegur elskhugi og ástarbríminn fór honum vel. Sama má segja um Katrínu Halldóru sem dró bæði hann, Fífí og allan salinn á tálar hvort sem hún var í stelpugervi eða stráks, svo sexy að það hálfa hefði verið nóg auk þess sem hún fékk að flytja indælu lögin hennar Kristjönu Stefánsdóttur, ýmist ein eða með tónskáldinu, á sinn einstaka hátt. Best af öllu var þó hvað þau áttu öll þrjú auðvelt með að sýna tilfinningahita, ást, girnd og innilega gleði – eins og átti raunar við um allan hópinn.

Ný þýðing Karls Ágústs er verulega hnittin og rann snilldarvel. Hann hikar ekki við að grípa til götumáls þar sem það hentar og söngtextarnir eru fínir við lögin hennar Kristjönu sem líka var tónlistarstjóri sýningarinnar. Það þarf að tryggja að þau komist út fyrir leikhúsið því að mörg þeirra eiga heima í safni íslenskra sönglaga. Leikmynd Þórunnar Maríu Jónsdóttur var afar stílfærð og falleg mynd af annars vegar hertogahöll og hins vegar skógi í vorsins blóma og búningarnir voru fjölbreytt safn af stælingum á fatnaði frá tímum Shakespeares og síðar, dillandi skemmtilegir.

Þau orð eiga líka við um sýninguna í heild. Hún er sannkallað stjörnuljós í vetrarmyrkrinu. Fyndin, fjörug, ástleitin og innileg.

 

Silja Aðalsteinsdóttir