Það var ótrúlega gaman að hlýða á Ástardrykkinn eftir Donizetti í Íslensku óperunni í gærkvöldi. Félagi minn á frumsýningunni hafði séð uppsetningu á verkinu í sjálfri Vínaróperunni fyrir fáum árum og hann fullyrti að söngurinn væri alveg eins góður hér og þar. Það kom mér ekki á óvart. Hér er valinn maður í hverju einsöngshlutverki: Garðar Thor Cortes söng Nemorino, Dísella Lárusdóttir Adinu, Hallveig Rúnarsdóttir Giannettu, Ágúst Ólafsson Belcore og Bjarni Thor Kristinsson bruggarann sjálfan, Dulcamara. Að öðrum ólöstuðum voru þessir tveir síðastnefndu stórkostlegastir. Hvílíkir söngvarar og túlkendur, hvílíkir grínarar og glæsilegir karlmenn! Auk þessara stjarna söng kórinn skínandi vel, og utan um allt þetta hélt Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri af öryggi.

Ástardrykkurinn

Sagan gerist í dálitlum bæ einhvern tíma í eilífðinni og er auðvitað óttalegt bull. Adina segir bæjarbúum vinum sínum söguna af Tristan og Ísold sem hún var að lesa og þá fær æskuvinur hennar Nemorino þá hugmynd að ástardrykkur geti kannski snúið hug hennar til sín – því hann er ástfanginn af Adinu og lætur sér vinskap ekki nægja. Svo bráðvel ber í veiði að Dulcamara farandsala ber að um sama leyti og hann á að sjálfsögðu hina eftirsóttu vöru. Reyndar hvíslar hann því að okkur í salnum að það sé bara rauðvín í flöskunni. En drykkurinn – eða eitthvað – gerir sitt gagn. Adina hættir við að gefast aðkomna hermanninum Belcore og þau Nemorino ná saman – eftir að hann hefur sungið fyrir okkur frægasta lagið í verkinu, Una furtiva lagrima. Sem Garðar Thor gerði með prýði og uppskar bravóhróp að launum.

En það var ekki af tilviljun sem ég sagði í upphafi að það væri „ótrúlega gaman að hlýða á“ þessa sýningu. Það er nefnilega ekki líkt því eins gaman að horfa á hana þótt söngvararnir séu svona sætir. Leikmyndin (Guðrún Öyahals) er eiginlega engin og hefði kannski betur verið alls ekki nein – nema lýsingin sem var fín (Páll Ragnarsson). Búningarnir (Katrín Þorvaldsdóttir) voru óttalega óásjálegir og sumir pössuðu meira að segja illa. Leikstjórnin (Ágústa Skúladóttir) virtist ekki hafa verið upp á marga fiska, alla vega voru sviðshreyfingar oft klaufalegar og söngvararnir böðuðu alltof mikið út höndunum – fyrir utan Bjarna Thor og Ágúst sem vissu alltaf hvað þeir áttu að gera og hvenær.

En ekki láta nöldur út af yfirborðsmynd trufla ykkur og koma í veg fyrir að þið heyrið þessa yndislegu músík. Það er hún sem situr þegar allt annað er löngu gleymt.

 

Silja Aðalsteinsdóttir