Fyrsta sögubókin sem var gefin út handa íslenskum börnum hét Sumargjöf handa börnum og kom út 1795. Í henni voru margar móralskar sögur af óþekkum börnum sem hefndist grimmilega fyrir að hrekkja, heimta, vera matvönd eða frek, lygin, forvitin, fælin og þver. Bókin var þýdd úr þýsku og það er einmitt uppeldisfræði af hennar tagi sem dr. Heinrich Hoffmann er að gera gys að í sinni langlífu vísna- og myndabók Der Struwwelpeter frá 1845. Árið 1998 var frumsýndur í Englandi söngleikurinn Strýhærði Pétur sem byggðist á þessari gömlu barnabók, og í gærkvöldi var hann frumsýndur á Litla sviði Borgarleikhússins undir stjórn Jóns Páls Eyjólfssonar.

Strýhærði PéturHoffmann samdi sögurnar beinlínis handa syni sínum af því honum hugnuðust ekki bækurnar sem voru í boði handa honum, og löngu er vitað að langlífustu barnasögurnar eru einmitt af því tagi: Sögur samdar handa börnum sem höfundi eru nákomin. Þess vegna er leitt að Borgarleikhúsið skuli ekki leyfa börnum að koma á sýninguna á Strýhærða Pétri, en nútímabörn hafa auðvitað ekki réttan undirbúning undir efnið eins og sonur Hoffmanns og lesendur Sumargjafar handa börnum höfðu. Auk þess yrði erfitt fyrir börn að njóta sýningarinnar því áhorfendur standa á gólfi Litla sviðsins í einn og hálfan tíma, og það yrði mikið álag á litla fætur, auk þess sem erfitt væri fyrir þau að sjá sum atriðin með fólk af öllum stærðum í kring. Ég tala hér af eigin reynslu sem fremur lágvaxin manneskja. Mörg atriðin eru leikin uppi á svölum, og þau sáust vel, en þau sem eru leikin á neðri hæðinni voru erfiðari.

Persónurnar sem birtast okkur í litlum sviðsgluggum hringinn í kringum sviðsgólfið meðan sungið er um þær á hljómsveitarpallinum eru dregnar afskaplega skýrum dráttum. Þar eru í öndvegi móðirin og faðirinn (Halldóra Geirharðsdóttir og Þórir Sæmundsson) sem þrá svo heitt að eignast barn og verða fjöðrum fegin þegar storkurinn færir þeim agnarlítinn dreng. En hann veldur þeim hastarlegum vonbrigðum með sífelldum gráti sínum, og svo fer að þau afrækja hann uns hann verður sá strýhærði ódámur sem verkið ber heiti af. Þar hittum við líka meðal annarra Hrafnhildi (Kristín Þóra Haraldsdóttir) sem lék sér með eldspýtur og brenndi sjálfa sig til ösku (allt nema skóna), Örn (Halldór Gylfason) sem alltaf var að iða sér á eldhússtólnum uns hann datt aftur fyrir sig, rotaðist og dó, Má meinhorn (Halldór aftur) sem lamdi hundinn sinn uns hann beit Má til bana, Konráð (Hallgrímur Ólafsson) sem saug á sér þumalputtana þangað til hinn mikli klippari (Hilmir Snær Guðnason) kom og klippti þá af og Konráði blæddi út! Allar sögurnar tengir siðameistarinn sjálfur sem Hilmir Snær leikur innan um áhorfendur á gólfinu og nýtur hverrar sekúndu.

Þetta eru rosalega skemmtilegar sögur í hrikaleik sínum, og Halla Gunnarsdóttir hefur skapað heilan ævintýraheim í kringum þær og okkur áhorfendur. Hvert svið fær sína útfærslu og búninga, og ýmsar lausnir eru dýrlega fyndnar, til dæmis eldurinn sem brennir Hrafnhildi, borðbúnaðurinn sem fer á flug þegar Iðandi Örn kippir borðdúknum með sér í fallinu og fingurbrúðusýningin á atriðinu um strákaasnana sem stríddu svarta stráknum og var dýft í blek fyrir vikið svo þeir urðu allir svartir. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar var nákvæm og tók virkan þátt í leiknum, ekki síst í atriðinu um Róbert sem fór út að leika í roki og rigningu og flaug út í buskann á regnhlífinni sinni.

Lögin í söngleiknum eru eftir hljómsveitina Tiger Lillies en textinn eftir Julian Crouch og Phelin McDermot sem oftast þýða vísur Hoffmanns eða vinna út frá þeim en bæta við titilsögunni af strýhærða Pétri, tilkomu hans og kjörum i uppvextinum. Hallur Ingólfsson þýðir textann og nær ýktum stíl frumtextans ágætlega. Bragurinn er raunar ansi frumstæður, en ef maður telur sér trú um að þannig eigi hann að vera, og sé skopstæling á rímuðum leiktexta, þá fer hann að orka drepfyndinn. Hallur er líka söngvari og tónlistarstjóri sýningarinnar og þar bregst honum ekki bogalistin.
Þetta er dásamlegt sjónarspil og þrátt fyrir auma fætur naut ég þess í botn.

Ég mæli eindregið með sýningunni en ráðlegg ykkur
að vera vel skædd
og verða ekki hrædd
móðguð eða mædd …

Silja Aðalsteinsdóttir